«

»

Molar um málfar og miðla 183

 

 Umsjónarmaður Kastljóss RÚV (22.10.2009) talaði um Rokkhátíð til heiðurs íslensku sauðkindarinnar. Átti að segja: …. til heiðurs íslensku sauðkindinni. Ríkisútvarpið á ekki að senda svona villur í eyru hlustenda.  

 

Hálandavaktin aldrei haft jafnmikið að gera (21..10.2009) sagði í fyrirsögn á Vefvísi.

Í fréttinni kom í ljós að verið var að fjalla um hálendisvakt lögreglu og björgunarsveita inni á hálendi Íslands. Hálöndin voru hinsvegar í Skotlandi síðast þegar til fréttist.

 

Í litlum smábæ í Noregi , var sagt í kynningu á efni Kastljóss RÚV (20.10.2009). Eru ekki allir smábæir litlir?

 

Í Víðsjá RÚV (21.10.2009) var talað um þrjár nóvellur. Í  landsprófsbekknum 3-X í Gagnfræðaskóla Austurbæjar veturinn 1954-55 kenndi dr. Guðrún P. Helgadóttir  okkur íslensku. Í námsefninu var  sagan Tilhugalíf eftir Gest Pálsson. Guðrún kenndi okkur að stuttar skáldsögur eða langar smásögur væri tilvalið að kalla bóksögur.

 

Í fréttum Mogga og  Skjás eins (20.10.200) var sagt: Hljómar of gott til að vera satt. Hér gætir sterkra áhrifa frá ensku. Eitthvað hljómar vel  en ekki gott. Þarna hefði þulur mátt segja: Þetta virðist of gott til að geta verið satt.

 

Í fréttum í Útvarpi Sögu (20.10.2009) var sagt: Fyrir því hafði hann óskað leyfis… Klaufalegt orðalag. Betra hefði verið að segja til dæmis: En hann hafði óskað eftir leyfi til þess…

 

Í fréttum RÚV sjónvarps (20.10.2009) var talað um að fá úrskurð dómsmálaeftirlitsins. Hlýtur að hafa verið mismæli. Kannski er þetta ný stofnun,sem Molaskrifari hefur ekki heyrt um.

 

Er hægt að skila tapi? spurði málglöggur maður Molaskrifara og vitnaði til þess að oft væri talað um að fyrirtæki skiluðu arði eða hagnaði. Nú væri hinsvegar orðið býsna algengt að talað væri um að fyrirtæki skiluðu tapi. Hann kvaðst ekki alveg átta sig á hvernig það gerðist. Molaskrifari tekur undir það. Fyrirtæki eru rekin með tapi. Þau skila ekki tapi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>