MARG UMRÆDDUR VIÐTENGINGARHÁTTUR
Molavin skrifaði (27.04. 2016): ,, Enn heldur Fréttastofa Ríkisútvarpsins áfram að misþyrma viðtengingarhætti. Þessi þráláta misþyrming móðurmálsins sýnir einbeittan brotavilja. „Ný lög takmarki framkvæmdir sveitarfélaga“ segir í fyrirsögn fréttar Rúnars Reynissonar (27.04.2016) og mætti ætla af henni að hvatt sé til þess að dregið verði úr framkvæmdum. Við lestur kemur í ljós að um er að ræða varúðarráðstöfun á þenslutímum og því ætti að standa: „Ný lög gætu takmarkað framkvæmdir…“ Úr því málfarsráðunautur stofnunarinnar hefur tíma aflögu til að sinna aukavinnu í þáttargerð á laugardögum ætti henni ekki að vera skotaskuld að verja einhverjum tíma til að leiðbeina fréttamönnum um málfar á virkum dögum”. Þakka bréfið , Molavin. Reyndar hefur málfarsráðunautur nýlega fjallað um viðtengingarhátt í Málskoti á Rás 2 og boðað frekari umfjöllun. Látum málfarsráðunaut njóta sannmælis. En ekki er víst að móttökuskilyrðin séu allsstaðar í góðu lagi hjá þeim sem mest þurfa á að halda.
KANADAMAÐURINN
T.H. skrifaði (27.04.2016) og vísaði til fréttar á dv.is: http://www.dv.is/frettir/2016/4/26/myrtur-filippseyjum-thetta-var-kaldrifjad-mord/
Í fréttinni segir: „Kanadamanni sem haldið hafði verið í gíslingu um hríð af herskáum íslamistum á Filippseyjum, er látinn en hann var tekinn af lífi.“
T.H. bætir við: ,,Kanadamanni … er látinn!
Jæja, það var þó ekki Hornafjarðarmanni!
Betra svona:
Kanadamaður, sem haldið hafði verið í gíslingu um hríð, af herskáum íslamistum á Filippseyjum, er látinn, en hann var tekinn af lífi.”
Vissulega betra. Ekkert eftirlit. Enginn les yfir. Þakka ábendinguna, T.H. .
MÁLTILFINNING FRÉTTABARNA
S. skrifaði Molum (26.04.2016):,, Þetta er úr frétt í Vísi í dag: ,,Múslimar halda friðarþing í Reykjavík:
Þeim greinir frá öðrum múslimum af því leyti að þeir trúa því að stofnandi stefnunnar Mirza Ghulam Ahmad (1835-1908) hafi verið sá spámaður sem Kóraninn vísi til …”
Hann spyr: ,,Er ekki snefill af máltilfinningu hjá fréttabörnunum?” Í þessu tilviki, S, og alltof mörgum öðrum er svarið NEI. Enginn les yfir. Enginn leiðbeinir. Þakka bréfið.
http://www.visir.is/muslimar-halda-fridarthing-i-reykjavik/article/2016160429198
UNDARLEGUR SAMANBURÐUR
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (27.04.2016) var frá því greint að Kínverjar hefðu keypt ástralskt fyrirtæki, sem væri stærsti nautakjötsframleiðandinn í Ástralíu og spildan sem fylgdi fyrirtækinu væri meira en 100 þúsund ferkílómetrar , – á stærð við Írland, tvöfalt stærri en Danmörk. Írland er 85 þúsund ferkm. og Danmörk 43 þúsund ferkm. Þetta er dálítið undarlegur samanburður. Rétt er að landið, sem þetta fyrirtæki ræður yfir er um 100 þúsund ferkílómetrar , þar af er einn búgarður, ein jörð, 70 þúsund ferkílómetrar eða á stærð við Írland. Heildarland fyrirtækisins, sem Kínverjar voru að kaupa sig inn í, er að flatarmáli álíka stórt og Ísland sem er 103 þúsund ferkílómetrar. Eða á stærð við Kentucky-ríki í Bandaríkjunum sem er 104 þúsund ferkílómetrar.
ENDURTEKIÐ EFNI
Aftur og aftur heyrir maður sömu staðaheitin borin rangt fram í útvarps/sjónvarpsfréttum. Síðast í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (26.04.2016). Enn einu sinni var skýru k-ái bætt inn í nafn ríkisins Connecticut í Bandarríkjunum. Þar á ekki að vera neitt k –á. Réttur framburður er: /konn-NE-tti-köt/ eins og heyra má hér: http://inogolo.com/pronunciation/Connecticut
Þetta er ekkert flókið, en skrítið að heyra sömu villuna aftur og aftur. Hefur nokkrum sinnum verð nefnt í Molum. Séu fréttamenn í vafa um réttan framburð erlendra nafna tekur aðeins nokkrar sekúndur að finna réttan framburð á netinu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar