SKORTUR Á FJARVERU
Ágætur Molalesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi í vefritinu Kjarnanum (20.03.2016): ,, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og forsvarsmaður stærstu undirskriftasöfnunar Íslandssögunnar, segir skort á fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra frá Alþingi bitna á allri þjóðinni”. Biturt háð hjá Kára. Hann á ekki langt að sækja kaldrifjaðan húmor.
http://kjarninn.is/frettir/2016-03-18-segir-skort-fjarveru-sigmundar-davids-bitna-allri-thjodinni/
KLAUFALEGT
Í sunnudagsfréttum Bylgjunnar á hádegi (20.03.2016) var greint því að Íslendingur hefði ekki verið meðal hinna særðu í ódæðisverki ,sem framið var í Istanbul, – andstætt því sem stjórnvöld í Tyrklandi höfðu tilkynnt. Næsta kom svo úrelt frétt um að ekki væru fyrir hendi frekari upplýsingar um Íslendinginn, sem særst hefði! Þetta voru einkar klaufaleg vinnubrögð. Það var búið að vinna frétt. Um að gera að nota hana, þótt hún væri ekki lengur frétt.
ÁRTÍÐ
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (20.03.2016) talaði mæt kona eins og á þessu ári væri hundrað ára ártíð Kristjáns Eldjárns fyrrverandi forseta Íslands. Sjötta desember á þessu verða liðin hundrað ár frá fæðingu Kristjáns. Ártíð er dánarafmæli. Hundrað ára ártíð Kristjáns verður 14. september 2082. Undarlegt hve mörgum verður fótaskortur á notkun orðsins ártíð.
DÝFLISSUSTRÝ
Hér í Molum var nýlega sagt frá nýrri hárgreiðslustofu í Garðabæ sem héti Deep House Hair. Vinur Molanna, sem er búsettur erlendis, hefur lagt til að stofan verði kölluð Dýflissustrý. Góð hugmynd.
ER ÞAÐ ÖRUGGT?
Er það öruggt að enginn Íslendingur hafi særst? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps að kvöldi dags voðaverkanna í Brussel. Sendiherra Íslands, Bergdís Ellertsdóttir, svaraði af yfirvegun og skynsemi. Aðvitað var ekkert hægt að fullyrða um það. Ekki hafði verið greint frá þjóðerni þeirra, sem létust eða særðust. Áreiðanlega voru tugir íslenskra ferðamanna í Brussel þennan dag, fólk sem sendiráðið vissi ekkert um og hafði ekkert samband haft við sendiráðið. Sendiráð Íslands og starfsfólk þess stóð sig greinilega með miklum ágætum þennan erfiða dag.
ORÐ AF ORÐI
Þáttur Önnu Sigríðar Þráinsdóttur, málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins, Orð af orði, er konfekt fyrir þá sem áhuga hafa á tungunni. Þátturinn sl. sunnudag (20.03.2016) var þar engin undantekning. Gaman að vangaveltum um uppruna landaheitisins Noregur. Rifjaðist upp fyrir mér, að vinur minn Ivar Eskeland, sagði alltaf að landið héti Noreg. Norge væri bara dönsk prentvilla!
OF OFT
,, Framsýn stéttarfélag hefur eftirlit með því að starfsfólk þessara félaga sé greitt samkvæmt kjarasamningum samningum og að ….” Svona var tekið til orða í hádegisfréttum Ríkisútvarps (22.003.2016).. Þarna hefði auðvitað átt að segja, , – að starfsfólki þessara félaga sé greitt … Villur af þessu tagi heyrum við of oft í fjölmiðlum.
Nú ætlar Molaskrifari að sitja á strák sínum fram yfir páska og gera hlé á nöldrinu. Segir bara við vini, velunnara og lesendur:
GLEÐILEGA PÁSKA!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar