Molaskrifari las athyglisverða frétt á fréttavefnum AMX um umfjöllun annarra fjölmiðla um hin furðuleg milljónalán sem Glitnir veitti ungum börnum til kaupa á stofnfjárbréfum í BYR , sparisjóði, (þessum sem sí og æ gortar af fjárhagslegri heilsu).
Samkvæmt því sem AMX skrifar var Viðskiptablaðið fyrst með þessa frétt Stöð tvö fjallaði um málið samdægurs og gat þess rækilega að Viðskiptablaðið hefði flutt fréttina fyrst. RÚV, þjóðarsjónvarpið flutti þetta sem fyrstu frétt,þennan sama dag, en lét þess rækilega ógetið ,hvaða fjölmiðill hefði verið fyrstur með fréttina. RÚV skreytti sig með stolnum fjöðrum eins og AMX segir. Ekki verður betur séð, þó skal ekki fullyrt, að þetta sé brot á siðareglum blaðamanna. Allavega er þetta brot á mannasiðum og hroki. Svo ein spurning: Hvaða erindi átti tilgangslaust rölt fréttamanns Rúv yfir götu inn í fréttina? Og að endingu: Fréttamaður Rúv talaði um fleiri, fleiri milljónir. Það er langt síðan Molaskrifara var kennt að svona orðalag væri ekki boðlegt. Þar að auki eru þetta óvönduð vinnubrögð Hvað eru fleiri, fleiri milljónir margar milljónir margar milljónir að mat fréttastofu ríkisins? Fimm, tíu, fimmtán, tuttugu , eða hvað ? Og svo mál líka spyrja: Fleiri en hvað? Þeir sem svona vinna og svona tala eiga ekkert erindi á fjölmiðil,sem vill vera vandur að virðingu sinni.
Í sex fréttum RÚV (31.10.2009) var talað um sýnarannsóknir og sagt niðurstöður í sýnum. Venjulegra málfar, þegar verið er að rannsaka sýni til að komast að rót eða orsök sjúkdóma, er að tala um niðurstöður úr sýnum.
Í tónlistarþættinum Bláar nótur í bland í RÚV (31.10.2009) , var fjallað um tvo fiðlumeistara jassins, þá Svend Asmundssen og Stephane Grappeli. Um þá félaga var sagt í þættinum að þeir hefðu á sínum tíma verið hæst skrifuðustu fiðluleikarar jassheimsins. Hér hefði átt að segja hæst skrifuðu, ekki hæst skrifuðustu. Í þættinum var leikið hið undur fallega lag, þeirra Fats Wallers og Andys Razafs, Honeysuckle Rose. Þetta lag er perla. Best er það þegar Fats Waller spilar það einn og syngur. Skil ekki af hverju umsjónarmaður þurfti að kalla lagið númer. Númer hvað?
Ýmislegt athugavert var í íþróttafréttum RÚV sjónvarps (31.10.2009) Þar var t.d. talað um 52 keppnir. Molaskrifari á alltaf erfitt með sætta sig við fleirtölunotkun þessa orðs. Kannski er það sérviska. Betra hefði honum þótt að heyra talað um 52 kappleiki. Síðan var talað um allan ágóða leiksins. Eðlilegra hefði verið að tala um allan ágóðann af leiknum. Leikurinn græddi ekkert.
Í íþróttafréttatímanum var einnig talað um ökukeppni, svo kallaða formúlu, ( sem RÚV hefur alveg sérstakt dálæti á) og tekið svo til orða að rétt fyrir tímatökuna hefði byrjað að rigna á brautinni (svo!) í Barcelona, en það varð til þess að hún varð mjög blaut. Það rigndi hressilega og það varð til þess að brautin varð mjög blaut! Það var auðvitað nauðsynlegt fyrir okkur hlustendur að skýra það út að brautin hefði orðið blaut í rigningunni. Svo skyni skroppnir sem við upp til hópa erum.
PS Getur einhver snillingur skýrt fyrir Molaskrifara hversvegna greinaskil falla út þegar ég flyt skjal skrifað í Word yfir á bloggið? Þetta gerist stundum og stundum ekki.
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
02/11/2009 at 08:55 (UTC 0)
Þakka þér hollráðin, Jóhanna.
Þetta svínvirkar eins og sagt er á tímum svínaflensu!
Ég er sammála þér, Sigurður Hreiðar. Barnalán er fallegt orð vegna þess að er svo jákvætt og innihaldsríkt. Þetta með lán til barna úr bönkum með þessum hætti jaðrar við að vera barnaklám, svo ég sé nú svolítið grófur.
Kannnski er ráð að hella málfarsathugasemdum eins og innihaldi skólpfötu ( það orð er líklega ekki ekki mikið í brúki lengur) yfir hina nýju rtstjóra blaðsins.
Til fimmta valdsins: Tek undir það að þessi frétt er skelfileg og til skammar fyrir Morgunblaðið. Fjólurnar dafna vel undir nýrri ritstjórn.
Fimmta valdið skrifar:
01/11/2009 at 22:36 (UTC 0)
Ég stenst ekki mátið að senda þér þessa slóð á „frétt“ mbl.is um að skotið hafi verið á norskt herskip á Aden-flóa: http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2009/11/01/skotid_a_norskt_herskip/.
Hér er komin í hnotskurn megin ástæða þess að ég sagði upp áskrift minni að Mogganum á sinni tíð. „Blaðamanni“ tekst að banga saman þvílíkum endemum af stafsetningarvillum, málfarsvillum, þýðingarvillum og yfirgripsmikilli vankunnáttu um viðfangsefni sitt, að augljóst er að blaðinu hefur a.m.k. ekki farið fram að þessu leyti eftir ritstjóraskiptin.
Jóhanna Geirsdóttir skrifar:
01/11/2009 at 22:15 (UTC 0)
Ef ýtt er einu sinni á Shift og Enter samtímis koma skilyrðislaus línuskil.
Ef ýtt er tvisvar á Shift og Enter kemur auð lína.
Sigurður Hreiðar skrifar:
01/11/2009 at 22:03 (UTC 0)
Las líka um þessar undarlegu lánveitingar til barna undir sjálfræðisaldri. Í Mogganum var þetta kallað barnalán.
Ný merking í annars fallegu orði, að mínu viti.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
01/11/2009 at 21:53 (UTC 0)
Tvær: leiðréttingar; margar milljónir er tvítekið og i vantar þar sem á að standa að mati.