«

»

Molar um málfar og miðla 1917

 

KAUPMÁTTUR

Molavin skrifaði (29.03.2016): ,,Fréttastofa RUV hefur að undanförnu, bæði í útvarpi og sjónvarpi, fjallað um „kaupmátt eldri borgara.“ Ljóst má vera að ekki er hér átt við mansal – eða hvað fáist fyrir eldri borgara í viðskiptum – og því hæpið að tala um kaupmátt fólks; öllu heldur um kaupmátt ráðstöfunartekna umræddra aldurshópa.”. Þakka réttmæta athugasemd, Molavin.

 

ENN ER STIGIÐ Á STOKK

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á páskadag (27.03.2016) var sagt frá tónlistarhátíðinni á Ísafirði,sem lauk kvöldið áður. ,,Sjö flytjendur stigu á stokk”, var okkur sagt. Að stíga á stokk ( strengja heit) er notað um það þegar einhver lýsir því yfir að hann ætli að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Þetta orðalag er ekki notað um það þegar listamenn koma fram á sviði. En þetta heyrist því miður aftur og aftur , – og ekki bara í Ríkisútvarpinu.

 

VAR ALDREI Í SKÓLA

Í fréttum Ríkissjónvarp (26.03.2016) var rætt við Georg Breiðfjörð,sem varð 107 ára þann dag. Viðtalið var einnig birt á vef Ríkisútvarpsins . Bæði í viðtalinu og á vefnum segir: ,,Georg var aldrei í skóla, hann var aðeins í farskóla.”  Farskólar voru líka skólar. Kennarar fóru milli bæja og kenndu, þar sem húsakynni voru rýmst og börn af nágrannabæjum sóttu kennsluna. Um þetta má meðal annars lesa í ágætri bók, ,,Faðir minn, kennarinn”, (Skuggsjá , Bókabúð Olivers Steins 1983) Þar má líka lesa hvað ungt fólk með menntaþrá, löngun, köllun nánast, til að kenna, lagði á sig mikinn þrældóm til að komast í skóla. Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess, að ungir fréttamenn viti að farskólar voru skólar.

 

STAFSETNING

Eitt þeirra grundvallaratriða, sem, kennt var í stafsetningu hér áður fyrr (ásamt með réttri ritun orðanna , einkunn, miskunn, forkunn og vorkunn) var að í orðinu þátttaka eru þrjú t. Sá sem skrifaði þessa frétt á vef Ríkisútvarpsins (29.03.2016) hefur farið á mis við þennan fróðleik:

,,Meðal annars ráðherra í ríkisstjórn Íslands og fjallað um þáttöku annars áhrifafólks í íslenskum stjórnmálum í starfsemi aflandsfélaganna, sem til þessa hefur farið leynt.” . Sjá: http://www.ruv.is/frett/thrir-radherrar-tengdir-skattaskjolum

 

VEL GERT

Fróðleg  heimildamynd þeirra Páls Magnússonar og Jóns Gústafssonar um Alzheimer-sjúkdóminn var sýnd í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (30.03.2016). Sú fjölskylda fyrirfinnst örugglega ekki á Íslandi, sem ekki hefur haft kynni af þessum grimma sjúkdómi, sem engin lækning hefur enn fundist við. Það eitt er víst að sjúkdómurinn birtist ekki með nákvæmlega sama hætti hjá neinum tveimur einstaklingum. Þetta var vel gert. Rannsóknir vekja vonir.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>