«

»

Molar um málfar og miðla 1950

KVENVARA?

Sigurður Sigurðarson skrifaði (22.05.2016): ,, Verslunin sem kallar sig „Herralagerinn outlet“ segir meðal annars í heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu 21. maí 2016:

Mikið úrval af kvenvöru.“

Lesandinn velti því fyrir sér hvort mansalið hafi tekið á sig nýjar myndir hér á landi. „Karlvörur“ eru hins vegar ekki auglýstar. Svo má auðvitað gera athugasemdir við að eigendur svo ágætrar verslunar skuli ekki nota íslensku í heiti hennar. Eflaust halda þeir að íslenska nafnið eitt og sér dragi ekki nóg að og enskan hjálpi þar til. Auðvitað er það misskilningur.”   Kærar þakkir, Sigurður.  Í Molum hafa oft verið gerðar athugasemdir   við þessa outlet  slettu dýrkun íslenskra kaupmanna.

 

KEYPTI LANDA RÉTTINDALAUS

Rafn benti á þessa fyrirsögn á mbl.is (23.05.2016) og spyr: ,,Hver veitir réttindi til landakaupa? og hvaða skilyrði ætli umsækjandi þurfi að uppfylla??”

Fyrirsögnin er út úr kú. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/23/keypti_landa_rettindalaus/    Í fréttinni  kemur eftirfarandi hins vegar fram:,, Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hafði af­skipti af öku­manni bif­reiðar og ætluðum landa­sala rétt fyr­ir klukk­an þrjú í nótt. Ökumaður­inn var að kaupa landa af manni sem stóð við brún gang­stétt­ar við Selja­braut í Breiðholti. Til að bæta gráu ofan á svart reynd­ist ökumaður­inn aldrei hafa öðlast öku­rétt­indi.”

 

 STELPURNAR

Það var undarlegt að hlusta (Ríkissjónvarpið 21.05.2016) á lögmann ferðaþjónustufyrirtækis í Vestmannaeyjum  ítrekað tala um ungar konur, sem slösuðust mjög alvarlega, hryggbrotnuðu, í ferð á vegum fyrirtækisins, sem stelpurnar. Frá sjónarhorni lesanda var næsta líklegt, að þarna hafði verið um óvarkárni að ræða, – farið á sjó í veðri sem ekki var sjóveður fyrir bát af þessu tagi.

 

 

 

KYNNING DAGSKRÁR

Kynning á dagskrá  Ríkissjónvarpsins í  dagblöðum er oft klisjukennd og stundum skondin. Á laugardag (21.05.2016)  var Hraðfréttaþáttur kynntur með þessum orðum: ,, Hraðfrétta, heimildaþáttur um tilurð og feril einhverrar farsælustu og langlífustu  fréttastofu íslenskrar sjónvarpssögu”. Hvaða bull er þetta  eiginlega?

 

ÞÁTTTAKA

Hér er  dæmi af mbl.is (20.05.2016) um það að yfirlestur, gæðaeftirlit, er ekki lengur til staðar á netmiðlum þannig að gagni komi: Í til­kynn­ingu frá ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu seg­ir að Lilja og Stolten­berg hafi rætt þát­töku Íslands í störf­um banda­lags­ins auk þess sem ráðherra greindi frá þróun mála á Íslandi. Orðið þátttaka er rétt stafsett í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins. Seinna í sömu málsgrein á mbl.is  er  orðið þátttaka reyndar rétt stafsett. En hér ber allt að sama brunni. Menn treysta  sér ekki til að kosta prófarkalestur og  leiðbeiningar.

 

SKÍRNATERTUR

Bakari auglýsir skírnatertur í Ríkissjónvarpi (21.05.2016). Ætti að vera skírnartertur að mati Molaskrifara. Yfirlestri er sennilega ekki fyrir að fara í auglýsingadeildinni og væri  þó stundum þörf á.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>