«

»

Molar um málfar og miðla 1939

 

AÐ BEYGJA BOLTANN

T.H. skrifaði (28.04.2016) og benti á þessa frétt á dv.is:
http://www.visir.is/fimm-leyndarmal-gylfa-i-aukaspyrnum-laerdu-ad-beygja-boltann-eins-og-gylfi-thor/article/2016160428951

„Fimm leyndarmál Gylfa í aukaspyrnum: Lærðu að beygja boltann eins og Gylfi Þór.“  „Hann gefur upp öll leyndarmálin sem geta kennt fólki að beygja boltann eins og Gylfi Þór Sigurðsson“.

Það er nú ákaflega erfitt, svo ekki sé meira sagt, að beygja eitthvað, sem er hnöttótt í laginu! Það er líka sitt hvort að „beygja bílinn“ og að „beygja bílnum“, eins ég held að flestir aðrir en fréttabörn DV skilji. Það er reyndar svo heppilegt að fréttinni fylgja myndbönd og við áhorf þeirra dylst varla neinum að Gylfi er býsna snjall í að „beygja boltanum“ (eitt sinn voru það kölluð „bananaskot“), en það er ekki sjáanlegt að hann „beygi boltann“ á nokkurn hátt.”. Kærar þakkir fyrir ábendinguna T.H.

 

VIRÐING FYRIR MÓÐURMÁLINU

Þorvaldur skrifaði (28.04.2016): ,,Sæll Eiður.

Kunningi minn gaukaði að mér miða, hann hafði verið að hlusta á Arnar Gunnlaugsson á Stöð tvö sport í þætti sem þeir kalla Messuna. Meðal þess sem hann lét út úr sér var þetta: „Hann er alltaf að performera á hæsta level“ „Direktor hugsun“ “ Showboy gæi

Eitt er að til séu menn sem ekki bera meiri virðingu fyrir móðurmáli sínu en þetta, annað að þeim skuli vera hleypt í fjölmiðla.” Satt segirðu Þorvaldur. Þetta er engu lagi líkt. Þakka ábendinguna.

HEILSUSAMLEGRI EN HVAÐ?

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (28.04.2016) var fjallað um rafrettur . Þar var sagt:,, .. segja rafretturnar mun heilsusamlegri ..”. Heilsusamlegri en hvað? Varla er verið að miða við sígarettur, sem alls ekki eru heilsusamlegar, heldur seigdrepandi eitur.

 

NÝ NÁMSGREIN?

Í Morgunblaðinu er sagt frá konu, sem ,, …leggur nú stund á ástarrannsóknar við Háskóla Íslands.” Molaskrifari játar að þetta er honum nýtt. Kannski er þetta nýjung í starfi Háksólans Kannski ætti Morgunblaðið að upplýsa lesendur sínar frekar um þessar rannsóknir. Þær eru sjálfsagt ekki bundnar við hefðbundinn skóladag, eða hvað?

 

HVERFANDI ORÐALAG?

Er það að hverfa úr málinu að segja á föstudaginn var eða í fyrra sumar? Það er engu líkara. Nýlega  (15.04.2016) var sagt í Ríkisútvarpinu síðasta föstudag, síðasta föstudagsmorgun? Hversvegna ekki á föstudaginn var, á föstudagsmorguninn var. Æ algengara er að heyra talað um síðasta sumar, ekki fyrra sumar.

Sennilega er þetta orðalag að hverfa.

 

ENSKUNNI SLETT

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 14 00 (29.04.2016) var rætt við forstjóra Umhverfisstofnunar um það hvcernig koma mætti í veg fyrir matarsóun. Þetta er bara win-win fyrir alla, sagði forstjórinn. Hvers vegna þurfti forstjórinn að sletta á okkur ensku? Forstjórinn hefði til dæmis getað sagt: Á þessu græða allir, þetta gagnast öllum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>