LYSTISKIPIN
Í fréttum Stöðvar tvö (07.03.2016) var sagt frá lystiskipum (sem ævinlega eru kölluð skemmtiferðaskip) sem væntanleg eru til landsins á árinu. Það fyrsta væri þegar komið. ,,Skipið heldur af landi brott í kvöld”, sagði fréttamaður. Kannski hefði verið betra að segja, að skipið léti úr höfn í kvöld. Fréttamaður sagði okkur líka frá Reykjavíkurhöfn að þar væri skítakuldi. Í Reykjavík var 3-4 stiga hiti á mánudaginn. Fáir kalla það sennilega skítakulda í byrjun mars. En auðvitað eru menn misjafnlega kulvísir.
VONIR
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (07.03.2016) var talað um að binda vonir um eitthvað. Rétt er að tala um að binda vonir við eitthvað, vonast eftir einhverju. – Í morgunútvarpi (09.03.2016) var talað um nafnagift í staðinn fyrir nafngift.
Enginn les yfir.
KYNNINGARBLÖÐ Í FRÉTTABLAÐINU
Innan í Fréttablaðinu er blað eða síður, sem eru kallaðar Fólk. Í skýringu stendur: ,,Fólk er kynningarblað,sem býður auglýsendum að kynna vörur og þjónustu í formi viðtala og umfjallana. Í blaðinu er einnig hefðbundið ritstjórnarefni. Blaðið fylgir Fréttablaðinu daglega.” Þarna er viðurkennt að blandað er saman keyptum viðtölum, stundum um snákaolíu af ýmsu tagi, auglýsingagreinum og ritstjórnarefni. Allt er þetta gert til að rugla lesendur í ríminu. Óvandað og ófaglegt verklag.
LAUGARDAGSFRÉTTIR
Fréttatími Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (05.03.2016) var svolítið skrítinn. Nokkrar manneskjur mættu til mótmæla fyrir utan skrifstofur Tryggingastofnunar ríkisins. Löng frétt um það. Spyrja mætti: Hversvegna fóru mótmælin ekki fram við Alþingi eða velferðarráðuneytið? Tryggingastofnun framfylgir reglum, sem Alþingi og ráðuneytið setja. Ekki skal dregið úr því að hlutskipti öryrkja er slæmt í okkar auðuga samfélagi. Alls ekki. En þetta var á mörkum þess að vera fréttnæmt Svo var í fréttatímanum algjörlega innihaldslaust viðtal við mann, sem vill verða forseti Íslands. – Ýmislegt fleira og fréttnæmara var að gerast þennan dag, sem fréttastofan sá enga ástæðu til að nefna.
VETTVANGUR , AÐILAR – OG FLEIRA ÚR FRÉTTUM
Hér hefur stundum verið talað um vettvanginn, sem oft ber á góma í fréttum (08.03.2016). Á þriðjudagsmorgni sagði viðmælandi fréttamanns, að slökkvilið væri búið að afhenda lögreglunni vettvang þar sem búið væri að slökkva eld, sem komið hafði upp í verkstæðisbyggingu. Einnig var talað um að stjórna vettvangi. Stöð tvö sagði okkur á þriðjudagskvöld, að hundrað björgunaraðilar hefðu verið á brunastað. Aðilar koma víða við sögu. Gott ef aðilarnir voru ekki á vettvangi.
Sama morgun var talað um að kjósa gegn tillögu (um greiðslu arðs) á aðalfundi. Átt var við að greiða atkvæði gegn tillögu. Molaskrifari leggur enn einu sinni eindregið til að málfarsráðunautur skýri fyrir fréttaskrifurum muninn á því að kjósa og greiða atkvæði. Þetta orðalag, – að kjósa gegn tillögu var reyndar einnig notað í forsíðufrétt í Morgunblaðinu sama dag.
Þá var sagt í fréttum:,, Allir þeir sem koma ólöglega yfir Eyjahafið verður snúið við …” Þetta er rangt. Það hefðu fréttaskrifari og fréttalesari átt að skynja. – Öllum þeim sem koma ólöglega yfir Eyjahafið verður snúið við.- Þetta var sagt að minnsta kosti þrisvar í fréttum fram til klukkan níu. Í hádegisfréttum var búið að lagfæra þetta. Hlustaði enginn fyrr en undir hádegi?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
09/03/2016 at 17:32 (UTC 0)
Dapurlega gaman að þessu ! Takk.
Kristján skrifar:
09/03/2016 at 17:08 (UTC 0)
„Slökkvliðið væri búið að afhenda lögreglunni vettvang“. Hlægilegt !
Eftirfarandi fyrirsagnir birtust í gær og í dag:“Ég hafði tapað allri von“ (lost all hope). DV.is
Og svo þessar á Visir.is:
„Deildarmeistaratitilinn í augnsýn hjá Haukum“.
„Katrín fer ekki í forsetann“.
„Yfirgnæfandi líkur á að Össur fari fram í forsetann“.
Eru menn alveg hættir að bjóða sig fram ?