þeir sem horfðu á fréttir RÚV í kvöld af umræðum á Alþingi í dag um Icesave hafa örugglega tekið eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins,Bjarni Benediktsson, fékk gott hljóð er hann flutti ræðu sína. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins fékk líka gott hljóð er hann flutti sína ræðu. Þannig á þetta auðvitað að vera á Alþingi Íslendinga.
Sjónvarpsáhorfendur komust hinsvegar ekki hjá því að heyra að þegar Steingrímur J Sigfússon fjármálaráðherra flutti sína ræðu fékk hann ekki hljóð og það heyrðist illa til hans og er Steingrímur þó ekki raddlaus maður. Stjórnarandstaðan, þar sem Sjálfstæðismenn og Framsóklnarmenn eru fjölmennastir, gjammaði, gargaði og gólaði undir ræðu ,Steingríms J. væntanlega til að koma í veg fyrir að fólk heyrði hvað hann væri að segja. Stjórnarandstaðan er eins og stjórnlaus bekkur ólátabelgja í gagnfræðaskóla. Því verður ekki trúað að þjóðinni finnist þetta sæmandi framkoma í þingsal. Þingmenn eiga að sýna Alþingi virðingu. Það eru forréttindi að vera kjörinn Alþingismaður. Þetta er til háborinnar skammar.
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
23/10/2009 at 09:16 (UTC 0)
Hver á að borga Guðrún María? Mikið vildi ég að hægt væri að láta bankabófana borga og stjórnmálaleiðtogana sem afhentu vinum sínum bankana okkar, ríkisbankana fyrir slikk. Ertu ekki sammála? Því miður verður þjóðin ,við öll, að borga kostnaðinn af afglöpum afglapanna.
Eygló skrifar:
23/10/2009 at 02:23 (UTC 0)
Fá þeir ekki að tala úr pontu á eftir?
Guðrún María Óskarsdóttir. skrifar:
23/10/2009 at 01:02 (UTC 0)
Þegar svo er komið að ríkisstjórn krata og komma ætlar að láta þjóðin greiða 100 milljónir á dag í vaxtakostnað í samningagerð við erlend ríki, er það ekki skrítið að þingheimur mótmæli.
kv.Guðrún María.
Eygló skrifar:
23/10/2009 at 00:06 (UTC 0)
Þótt maður eigi kannski ekki að skammast sín fyrir það sem sem aðrir gera, þá hreinlega skammaðist ég mín fyrir suma meðlimi æðstu samkundu þjóðarinnar.
Mér er sama hver í hlut á; stjórnar- eða stjórnarandstöðulimir, sannsöglir eða lygarar, – fólk á að fá frið til að tala (ljúga, þegar það á við 🙂
Haraldur Bjarnason skrifar:
22/10/2009 at 22:31 (UTC 0)
Já samlíkingin við ólátabelgi í skóla á vel við enda sagði Steingrímur: „Krakkar eigum við ekki að róa okkur aðeins.“
Haukur Kristinsson skrifar:
22/10/2009 at 22:22 (UTC 0)
Ágæti Cacothesis scribendi. Var að lesa þín ummæli. Viltu vera svo góður og nefna mér dæmu um affluting sannleikans hjá Steingrími. Aðeins eitt eða tvö dæmi. Meira vil ég ekki. Takk fyrir.
Haukur Kristinsson skrifar:
22/10/2009 at 22:17 (UTC 0)
Mikið er ég þér sammál Eiður. Dekurbornin létu eins og fífl og ættu það skilið að vera flengt.
Grátbroslegt var að horfa upp á miðaldra gaura eins og Tryggva Þór, sem lét eins og hann væri aftur kominn í sandkassann.
Predikarinn - Cacoethes scribendi skrifar:
22/10/2009 at 22:13 (UTC 0)
Ég er sammála þér með þennan hvimleiða ósið að ræðumaður í púlti fái ekki frið til að flytja mál sitt fyrir frammíköllum. Það á ekki að líðast hver svo sem á í hlut, Steingrímur eða Bjarni, Sigmundur eða Össur. Forsetar þingsins ættu að taka þetta föstum tökum.
Hitt er annað að ég get vel skilið kurr þeirra sem kölluðu fram í fyrir Steingrími, ekki að það afsaki þá á nokkurn hátt. Sjaldan hef ég hlýtt á jafn mikinn afflutning sannleika um langa hríð og í þessari ræðu Steingríms í dag. Það er aðdáunarvert í raun hve kinnroðalaust hann flutti þennan boðskap sinn. Hann trúir þessu kannski sjálfur, eða er svona góður leikari ?