«

»

Molar um málfar og miðla 2013

ENDURTEKIÐ EFNI

Ótrúlega margir fréttaskrifarar virðast ekki skilja hvenær er verið að kjósa og hvenær er verið að greiða atkvæði um eitthvað, til synjunar eða samþykktar. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum.

Fyrirsögn af mbl.is (30.08.2016): Seðlabankinn kaus gegn bónusum.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/30/sedlabankinn_kaus_gegn_bonusum/

Fulltrúi Seðlabankans greiddi atkvæði gegn bónusgreiðslum. Það er út í hött og rangt að tala um að kosið hafi verið um bónusgreiðslur. Það stríðir gegn gróinni málvenju, en mörg fréttabörn virðast ekki vita betur og enginn les yfir.- Hvernig væri að málfarsráðunautur fjallaði sérstaklega um þetta í einhverjum af pistlum sínum, sem starfsmenn fleiri miðla en Ríkisútvarpsins vonandi hlusta á.

 

AÐ OLLA

Ekki er til í íslensku sögnin að olla. Henni skýtur þó alltaf upp kollinum í fréttum með reglulegu millibili. Til dæmis í átta fréttum Ríkisútvarps að morgni miðvikudags ( 31.08.2016). Þar sagði fréttamaður : ,, … sem hefði ollið því ….” Fréttamenn sem valda því ekki að nota sögnina að valda ættu að athuga sinn gang. Reyndar var þetta leiðrétt í fréttum klukkutíma síðar.

 

KOSNINGAR

Í fréttum Ríkisútvarps árla dags (01.09.2016) var sagt: ,, … í fjórum kosningum.”. Hefði átt að vera í fernum kosningum. – Endurtekið í fréttum klukkan 08 00. Það gengur illa að hafa þetta rétt. Fernar kosningar. Fernir tónleikar.

 

FYRIRSÖGN

Gömlum blaðamanni þótti eftirfarandi dálítið undarleg fyrirsögn á viðtali við ungan prest, sem senn tekur til starfa í Vestmannaeyjum: Tekst óhræddur á við jarðarfarirnar. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/31/tekst_ohraeddur_a_vid_jardarfarirnar/

Kannski er það sérviska Molaskrifara að finnast fyrirsögnin undarleg.

 

 

Að FÁ SIG FULLSADDAN

Að fá sig fullsaddan, hafa fengið sig fullsaddan af einhverju , þýðir að vera mettur, en oftar þó að hafa fengið nóg af einhverju , vera nóg boðið.

Í fréttum Ríkisútvarps (01.09.2016) var sagt frá glæpaverkum í Kristjaníu í Kaupmannahöfn. Sagt var að yfirvöld hefðu fengið sig  fullsadda af ….  Þetta orðalag er ekki í samræmi við málkennd Molaskrifara. Hann  hefði fremur sagt, að nú væru yfirvöld búin að fá nóg, – nú væri yfirvöldum nóg boðið. Fréttaíminn  þar sem þetta var sagt ver ekki aðgengilegur á vef Ríkisútvarpsins.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>