«

»

Molar um málfar og miðla 1961

Stundarhlé hefur verið á Molaskrifum vegna fjarveru skrifara, sem brá sér af bæ, eins og þar stendur. Allmargar ábendingar hafa borist og verða þær birtar á næstu dögum, svo og almennar athugasemdir um málfar í fjölmiðlum , sem Molaskrifari hnaut um, þótt fjarri væri fósturjörðinni.

 

KNATTSPYRNUSKRIF OG LÝSINGAR

Fyrrverandi starfsbróðir í fréttamennskunni skrifaði (16.06.2016):

„Allir börðust fyrir hvorn annan og gerðu Portúgölunum erfitt fyrir“ skrifar íþrótta-„blaðamaður“ Fréttablaðsins í morgun. Greinilega mikill málfarsmetnaður á þeim bæ. Hélt að það væri ennþá barnaskólalærdómur að „hvor“ ætti við tvo en “hver“ við fleiri en tvo. Greinilega ekki krafist barnaskólaprófs á Fréttablaðinu. Nema það hafi aðeins verið tveir leikmenn í íslenska liðinu í gær. Það kemur ekki heim og saman við útsendingu BBC-One, sem ég horfði á í tölvunni minni, mér til óblandinnar ánægju, laus við metnaðarlaust fúsk íslenskra íþrótta“fréttamanna“. Ég hef fyrir löngu gefist upp við að horfa á íþróttaviðburði í íslensku sjónvarpi vegna fúsks og slakrar fagmennsku íslenskra íþrótta“fréttamanna“.
Þeir hafa greinilega ekkert lært af BFel og SigSig, en mættu gjarnan kynna sér hvernig þeir stóðu að verki.” –  Þakka bréfið. Það vakti athygli Molaskrifara (sem reyndar er ekki kunnur áhugahugamaður um knattspyrnu),sem fylgdist með nokkrum leikjum þar sem einungis þýskar rásir voru aðgengilegar hvernig þýsku þulirnir kunnu að þegja, blöðruðu ekki út í eitt , – brýndu vissulega raustina, þegar fjör færðist í leikinn. En þeir öskruðu ekki á okkur áhorfendur, meins og væru þeir búnir að glata glórunni.. Starfsbræður þeirra íslenskir eiga margt ólært.

 

ÞARFAR ÁBENDINGAR

Sigurður Sigurðarson skrifaði (16.06.2016)

Sæll,

Á visir.is skrifar blaðamaðurinn Eiríkur Stefán Ásgeirsson algjörlega óboðlegan texta og enginn á ritstjórninni les hann yfir, því miður fyrir blaðamanninn. Fyrirsögnin er þessi:

Heimir: Kom enginn hingað til að taka í höndina á Ronaldo

Á eftir þessari fyrirsögn vantar spurningarmerki vegna þess að þetta er spurning. Þannig er það venjulega þegar sagnorð er í upphafi. Hins vegar var þetta ekki spurning heldur fullyrðing. Hún hefði því átt að vera svona: Enginn kom hingað til að taka í höndina á Ronaldo.

 

Ronaldo tók ekki í hendur leikmanna íslenska liðsins eftir leik og lét svo hafa eftir sér að fögnuður íslensku leikmannanna lýstu lélegu hugarfari og að Ísland myndi ekkert gera á mótinu.

 

Þarna ætti að standa að fögnuðurinn lýsti … ekki lýstu. Vel hefði farið á því að þessi langa málsgrein hefði verið klippt í sundur með punkti.

 

Ofnotkun aukafrumlags í fréttinni bendir ekki til þess að sá sem skrifar hafi skilning á stíl. Fleira má nefna. Læt eftirfarandi nægja sem er að vísu innan gæsalappa, skrifað eftir viðmælanda. Hins vegar er það skylda blaðamanns að lagfæra orðalag sem greinilega er ekki rétt:

Eins og ég segi, ég var bara ekkert að spá í því. Ég ætla heldur ekkert að vera að spá í því. 

Þar að auki er þetta stagl. Vel má vera að hægt sé að segja „spá í því“. Held að svona orðalag sé vitleysa. Blaðamaðurinn hefði átt að láta eftirfarandi nægja: Ég er bara ekkert að velta þessu fyrir mér og ætla ekki að gera það.” – Þakka þér þarfar ábendingar, Sigurður. Gott er að eiga góða að.

 

 

SKÖMM Í HATTINN

Húsasmiðjan fær skömm í hattinn fyrir að senda viðskiptavinum smáskilaboð, þar sem  enskuslettan TAX FREE er tvítekin og íslenskir stafir ekki notaðir nema að hluta. Skilaboðin hefjast svona: TAX FREE dagurinn er i dag. Nánast allar vörur… Óboðlegt og ósatt. Það er ekki verið að afnema neinn skatt heldur veita svolítinn afslátt. Svona auglýsingar eru ekki til að auka hróður fyrirtækisins. Nema síður sé.

 

GLEÐIILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ, ÁGÆTU MOLALESENDUR !

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Smári. Mé

  2. Smári skrifar:

    Sæll Eiður.

    Takk fyrir skemmtileg skrif.

    Undanfarnar vikur hef ég ítrekað heyrt talað um „fylkið“ Alberta í Kanada í fréttum hinna ýmsu miðla. Kanada samanstendur af héruðum sem og sjálfstjórnarsvæðum, ólíkt nágrannaþjóð sinni – Bandaríkjunum – sem samanstendur af fylkjum. Þessu er gjarnan ruglað saman af almenningi en ætti auðvitað að vera á hreinu í fréttamiðlum.

    Þess má geta að Kanadamenn, sem eiga margir hverjir íslenskar rætur, eru lítið hrifnir af því þegar þeir eru spurðir: „Frá hvaða fylki kemur þú í Kanada?“

    Kveðja,
    Smári

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>