TIGNIR GESTIR
Molavin skrifaði (30.04.2016): ,, Var það gráglettni hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins að telja upp forseta Íslands meðal konungborinna í hádegisfrétt um sjötugsafmæli Svíakonungs? „Meðal tiginna gesta voru Margrét Þórhildur, danadrottning, Ólafur Ragnar Grímsson og Viktoría krónprinsessa…“ Hans hátign…!?!” Molaskrifari þakkar bréfið. Kannski voru þetta einhverskonar ósjálfráð viðbrögð hjá fréttamanni !
HRÚGA AF HESTUM
Er ekki skrítið að sjá svona hrúgu af hestum koma niður Skólavörðustíginn? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps barn í fréttatímanum á laugardagskvöld (30.04.2016. Hrúga af hestum! Ja, hérna. Eins og barn væri að spyrja barn. Við gerum kröfur um vandað málfar í fréttum Ríkisútvarps. Það á að vera öðrum fjölmiðlum til fyrirmyndar.
SPARÐATÍNINGUR
* Í fréttum Stöðvar tvö (30.04. 2016) var okkur sagt frá helli sem var staðsettur á Suðurlandi. Hellirinn var á Suðurlandi.
* Í hádegisfréttum Bylgjunnar (02.05.2015) var okkur sagt frá fyrirtækjum, sem væru staðsett á Guernsey og á Bermuda. Eðlilegra hefði verið að segja, að fyrirtækin væru skráð á þessum stöðum, eða störfuðu á þessum stöðum..
* Í fréttum Ríkisjónvarps (30.04.2016) var viðtal í beinni útsendingu við Kára Stefánsson. Þulur sagði okkur, að Kári Stefánsson væri kominn í eigin persónu. En ekki hvað?
* Íþróttafréttamaður sagði okkur að dæmið hefði snúist algjörlega við og það rúmlega! Mikill viðsnúningur greinilega ! – En þetta segja menn sjálfsagt að sé sparðatíningur!
FYRIR RANNSÓKN MÁLSINS
Af mbl.is (02.05.2016): Mennirnir tveir voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar fyrir rannsókn málsins. Aftur og aftur sjáum við þetta orðalag í lögreglufréttum. Kemur þetta frá lögreglunni eða er þetta heimasmíðað? Hvort sem er, þá er þetta ekki gott orðalag. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins , – ekki fyrir rannsókn málsins.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/02/beittu_opinbera_starfsmenn_ofbeldi/
SKILORÐ
Í Fréttablaðinu (03.05.2016) var sagt frá sex mánaða fangelsisdómi, sem bílstjóri hjá Ferðaþjónustu fatlaðra fékk fyrir kynferðisbrot gegn fatlaðri konu. Síðan segir: ,, Dómnum verður frestað að liðnum þremur árum haldi hann skilorði”. Molaskrifari hallast að því að fréttaskrifari viti, ef til vill ekki hvað skilorð er eða hvernig eigi að skrifa um það. Né heldur verður dómi, sem búið er að kveða upp frestað. Maðurinn hlaut sex mánaða fangelsisdóm, sem var skilorðsbundinn til þriggja ára. Það er að segja maðurinn hefur hlotið skilorðsbundinn fangelsisdóm: Hann fer ekki í fangelsi, ef hann ekki brýtur af sér næstu þrjú árin. Dómurinn er þannig skilyrtur, skilorðsbundinn.
Molavin sá þetta líka og skrifaði: ,, Óvitar skrifa fréttir í Fréttablaðið. Í dag (3.5.2016) stendur þetta í frétt um dóm yfir bílstjóra: “ Dómnum verður frestað að liðnum þremur árum haldi hann skilorði.“ Hér hlýtur að hafa verið átt við að refsingu verði frestað, því dómur er fallinn. Þá ætti vitaskuld að standa: „…haldi hann skilorð.“ Þekkingarleysi fréttaóvita er orðið vandamál víða. En þeir göslast áfram við fréttaskrif, fremur þó af vilja en mætti.” Satt er það, Molavin. Metnaðarleysið er ótrúlegt. Er öllum yfirmönnum sama? Enginn les yfir eða leiðbeinir þeim, sem lítt kunna til verka.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar