«

»

Molar um málfar og miðla 1916

 

FYRIRSAGNIR

Hversvegna hafa tölustaf í upphafi fyrirsagnar: 1 árs stúlka hvarf úr rúmi sínu (mbl.is 25.03.2016) ?

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/25/1_ars_stulka_hvarf_ur_rumi_sinu/

Hversvegna ekki: Eins árs stúlka hvarf úr rúmi sínu ? Betra.

 

STULDUR

Molaskrifari hefur oft velt því fyrir sér hvað íþróttafréttamenn eiga við, þegar þeir tala um að íþróttalið hafi stolið sigrinum, eða næstum stolið sigrinum (25.03.2016). Hvenær vinna menn sigur, sigra, og hvenær stela menn sigri?

 

ÚTGÁFA NAFNS

,,Nafn hans hefur ekki enn verið gefið út”, sagði fréttamaður í hádegisfréttum Bylgjunnar á föstudaginn langa (25.03.2016). Átt var við grunaðan hryðjuverkamann. Nafn hans hafði ekki verið birt, – ekki hefur verið greint frá nafni hans , hefði til dæmis verið eðlilegra að segja.

 

 

UM

,, … en eru nú um þrjú þúsund áttatíu og sjö”, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (25.03.2016) um fjölda félaga í tilteknum samtökum. Voru félagarnir ekki bara þrjú þúsund átta tíu og sjö, 3087 ? Ekkert um.

 

FALLAVILLA

Í fréttayfirliti Bylgjunnar á skírdag (24.03.2016) var sagt: ,,Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur að hann hafi ekki borið nein skylda til að …” Enginn les yfir. Ekki frekar en venjulega. Ekki frekar en annarsstaðar. Honum hafi ekki borið nein skylda til ….

 

 

 

 

EKKI GOTT

Í frétt Stöðvar tvö (25.03.2016) um tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður, var meðal annars sagt: ,, Hún segir fjöldi erlendra ferðamanna,sem sækja hátíðina fara vaxandi á hverju ári.” Ekki gott. Þarna hefði til dæmis mátt segja: Hún segir að erlendum ferðamönnum, sem sækja hátíðina fari fjölgandi á hverju ári.

 

UM FÉ

Þetta er fyrirsögn af fréttavef Ríkisútvarpsins (25.03.2016):Líst ekki á millifærslu án meiri fjár. Þetta er ambaga samkvæmt málkennd Molaskrifara. Þarna hefði til dæmis mátt segja: Líst ekki á millifærslu án meiri fjármuna.

http://www.ruv.is/frett/list-ekki-a-millifaerslukerfi-an-meiri-fjar

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Hvers vegna ekki: Ársgömul telpa…. [eða stúlka skilji menn ekki muninn á telpu og stúlku]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>