AÐ AUSA OG PRJÓNA
Þorvaldur skrifaði Molum (16.08.2016): ,,Sæll Eiður
Í vefmogga er sagt frá því að fjörurra ára drengur hafi fengið í höfuðið framhóf á hrossi sem jós og fór upp á afturfæturna. Sagt er að hross prjóni þegar þau lyfta framfótum en ausi þegar afturfótum er lyft.
Í viðtali við berjatínslumann fyrir nokkrum dögum var talað um skemmtilegt berjamó.
Íþróttasíða Mogga segir frá því að Skagamenn hafi í gær sigrað nágranna sína frá Ólafsvík. Ólsarar búa fjærst Skaganum allra liða í deildinni (sleppum því að leikmenn þeirra búa flestir í öðrum löndum eða jafnvel heimsálfum).
Talsvert virðist skorta á þekkingu ýmsa hjá blaðamönnum.” Þakka bréfið, Þorvaldur. Já, það er víða pottur brotinn og enn og aftur sannast að kunnátta í landafræði Íslands er ekki til staðar hjá sumum sem skrifa fréttir.
VINSÆLDIR AÐILA FARA VAXANDI
Orðið aðili nýtur ört vaxandi vinsælda hjá fréttaskrifurum. Á mbl. is (14.08.2016) var frétt um líkamsárás. Þar sagði : ,, Árásaraðili var handtekinn og vistaður í fangageymslu.” Árásaraðili? Árasarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
STOKKURINN ENN EINU SINNI
Enn tala menn í Ríkisútvarpinu um að stíga á stokk, þegar listamenn koma fram, flytja tónlist. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardaginn (13.08.2016) var sagt frá níræðisafmæli Fidels Castro. Fréttamaður sagði:,, Á miðnætti í gærkvöldi steig hljómsveit á stokk fyrir utan nýopnað sendiráð Bandaríkjamanna í Havana og tók afmælissönginn fyrir Kúbuleiðtogann fyrrverandi.” Menn stíga á stokk og strengja heit, það er gamalt og gott orðalag, en hefur hreint ekkert með tónlistarflutning að gera. Stokkur er ekki svið ætlað listamönnum. Hljómsveitin tók ekki afmælissönginn, hún spilaði, lék afmælissönginn. Við tölum hins vegar um að taka lagið, en það er önnur saga. – Hér þarf málfarsráðunautur að láta til sín taka.
GERT AÐ GREIÐA
Í fréttum Stöðvar tvö (13.08.2016) var sagt frá deilum um gjöld og tollkvóta. Fréttamaður sagði: ,, … þar sem íslenska ríkið var gert að greiða þremur fyrirtækjum 500 milljónir króna …” Villur af þessu tagi heyrast nú og sjást einhverra hluta vegna æ oftar í fréttum fjölmiðla. Ríkið var ekki gert að greiða. Ríkinu var gert að greiða. Einhverjum er gert að gera eitthvað, einhver er skyldaður til að gera eitthvað. Enginn les yfir, – ekki frekar en annarsstaðar.
GOTT
Það var gott, þegar fréttaþulur leiðrétti í lestri í morgunfréttum Ríkisútvarps (14.08.2016). Í handriti (eins og á fréttavef Ríkisútvarpsins) var greinilega skrifað Wisconsin fylki í Bandaríkjunum. Þulur, sem skrifari veit því miður ekki hver var, leiðrétti sig og sagði réttilega Wisconsin ríki. Of sjaldan leiðrétta þulir vilur í handritum, – en þetta var gott.
Það var líka gott að heyra fréttamann/fréttaþul tala um Arnarhvál í þrjú fréttum á þriðjudag (16.08.2016) Það mun vera upprunalegt heiti hússins og orðið hváll er eldra í málinu en hvoll, – þó gamalt sé. Oftast er talað um Arnarhvol, en það var gaman að heyra sagt frá fundi í Arnarhváli. Takk fyrir það.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar