«

»

Molar um málfar og miðla 1898

SÆLL Í SINNI TRÚ

Víkverji Morgunblaðsins er sæll í sinni trú (26.02.2016) Víkverji trúir því greinilega og er sannfærður um að ekki þurfi aðra fjölmiðla á Íslandi en Morgunblaðið. Í Víkverjapistlinum segir: ,,Ef það er ekki í Morgunblaðinu skiptir það ekki máli, sagði ágætur maður fyrir margt löngu. Þessi staðhæfing lifir ekki aðeins góðu lífi, að mati Víkverja heldur eykst mikilvægi hennar eftir því sem áreiti einkum og sér í lagi samskiptamiðla verður meira”. – Þetta er sérkennileg fullyrðing. Í kunningjahópi Molaskrifara eru fjölmargir, sem ekki eru áskrifendur að Morgunblaðinu, – af ýmsum ástæðum. Sumir þeirra hafa reyndar kosið Sjálfstæðisflokkinn í áratugi. Hafa kannski eitthvað bilað í trúnni seinni árin.   Á tímum Sovétríkjanna þótti þar um slóðir alveg nóg að hafa Prövdu. Morgunblaðið er oft ágætur fréttamiðill, en mistækur, rammpólitískur og enginn skyldi til dæmis taka bókstaflega það sem Morgunblaðið skrifar um ESB og samstarf Evrópuríkja. Um það er Morgunblaðið ekki góð heimild. Eftir á að hyggja hlýtur Víkverji Morgunblaðsins að hafa verið að gera að gamni sínu.

 

ENSKUDÝRKUNIN

Það er hættulegt fyrir íslenska tungu hve mörg íslensk fyrirtæki ávarpa okkur nú orðið á ensku, – rétt eins og enska sé móðurmál okkar, – ekki íslenska. Síðast til að bætast í þennan miður þekkilega fyrirtækjahóp er ríkisfyrirtækið Isavia, sem auglýsir með flenniletri á heilli síðu í Fréttatímanum (26.02.2016): CREATIVE TAKE OFF. Opinber fyrirtæki ættu að sjá sóma sinn í því að vera til fyrirmyndar í þessum efnum.

Í Garðapóstinum(26.02.2016), sem segist vera ,,óháð bæjarblað í Garðabæ” stendur á forsíðu ,,Stjarnan í final four – Sjá miðju blaðsins”.Molaskrifari er búsettur í Garðabæ. Hann veit ekki annað en að þar sé ennþá töluð íslenska. Þessi sletta á hvorki heima á forsíðu blaðsins né annarsstaðar.

 

 

HVERSVEGNA?

Hversvegna eru ekki fréttir í Ríkisútvarpinu frá því klukkan tvö á nóttunni til klukkan fimm að morgni? Halda stjórnendur Ríkisútvarpsins að þá sé öll þjóðin sofandi?

Svo er ekki. Fréttamaður er á vakt alla nóttina. Hann á að segja okkur fréttir á klukkutíma fresti alla nóttina

 

ÓSIÐUR

Það er ósiður hjá dv.is (og raunar fleiri netmiðlum) að blanda saman innlendum og erlendum fréttum á forsíðu án þess að auðvelt sé að greina þar á milli. Oft eru þar uppsláttarfréttir, jafnvel með fyrirsögnum, sem vísað gætu til Íslands, – en eru í raun erlendar fréttir með litla skírskotun til okkar. Það er eins og sé verið að plata okkur til að lesa uppsláttarfréttir úr mistraustum erlendum miðlum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>