Halló,halló Stöð tvö ! Í fréttum ykkar (21.10.2009) var sagt:…vegna þess fjárhagstjóns,sem málið hefur ollið honum… Hvað á að gera við fólk,sem tekur svona til orða? Ekki láta það koma fram í fréttum, í guðanna bænum.
Í fréttum Stöðvar 2 (19.10.2009) var sagt ,.. öll spjót standa að…Rétt er orðtakið: Öll spjót standa á. Hinsvegar mætti segja spjótin beinast að… Í sama fréttatíma var talað um kamra austur við Kárahnjúka,sem skiptu um eigendur ! Valdamiklir kamrar austur þar.
Í fréttum RÚV sjónvarps sama kvöld var sagt: Myndatökumenn fjölmiðla voru útilokaðir. Ekki finnst Molaskrifara þetta vel orðað. Eðlilegra hefði verið að segja til dæmis: Myndatökur voru ekki leyfðar, þegar skrifað var undir.
Molaskrifara fannst skrítið að heyra tvo þingmenn tala um að við værum með blóðbragð í munninum eftir Icesave klúður Sjálfstæðisflokksins í Kastljósi RÚV (19.10.2009). Þeir hljóta að hafa átt við að við værum með óbragð í munninum. Sé ekki alveg hvernig þetta, þótt ljótt sé, tengist blóði. Nema hvað þjóðinni blæðir vegna sukks Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í landsstjórninni á sínum tíma. Áttu konurnar við það ?
Molaskrifari var ósáttur við orðanotkun umsjónarmanna morgunútvarps Rásar tvö (20.10.2009). Fjallað var um niðurskurð fjárveitinga til kvikmyndagerðar og sagt að kvikmyndagerðarmenn væru ekki á eitt sáttir varðandi niðurskurðinn, – með öðrum orðum; það væri ágreiningur innan raða kvikmyndagerðarmanna um niðurskurðinn. Ólíklegt er að svo sé. Hér hefði átt að segja að kvikmyndagerðarmenn væru ósáttir við niðurskurðinn eða á eitt sáttir um að niðurskurðurinn væri óviðunandi. Þá sagði annar umsjónarmanna að fólk væri að hrynja niður úr svínaflensu hér landi. Þegar talað er um að fólk hrynji niður er átt við að það deyi unnvörpum. Hrynja niður segir Ísensk orðabók að þýði að deyja í hrönnum. Sem betur fer er ástandið ekki þannig. Þetta er heldur vond dæmi um að útvarpsfólk notar orð og orðtök sem, það kann ekki með að fara. Gera verður meiri kröfur um móðurmálskunnáttu til þeirra sem annast þætti í Ríkisútvarpinu. Vont mál og ambögur í útvarpi eru smitandi.
En, – nú er RÚV byrjað að senda út fréttir á Rás eitt á miðnætti að nýju. Eftir lítt skiljanlegt hlé. Batnandi mönnum er best að lifa.
Einkennilegt er orðaval sumra andstæðinga núverandi ríkisstjórnar og um þá sem er hlynntir aðild Íslands að ESB. Þar er mikið talað um landráð og föðurlandssvik. Fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks líkti þeim sem þetta skrifar nýlega við „lítinn föðurlandssvikara“. Algengar eru Júdasar líkingar, oft er notast við norska föðurlandssvikarann Quisling, nú eða ýmsa helstu leiðtoga þriðja ríkisins eins og Göbbels. Þetta minnir mjög á málflutning gamla Þjóðviljans um miðja síðustu öld gegn foringjum lýðræðisflokkanna á Íslandi, Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Framsóklnarflokks , sem vildu starfa á alþjóðavettvangi með vestrænum lýðræðisríkjum.
Það er ekki hátt risið á þessum málflutningi.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
22/10/2009 at 12:41 (UTC 0)
Rétt er það, Sigurður Hreiðar, víst er þetta hálfgerður vindmylluslagur, en ég hyggst þrauka eitthvað áfram. Það er dapurlegt að heyra fréttamenn RÚV dag eftir dag tala um síðasta haust í stað þess að segja í fyrra haust.
Sammála þér með um á, þetta hljómar svolítið eins og konan sé eftirlýst af lögreglu. Hitt er hárrétt hjá þér líka.
Sigurður Hreiðar skrifar:
22/10/2009 at 12:32 (UTC 0)
Sæll Eiður,
þakka þér dugnaðinn við að tína upp málfarsmolana en því miður er þetta að mestu barátta við vindmyllur.
Dettur í hug að nefna tvennt sem gjarnan mætti minnast á við tækifæri: hún ekur um á gömlum jeppa, eða eitthvað ámóta var nýlega sagt í blaði. Mér finnst þetta um á til lýta. Hún einfaldlega ekur gömlum jeppa. Sömuleiðis: grunur leikur á um að e-ð hafi verið gert. Þarna finnst mér í fyrsta lagi sé um-inu ofaukið og í öðru lagi væri betra að orða þetta öðru vísi.