«

»

Molar um málfar og miðla 2012

MYNDBIRTINGAR

Molavin skrifaði (29.08.2016): ,,Lögreglan lýsti í dag, mánudag eftir átta ára gamalli stúlku. Til að auðvelda almenningi að veita aðstoð var birt mynd af stúlkunni. Til allrar hamingju fannst hún skömmu síðar heil á húfi. Börn á þessum aldri eru viðkvæm fyrir umtali jafningja og það hefði verið við hæfi að draga til baka myndir af stúlkunni eftir að tilkynnt hafði verið að hún væri fundin. Enginn fjölmiðla né netmiðla gerði það heldur voru sömu myndir birtar á ný. Menn hljóta að spyrja sig hvaða tilgangi slíkar myndbirtingar þjóna.

 

Áður fyrr giltu á fjölmiðlum vinnureglur um nafn- og myndbirtingar og var ætíð haft að leiðarljósi að valda hvorki sárindum né erfiðleikum. Mynd af týndu barni er birt í þeim tilgangi einum að auðvelda leit. Sú spurning vaknar nú hvern þroska þeir yfirmenn fréttamiðla hafa, sem nota myndbirtingar af þessu tagi til að veiða fleiri smelli á síður sínar. Er hægt að leggjast öllu lægra?”- Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er hverju orði sannara.

 

KRÖKKT AF MARGLYTTUM

Þetta var ágæt fyrirsögn á fréttvef Ríkisútvarpsins (29.08.2016) : http://www.ruv.is/frett/krokkt-af-marglyttum-a-isafirdi

Það var hinsvegar ekki jafngott orðalag í fréttinni um sama efni ,sem lesin var fyrir okkur í hádeginu sama dag. Í inngangi var talað um ókjörin öll af marglyttum , – sem er gott og gilt orðalag, en fréttamaður sagði okkur síðan að marglyttur í Skutulsfirði væru nú í ,, mun meira magni en áður hefði sést.” Það var ekki eins vel orðað. Orðið magn er ofnotað og oft rangt notað. Fréttamenn ættu að forðast það, – nema kunna með að fara.

 

SVONA-BAKTERÍAN

Vinur Molaskrifara sendi honum línu og sagði (29.08.2016): ,, Ég gerði mér það til dundurs hér um daginn að telja hversu oft einn veðurfræðinganna í sjónvarpinu skaut inn aukaorðinu svona í veðurfarslýsingu sína fyrir einn dag. Það reyndust 15 skipti. Nú sýnist mér fleiri veðurfræðingar vera að smitast af þessari svona-bakteríu. Hvað segir þú um að prófa sjálfur að telja ? “ – Molaskrifari gerði það og taldi tvisvar. Í öðrum fréttatímanum voru níu svona og í hinum átta. Það er auðvitað ástæðlaust og erfitt að gera orðið svona að einhverskonar bannorði, en eins og þar stendur , – en of mikið af öllu má þó gera. Þetta er svona vinsamleg ábending. – Eftir á að hyggja er Molaskrifari nokkuð viss um að hann notar þetta innskots- eða hikorð ansi oft í samtölum!

 

AÐ FJALLABAKI

Týnd á Fjallbaki, er fyrirsögn á mbl.is (30.08.2016) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/30/tynd_a_fjallabaki/

Fréttin er um leit að ferðmanni að Fjallabaki. Föst málvenja er að segja Fjallabaki. Þetta var rétt á fréttavefnum visir.is.

 

HEIMILI LÖGREGLU

Fyrirsögn af fréttavef Ríkisútvarpsins (29.08.2016): Sakaður um að hafa hótað íkveikju á heimili lögreglu. http://www.ruv.is/frett/sakadur-um-ad-hota-ikveikju-a-heimili-logreglu

Hér hefði fremur átt að tala um heimili lögreglumanns en heimili lögreglu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>