MEIRI ENSKA
Í Garðapóstinum, (17.03.2016), sem dreift er í hús í Garðabæ, er sagt frá nýrri hárgreiðslustofu. Stofan heitir: Deep House Hair og byggir á Walk-in kerfi. Kannski er stofan eingöngu ætluð enskumælandi fólki, sem býr í Garðabæ? En svokallað Walk-in kerfi mun þýða að ekki þurfi að panta tíma. Svo er auðvitað bara púkó og sveitó, eins og sagt var í gamla daga að gefa nýrri hárgreiðslustofu íslenskt nafn. Enskan er í sókn. Hvað þýðir annars Deep House Hair? Molaskrifari á að heita löggiltur skjalaþýðandi úr og á ensku , en þetta skilur hann ekki. Sennilega er þetta bara merkingarlaust bull.
ÁREKSTUR
Á mbl.is (16.03.2016 ) var sagt frá þriggja bíla árekstri á Skothúsvegi í Reykjavík. Í fréttinni sagði: ,, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út fyrir skömmu vegna þriggja bíla áreksturs á Skothúsvegi, eða þar sem brúin liggur yfir Reykjavíkurtjörn. “ . Hefði ekki verið einfaldara að segja að áreksturinn hefði orðið á Tjarnarbrúnni ( á Skothúsveginum) ? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/16/thriggja_bila_arekstur_2/
HUGSUNARVILLA?
Glöggur lesandi benti Molaskrifara (18.003.2016) á eftirfarandi úr fésbókarpistli sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifaði til varnar eiginkonu sinni, sem varðveitir auð sinn á skattaskjólseyjunni Tortólu: ,, En þegar menn leggjast svo lágt að velta því upp hvort kona mín eigi ekki að teljast til hrægamma fyrir að hafa tapað peningum á bankahruninu get ég ekki látið það óátalið. Enginn á slíkar ákúrur síður skilið en hún.” Í þessu er hugsunarvilla, að Molaskrifari fær best séð. Einu ekki er þarna ofaukið.
BARNAMÁL Á SMARTLANDI
Fyrirsögn á barnamáli er á svo kölluðu Smartlandi á mbl.is (17.03.2016). Þaðan er maður reyndar öllu vanur: Vann sig í þrot og klessti á vegg. Þarna þyrfti einhver fullorðinn að vera til eftirlits. Sjá: http://www.mbl.is/smartland/frami/2016/03/17/vann_sig_i_throt_og_klessti_a_vegg/
LJÁÐI
Göggur lesandi benti Molum á eftirfarandi á mbl.is (20.01.2016): ,,Handritið fyrir Frozen 2 er nánast tilbúið. Þetta segir leikkonan Kristen Bell en hún ljáði Önnu prinsessu rödd sína í myndinni.” Ljáði rödd sína. Það var og http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/19/handrit_frozen_2_naestum_tilbuid/
GETTU BETUR
Spurningaþættir geta verið skemmtilegir í sjónvarpi, en þegar þeir eru teygðir upp í næstum einn og hálfan klukkutíma eins og lokaþáttur Gettur betur var síðastliðinn föstudag (18.03.2016) verða þeir eiginlega langir og leiðinlegir.
FLJÚGANDI SKIP?
Svona spyr Áskell í tölvubréfi til Molaskrifara. Til efnið er frétt á mbl.is (16.03.2016) með fyrirsögninni:
„Argentínumenn skutu niður kínverskt skip“ Hann spyr: Getur verið að skipinu hafi verið sökkt? – Já, það kemur reyndar fram í upphafi fréttarinnar. Þetta orðalag er Molaskrifara ekki framandi. Hefur oft heyrt að skip, sem sökkt hefur verið, hafi verið skotin niður. Þakka bréfið, Áskell. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/16/argentina_skaut_nidur_kinverskt_skip/
NÝBÓNAÐIR SKÓR
Af mbl.is (20.03.2016): ,,Hann var klæddur hvítri skyrtu, blárri peysu, buxum úr flaueli, jakka og svörtum skóm sem voru nýbónaðir.”
Nú er samkvæmt Mogga farið að bóna skó! Molaskrifari hefur til þessa aðeins heyrt talað um nýpússaða eða nýburstaða skó. En maður er alltaf að heyra eitthvað nýtt!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar