FISKUR OG FISKI
Rafn skrifaði (16.03.2016): ,,Sæll Eiður
Fólk virðist vera hætt að gera greinarmun á karlkynsorðinu fiski (fiskur-fisk-fiski-fisks), sem er notað um sjávardýr, og kvenkynsorðinu fiski (fiski-fiski-fiski-fiskjar), sem merkir fiskveiðar. T.d. var í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi talað um fiskihjalla suður á útnesjum. Slíks fyrirbæris hefi ég aldrei heyrt getið fyrr, þótt fiskhjallar hafi verið algengir í mínu ungdæmi. Þeir voru hins vegar aldrei notaðir til veiða.
Sama villan gengur ítrekað aftur, samanber „Fiskikónginn“, sem selur fisk en kemur mér vitanlega ekki nálægt veiðum, fiskibollur og ótal fleiri dæmi.” Kærar þakkir, Rafn,. Réttmæt ábending.
VISA INK
Í fréttayfirliti fyrir kvöldfréttir Ríkisútvarps á miðvikudagskvöld var enn einu sinni talað um Visa ink, án allra skýringa, – sennilega var átt við Visa í Bandaríkjunum, Visa Inc. (incorporated). Í fréttatímanum var sagt: … þegar verðmæti Borgun jókst mikið. Verðmæti (fyrirtækisins) Borgunar jókst mikið.
ENN UM ÞOLMYND
Hér hefur oft verið bent á að germynd er ævinlega betri í fréttaskrifum en óþörf þolmynd. Þetta er af mbl.is (15.03.2015): ,,Flugvélarnar voru kyrrsettar af SAS árið 2007 vegna vandamála með lendingarbúnað.” SAS tók vélarnar tímabundið úr umferð, eða notkun, vegna bilana í lendingarbúnaði fyrir 9 árum. Þetta eru víst ,,nýju vélarnar”,sem Flugfélag Íslands var að kaupa. Eða hvað? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/15/ein_af_kyrrsettum_flugvelum_sas/
EKKERT VIÐ AÐ BÆTA
Í seinni fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (16.03.2016) heyrði Molaskrifari ekki betur en ágætur fréttaþulur segði í frétt um málefni Landsbankans:,, Upplýsingafulltrúi bankans segir ekkert við yfirlýsinguna að bæta.” Vonandi var þetta misheyrn.
ÞARFUR ÞÁTTUR
Kiljan hans Egils Helgasonar er þarfur þáttur og vel unninn. Þar er vakin athygli á svo mörgu , sem annars færi fyrir ofan garð og neðan, – að minnsta kosti hjá þeim,sem þetta skrifar. Svo hefur Egill greinilega svo gaman að þessu, að hann eiginlega iðar í skinninu. Það er meðal þess sem gerir þáttinn góðan.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar