STJÓRNARRÁÐIÐ – STJÓRNARRÁÐSHÚSIÐ
Fréttamenn ættu að hafa hugfast, að gamla fangelsið, hvíta húsið við Lækjartorg þar sem forsætisráðherra hefur skrifstofu og þar sem ríkisstjórnarfundir eru venjulegast haldnir er ekki stjórnarráðið. Þetta hús hefur í áratugi heitið stjórnarráðshúsið, það eiga allir sæmilega upplýstir fréttamenn að vita. Stjórnarráðið er samheiti yfir öll ráðuneytin. Þess vegna er ekki hægt að segja , að fundur hafi verið haldinn í stjórnarráðinu. Stjórnarráð, -,,öll ráðuneyti í tilteknu ríki” segir orðabókin.
Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 1800 á fimmtudagskvöld (11.08.2016) var bæði talað um stjórnarráðshúsið (réttilega) og stjórnarráðið, þegar sagt var frá fundi oddvita ríkisstjórnarinnar með fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna. Í fréttum Stöðvar tvö var talað um stjórnráðið, í Ríkissjónvarpsfréttum talaði fréttaþulur tvívegis um fundinn í stjórnarráðinu.
Á mbl.is var fyrirsögnin: ,,Fundað í Stjórnarráðinu” – stór stafur í stjórnarráðinu á ekkert erindi þarna.
,http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/11/fundad_i_stjornarradinu/
Þetta er ekkert flókið. En til þess að hafa þetta rétt þarf fólk að vita og vilja hafa hlutina rétta.
Það er eins og mig minni að á þetta hafi áður verið drepið í Molum!
Es. Á dv.is var ekki talað um fundarstaðinn, en sagt: ,, Þess hefur verið beðið með nokkurri óþreygju að kjördagur verði ákveðinn, …”
Enginn las yfir. http://www.dv.is/frettir/2016/8/11/their-hafa-loksins-akvedid-kjordag/
Atli Ísleifsson hafði þetta rétt á visir.is: ,, Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, um fund leiðtoga stjórnar og stjórnarandstöðu í stjórnarráðshúsinu sem hófst klukkan 16.”
MÁLFRÆÐIKUNNÁTTA
Málfræðikunnáttu þess, sem þetta skrifaði (11.08.2016) er ábótavant.
,,Prófið sem bílstjórarnir þurfa að fara í eftir 1. október er lýst sem tungumálaprófi sem prófar hæfni hvers og eins til þess að tjá sig á takmarkaðan hátt í sérstökum aðstæðum.” – Prófið er ekki lýst sem,… Prófinu er lýst, sem .. Þetta er úr frétt á mbl.is
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/08/11/leigubilstjorar_thurfa_nu_ad_kunna_ensku/
SNJÓALÖG OG VEÐURHORFUR
Í fjögur fréttum Ríkisútvarps (14.08.2016). Var sagt frá varpi heiðargæsar og kæmust ungarnir óvenju seint á legg vegna snjólaga. Þetta átt auðvitað að vera vegna snjóalaga. Vegna fannfergis. Í sama fréttatíma var sagt frá veðurhorfum og fréttamaður/þulur sagði: ,,…. svo fer að rofna til”. Svo fer að fer að rofa til, fer að sjást til sólar. Ríkisútvarpið þarf greinilega að gera meiri kröfur til þeirra sem lesa og skrifa fréttir.
LANDGRUNNURINN!
Blaðamenn verða að kunna skil á merkingu þeirra orða sem þeir nota. Á mbl.is (09.08.2016) var sagt frá olíuborpalli sem slitnaði aftan úr dráttarbáti og rak að landi þar sem hann strandaði uppi í grjóti, eins og sagt er, eftir myndinni með fréttinni að dæma.
Í fréttinni sagði: ,, Óveðrið varð svo til þess að ekki gekk að festa pallinn aftur við dráttartaug og rak hann því á landgrunninn utan Carloway í Skotlandi. “ Molaskrifari kannast ekki við karlkynsorðið landgrunnur. Orðið landgrunn (hk) er hinsvegar notað um ,,grunnsævi, frá fjöru að 200 m dýptarlínu, – stöpulinn sem landið er hluti af (nær þangað sem snardýpkar niður í hafdjúpin)” , segir orðabókin. Borpallinn rak upp á grynningar og hann strandaði upp við land.
http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/08/09/oliuborpallur_strandadi_vid_skotland/
Þetta var enn óbreytt á mbl.is fimm dögum síðar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar