ÚRSKURÐUR – EKKI DÓMUR
Molavin skrifaði (16.08.2016): ,, „Mennirnir voru báðir dæmdir í gæsluvarðhald til 9. september…“ skrifar Hjálmar Friðriksson á fréttasíðu RUV (16.8.2016). Það er eins og sumir fréttamenn læri ekki af ítrekuðum leiðréttingum. Hæstiréttur úrskurðaði umrædda bræður í gæsluvarðhald en rannsókn málsins er ekki lokið og þar af leiðandi hefur ákæra ekki verið gefin út og því síður er fallinn dómur í málinu. Það hlýtur að vera gerð krafa til fréttamanna Ríkisútvarpsins um almenna grundvallarþekkingu. Sé hún ekki fyrir hendi mætti ætla að þeir þiggi leiðsögn.” – Þakka bréfið Molavin, – hverju orði sannara. Ekkert gæðaeftirlit á fréttastofunni.
LIGGJA VIÐ HÖFN – LIGGJA VIÐ KAJA
Í fréttum Stöðvar tvö (12.08.2016) var sagt, að tvær freigátur úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins lægju ,,nú við höfn í Reykjavík”. Þetta er ekki rétt orðalag. Freigáturnar eru í höfn í Reykjavík, – freigáturnar liggja við bryggju í Reykjavík. Skip liggja aldrei við höfn. Slíkt orðalag er út í hött.
Á mbl.is sama dag var einnig sagt frá þessari herskipaheimsókn. Þar sagði: ,,Einn fjögurra viðbragðsflota Atlantshafsbandalagsins liggur nú við kaja í Skarfabakka í Reykjavík, þar sem hann verður þangað til haldið verður á haf út á mánudagsmorgun.” Það er ekki boðlegt orðalag að segja að skip liggi við kaja. Og ekki heldur að segja í Skarfabakka. Fréttin ber með sér að vera ekki skrifuð af vönum manni. – Og ekki lesin yfir af vönum manni. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/12/flotinn_reidubuinn_hvenaer_sem_er/
TÍMINN FYRIR FRAMAN OKKUR
Þegar verið var að ræða kosningarnar í haust,sem nú er ljóst að verða 29. október, sagði fjármálaráðherra oftar en einu sinni í fjölmiðlum, að ,,við hefðum góðan tíma fyrir framan okkur”. Þetta orðalag er Molaskrifara framandi. Hefur ekki heyrt það áður. Fjármálaráðherra átti við, að nægur tími væri til stefnu. Við værum ekki í tímaþröng.
HIN ERFIÐA LANDAFRÆÐI
Rafn skrifaði Molum (12.08.2016) og benti á frétt á mbl.is .08.2016). Fréttin er um slys, sem sagt er að orðið hafi í Krísuvíkurhrauni.
Rafn segir,, Á vefmogga má lesa þessa frétt. Spurningu vekur hvar greint atvik hefir orðið, því hvorki er vitað um kvartmílubraut í Krýsuvík né Krýsuvíkurhrauni.” Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/11/datt_illa_i_krisuvikurhrauni/
Molaskrifari bætir við,,að í fréttinni er sagt að slysið hafi orðið ,,aftan við kvartmílubratina”!
Rafn bendir á að á Vef Fjarðarfrétta hafi verið rétt frá þessu sagt undir fyrirsögninni Slasaðist við Hraun-krossstapa í Almenningi. :,, ,,Kona um fertugt sem var ásamt tveimur öðrum á gangi í Almenningum, á bæjarmörkum Grindavíkur og Hafnarfjarðar flæktist í trjágrein og datt fram fyrir sig og á grjót.”
Rafn lýkur bréfinu á þessum orðum: ,, Atvikið hefir því hvorki orðið í Krýsuvík né Krýsuvíkurhrauni, heldur allmörgum kílómetrum norðar. Morgunblaðsfréttin er því aðeins enn eitt dæmið um kunnáttuleysi blaðabarna.”
Þakka ábendinguna , Rafn.
HÚN ALÞINGI
Í fréttum Stöðvar á sunnudagskvöld (14.08.2016) var sagt: ,, Það verður knappur tími, sem Alþingi hefur til þess að ljúka þeim málum, sem á borði hennar liggja fyrir kosningarnar 29. október ..” Það var og. Alþingi er hvorugkynsorð. Hvernig væri að vanda sig?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Guðbergur skrifar:
17/08/2016 at 17:54 (UTC 0)
Athugasemdin um gæsluvarðhald er jafn röng og fréttin. Hæstiréttur úrskurðaði mennina ekki í gæsluvarðhald, ekki frekar en að hann dæmdi þá í gæsluvarðhald. Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir mönnunum.
Hæstiréttur Íslands kveður aldrei upp úrskurði, hann dæmir í málum. Svo getur hann einnig ákvarðað.
Þegar um gæsluvarðhald er að ræða þá kveður héraðsdómur upp úrskurð, þann úrskurð er hægt að kæra til Hæstaréttar. Í kjölfarið dæmir Hæstiréttur í kærumálinu. Hann getur staðfest úrskurð héraðsdósm eða fellt hann úr gildi. Það gerir rétturinn með dómi.