«

»

Molar um málfar og miðla 1940

 

TVÖFÖLD NEITUN ER SAMÞYKKI

Kolbrún Halldórsdóttir , sendi línu (29.04.2016) og þakkaði fyrir Molana. Hún segir:Mig hefur oft langað að senda þér ábendingar og læt nú verða af því: Frétt á vef Ríkisútvarpsins (29.04.2016)
http://www.ruv.is/frett/russell-crowe-greiddi-skatta-a-islandi
Fréttastofa fékk aftur á móti ekki endanlegan úrskurð ráðuneytisins fyrr en í gærmorgun þar sem forsvarsmenn Truenorth lögðust gegn því að ákveðnar upplýsingar yrðu ekki birtar…” . Þakka þér  bréfið, Kolbrún. Hér er merkingin sem sé öfug við það sem greinilega var ætlunin að koma á framfæri. Fyrirtækið lagðist gegn því að upplýsingar yrðu ekki birtar, sem sagt fyrirtækið vildi ekki að auglýsingarnar yrðu birtar. Tveir mínusar verða plús!

 

PRÓFKÚRUHAFAR Á MBL.IS

Ingibjörg vakti athygli á frétt á mbl.is þar sem aftur og aftur er talað um prófkúruhafa. Til dæmis: ,, Mis­jafnt var hversu mikið fólkið fékk greitt fyr­ir að ger­ast próf­kúru­haf­ar fé­lag­anna.” .Ingibjörg segir: ,,Þetta er ekki prentvilla, þessi orðmynd er endurtekin alls staðar í fréttinni. Svona getur farið þegar fólk lærir ekkert í latínu. Fréttin er á góðri íslensku.” Molaskrifari þakkar Ingibjörgu bréfið. Hér hefði að sjálfsögðu átt að tala um prókúruhafa, – prókúra er umboð til að skuldbinda fyrirtæki.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/29/starfsmadur_skattsins_fekk_milljonir/

 

UTANKJÖRFUNDUR

K.Þ. skrifaði (30.04.2016):
,,Sæll Eiður,

„… utankjörfundur skal hefjast ekki síðar en átta vikum fyrir auglýstan kjördag.“

http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/04/29/utankjorfundur-hefst-a-morgun-enn-thrjar-vikur-thar-til-frambodsfrestur-rennur-ut/

 

Ég hélt að utankjörfundaratkvæðagreiðsla væri atkvæðagreiðsla sem fram fer utan kjörfundar en ekki á „utankjörfundi“. Auðvitað er það þannig, K.Þ. Það er ekkert til, sem heitir utankjörfundur!!!

 

 

GRUNDVALLARÞEKKINGU ÁBÓTAVANT

Af mbl.is (29.04.2016): ,, Geim­vís­inda­stofn­un lands­ins til­kynnti þetta í gær en svo virðist sem að mann­leg mis­tök hafi að hluta til verið um að kenna.”. Hér er móðurmálsþekkingu þess sem fréttina ritaði heldur betur ábótavant. Því miður er ekkert einsdæmi að sjá svona villur. Hér hefði átt að standa: ,,…. svo virðist sem mannlegum mistökum hafi að hluta til verið um að kenna.

http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/04/29/visindalegur_harmleikur/

 

 

GAFST UPP

Molaskrifari viðurkennir að gafst upp við að horfa á þátt Gísla Marteins á föstudagskvöld (29.04.2016). Það er svo þreytandi að láta hrópa stöðugt á sig úr sjónvarpinu. Því var lofað að þetta yrði seinasti þátturinn.

 

 

Til lesenda:

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>