«

»

Molar um Málfar og miðla 188

  Þrátt fyrir góðan ásetning og annir við annað gengur enn fremur illa að fækka  bloggpistlum !

Það er til lengdar   þreytandi að vera alltaf að klifa á sömu atriðunum hér í þessum Molum um málfar og miðla. En segir ekki einhversstaðar að dropinn holi steininn?

  

Í íþróttafréttum Stöðvar tvö sagði íþróttafréttamaður (30.10.2009) að  tiltekið lið hefði verið niðurlægt.  En liðið tapaði fyrir  mótherjum með miklum mun. Að þessu var vikið hér fyrir skömmu.  Er það markmiðið kappleikja að annað liðið niðurlægi hitt ? Þá er hinn sanni íþróttaandi víðsfjarri, ekki satt?

  

Ekki verður betur séð en allar verslanir á  svonefndu Korputorgi,sem stundum er þó kennt við kreppu fremur en Korpu, hafði tekið sig  saman um  að nota enskuslettuna Tax Free í nýrri sjónvarpsauglýsingu. Meiri plágan, sem erfitt virðist að uppræta  

  

Það var  gaman að sjá og heyra (30.10.2009) jákvæða, vel unna  og  ánægjulega frétt á Stöð tvö. um fiskeldisstöð með fimmtán starfsmenn norður í Öxarfirði sem gengur prýðisvel og mun skila 300 milljóna gjaldeyristekjum í ár. Vel af sér vikið. Enginn barlómur þar. Greinilega dugnaðarforkar sem fyrirtækinu standa og þar starfa. Kristján Már Unnarsson, sem fréttina vann, er einn besti sjónvarpsfréttamaður okkar.

 

Það er leiðindasiður þeirra sem kynna dagskrá  RÚV sjónvarps. Að segja að kvikmyndir t.d. frá árinu 1993 (30.10.2009) séu frá árinu 93. Svo var  kynnt kvikmynd frá árinu 2004, – þá var ekki sagt að myndin væri frá árinu 4 heldur réttilega að hún væri frá árinu 2004. Þessar dagskrárkynningar Rúv  sjónvarps í  núverandi  formi  eru  sér löngu til húðar gengnar.

  

Í sex fréttum RÚV (30.10.2009) talaði fréttamaður um ársbirgðir af lyfum. Orðið lyf beygist; lyf, lyf, lyfjum lyfja. Ársbrigðir af lyfjum hefði hann átt að segja.

  Og svo er það blessuð  sögnin að valda ,sem  verður skriffinnum DV sífellt að  fótakefli Úr  Vefdv ( 30.10.2009)Verið var að  segja  var tjóni,sem varð er vatn flæddi inn  í kjallara húss.   það hafi ollið töluverðu tjóni.  Hér  hefði mátt segja: Vatnið olli töluverðu tjóni, Eða, vatnið hafði valdið töluverðu tjóni  

Frétt Stöðvar tvö  (30.12.2009) um upphaf rjúpnaveiða fannst  Molaskrifa ekki fagmannlega unnin. Samtalið var ekki merkilegt og eiginlega innihaldslaust. Óviðkunnanlegt var að sjá mann veifandi skotvopni og svo gat  litið út sem byssunni væri miðað á félaga mannsins , vön skytta  sagði Molaskrifara að svo hefði þó ekki verið  ef grannt væri  skoðaði en  byssuhlaupinu var vissulega beint í áttina til hans. Frágangur fengsins,fuglanna, í bílnum var  subbulegur.   Hámarkinu var hinsvegar náð er fréttamaður spurði: Og hver er svo kúnstin við þetta , að finna fuglinn eða hitta hann.? Það var auðheyrt að það kom á þann sem spurður og hann svaraði að líklega væri það nú hvorutveggja!

Skyttan sem  Molaskrifari  ræddi  við  spurði: Af hverju ræddu þeir ekki alvöruveiðimenn?

PS:  Ef allir sem heita Davíð fá ókeypis hamborgara, – af hverju fáum við   hin þá ekki Diet Coke?

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Það er merkilegt, Eiður, hvað þessi kolvitlausa beyging sagnarinnar að valda virðist vera að ná traustri fótfestu. Ég verð bara að vona að þú getir „ollið“ hugarfarsbreytingu í þessu efni.

    Ég nenni ekki að leggja orð í belg um niðurlægingu sem mér finnst vera lítillækkun, smánun. Þessir boltadýrkendur skilja það sennilega þannig þegar „þeirra“ lið lúta í lægra haldi.

  2. Haukur Kristinsson skrifar:

    Verð að styðja Eið hvað varðar orðið niðurlæging, sem þýðir smán, óvirðing, auðmýking. Leita stundum í önnur tungumál, til að ná betur áttum á málum sem þessu. Á þýsku mundi maður ekki segja að liðið „hat sich erniedrigt“, þótt tapi með miklum mun. Hinsvegar er sagt að liðið “hat sich blamiert”, orðið sér til skammar, með lélegri frammistöðu. Niðurlæging og “Erniedrigung” er náskyld orð og merking þeirra nær “identical” (á ensku humiliation).

    Mér finnst að merking orðsins niðurlæging eins og Bjarni notar það, sé farinn að “grynnast”.

    Minnir á gamla góða orðið “ágætur”, sem í dag þýðir í máli unglinga bara “sæmilegt”.

  3. Bjarni Sigtryggsson skrifar:

    Ég er hreint ekki sammála þér, Eiður um íþróttamálið. Það getur vissulega verið niðurlægjandi að tapa með miklum mun. Íþróttaandinn snýst um að leika drengilega og beita ekki brögðum. En úrslit geta vissulega verið áfall eða niðurlæging, eins og við áhangendur Liverpool urðum að sætta okkur við í dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>