MISFURÐULEGAR SENDINGAR OG FLEIRA
Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (01.09.2016) : ,,Sæll,
Á visir.is er frétt og í henni segir:
,,Það eru misfurðulegar sendingarnar sem stoppa í íslenska tollinum á leið sinni inn í landið. Sem dæmi mætti nefna póstsendingu sem barst um daginn frá Ungverjalandi, en hún innihélt McDonald’s hamborgara.”
http://www.visir.is/hamborgari-stoppadur-i-tollinum/article/2016160909929
Mætti halda að hamborgarinn væri á sjálfstæðri ferð og hefði verið stoppaður við komuna til landsins rétt eins og einhver ferðamaður. Líklega var það svo að hafi vakið athygli og verið skoðuð. „Misfurðulegar sendingarnar“ segir í fréttinni. Mætti draga þá ályktun að allar sendingar séu furðulegar. Sé svo hlýtur að vera gaman að vera tollari.
Annað. Hefurðu tekið eftir því að enginn gengur lengur, allir labba, jafnvel á suðurskautið?
Veðurfræðingurinn spáir sjaldan rigningu, súld, skúrum og svo framvegis, Þess í stað segir hann að blautt verði einhvers staðar eða þá væta. Sjaldan segir veðurfræðingur að logn verði á tilteknum stað, gjóla, rok, hvasst og þess háttar. Í staðinn spáir hann litlum vindi, dálitlum vindi eða miklum vindi.
Skelfing verður nú íslenskan einhæf eftir að svona talsmáta hefur verið útvarpað og sjónvarpað yfir landsmenn í nokkur ár.”
Þakka bréfið, Sigurður. Tek undir með þér. Einhæft orðalag er ekki af hinu góða. Okkar ágætu veðurfræðingar geta betur, – það er ég sannfærður um.
VANDAÐUR ÞÁTTUR
Gaman var að horfa og hlusta á þátt Egils Helgasonar og Péturs Ármannssonar, Steinsteypuöldina. Ragnheiður er snillingur í framsetningu og vali myndefnis. Sjónvarpsefni eins og það best gerist. Takk. Tilhlökkunarefni að horfa á næstu þætti.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar