SKYLDI – SKILDI
Molavin skrifaði (20.04.2016): „…(drottningin) var alltaf til staðar og skyldi þessar flóknu tilfinningar...“ segir í netfrétt Morgunblaðsins 20.04.2016 um Vilhjálm prins og hefur ekki verið leiðrétt allan morguninn. Það er með ólíkindum að starfandi blaðamenn á einu virtasta blaði landsins kunni ekki y-regluna en verra er þó að enginn taki eftir og leiðrétti. – satt segirðu, Molavin. Undir miðnætti á fimmtudagskvöld (21.04.2016) var þetta enn óleiðrétt á mbl.is. Yfirlestri og gæðaeftirliti er ekki til að dreifa í þeim mæli sem vera skyldi. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/04/20/drottningin_studdi_vilhjalm_eftir_modurmissinn/
FJÖR Í STJÓRNARRÁÐINU
Tveir góðvinir Molanna bentu Molaskrifara á meinlega prentvillu (?) í Kjarnanum (20.04.2016): Nýjar siðareglur…Forsætisráðuneytið mun semja nýjar siðareglur fyrir ráðherra í samræði við öll ráðuneytin. Þeir spurðu: Stóðlífi? – Greinilega fjör framundan í stjórnarráðinu, ef marka mátti þetta. Villan var leiðrétt síðar.
FÉKK GAT Á SKROKKINN
Í frétt á mbl.is (21.04.2016) segir:,, “Bátur strandaði í höfninni á Sauðárkróki í gærkvöldi. Báturinn var að koma inn eftir veiði gærdagsins þegar hann fékk gat á skrokkinn fyrir neðan sjólínu með þeim afleiðingum að sjór flæddi inn í vélarúmið.” Hvað gerðist? Engin skýring. En næsta málsgrein ber með sér að ekki hafi verið vanur maður á vaktinni og enginn til eftirlits, – eða til að lesa yfir: ,, Að sögn lögreglunnar á Sauðárkróki sigldi skipstjórinn beint upp í fjöru innan hafnaminnisins til að bjarga bátnum og strandaði honum þar. Tóku að því loknu við aðgerðir til að ná bátinum á þurrt og segir lögregla engum hafa orðið meint af.” Ágætu mbl.is menn, þið eigið að geta gert betur en þetta.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/21/batur_strandadi_i_hofninni_a_saudarkroki/
OG ÞÚ LÍKA ….
Fjölmiðlar hér féllu hundflatir fyrir einhverjum Kardashian systrum heimsóttu Ísland með föruneyti – fólk sem vel virðist eiga heima á svokölluðu Smartlandi mbl.is, þar sem oft er að finna slúður um fræga, ,,fína” fólkið. Það tekur þó út yfir allan þjófabálk, þegar Ríkissjónvarpið slæst í hópinn, leggst flatt og fjallar um þetta fólk undir liðnum Menning í Kastljósinu ! Önnur umfjöllunarefni Kastljóss þetta kvöld voru nær því að flokkast undir menningu.
BARNIÐ VAR FRUMSÝNT!
Nú er fræga fólkið farið að frumsýna börnin sín, ef marka má mbl.is og ekki lýgur Moggi. Ja, hérna.
Sjá: http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/04/20/frumsyna_frumburdinn/
ÚTVÖRPUÐ MESSA
Af heimasíðu Hallgrímskirkju á sumardaginn fyrsta (21.04.2016): Messan verður útvörpuð á Rás 1.- Ekki gott. Messunni verður útvarpað á Rás eitt. http://www.hallgrimskirkja.is/2016/04/20/skatamessa-a-sumardaginn-fyrsta/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar