«

»

Molar um málfar og miðla 1935

EKKERT LÁT Á AMBÖGUNUM

K.Þ. skrifaði Molum (23.04.2016) og benti á þessa ambögu á

vefnum Pressan – eyjan.is

„… þar sem skoðanakannanir hafa verið óafgerandi í báðar áttir.“

Ambögurnar í þessari frétt eru reyndar fleiri.

http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/04/23/obama-segir-breta-fara-aftast-i-rodina-ef-their-segi-sig-ur-esb-farage-obama-er-ad-rifa-nidur-bretland/

Hann bætir við: ,,Ekki virðast vera nein takmörk fyrir ambögunum!”

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

UPP ÚR ÖLLU VELDI

Miklu skiptir að rétt sé farið með orðtök, sem eru gömul og gróin í málinu. Í Fréttatímanum (22.-24.04.2016) segir í frétt um hækkun húsaleiguverðs: ,,…og leiguverð hefur rokið upp úr öllu veldi”.

Hér hefði fréttamaðurinn átt að skrifa , – … og leiguverð hefur rokið upp úr öllu valdi-  ekki veldi. . Með öðrum orðum, – leiguverð hefur hækkað mjög mikið. Orðið veldi getur fyrir utan vald, yfirlæti , verið hugtak eða tákn  í stærðfræði  lítill tölustafur fyrir aftan stærri tölustaf, sem sýnir hversu oft tiltekin tala er margfölduð með sjálfri sér.

 

KJÖRSTÖÐUM LOKAÐI!

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (24.04.2016) sagt frá kosningum í Serbíu. Kjörstöðum lokaði í Serbíu fyrir stundu, sagði fréttamaður. Molaskrifara rámar í að hafa heyrt þessa ambögu áður. Hvernig dettur fólki í hug að taka svona til orða? Að einhverju loki ? Kjörstöðum var lokað í Serbíu fyrir stundu.

 

SAGAN OG GRANDINN

Í kynningarblaði, svokölluðu, um Grandann út Í Örfirisey, starfsemi og mannlíf þar, sem fylgdi Fréttablaðinu á laugardag (23.04.2016) er birt ljósmynd af vesturhöfninni í Reykjavík ,sem sögð er frá árinu 1947. Í myndatexta er talað um Bæjarútgerð Reykjavíkur BÚR  Grandagarði 8. Húsið sem sést á myndinni hafði ekkert með Bæjarútgerð Reykjavíkur að gera árið 1947. Myndin er af húsi Fiskiðjuvers ríkisins sem reist var 1946 til 1947 og tók til starfa það ár. Frá þessu er ágætlega greint í fyrra bindi Sögu Faxaflóahafna, Hér heilsast skipin, eftir Guðjón Friðriksson , sagnfræðing. Bæjarútgerð Reykjavíkur eignaðist þetta hús ekki fyrr en árið 1959.

 

AMASON

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1600 (23.04.206) var sagt frá kóralrifi, sem fundist hefði undan ósum Amasonárinnar. Aftur og aftur var talað um Amasonána í fréttinni. Það er föst málvenja í íslensku að tala um Amasonfljótið og engin ástæða til að breyta því.

 

REKA – REKJA

Af forsíðu visir.is (24.04.2016): ,,Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rekið sex umferðarslys til farsímanotkunar síðan 2010. Tölur gefa ekki rétta mynd segir aðstoðaryfirlögregluþjónn.” Hér er ruglað saman sögnunum að reka og rekja. Réttilega var talað um að rekja í sjálfri fréttinni.

 

STEIG TIL HLIÐAR!

Enn talar fólk, síðast nýr utanríkisráðherra á Bylgjunni (24.04.2016), um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi stigið til hliðar. Hann steig ekki til hliðar. Hann baðst lausnar. Sagði af sér. Það á að segja hlutina eins og þeir eru. Raunar hrökklaðist hann úr embætti, en flokkssystkin hans eiga sjálfsagt erfitt að með að segja það hreint út.

 

VANDA SIG

Fyrirsagnasmiðir á hringbraut.is þurfa að vanda sig meira. Sprenging í breiðþotuflugi til Keflavíkur, var ekki góð fyrirsögn á frétt um aukið breiðþotuflug um völlinn (25.04.2015). http://www.hringbraut.is/frettir/sprenging-i-breidthrotuflugi-til-keflavikur

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>