LEIRAN OG LANDAFRÆÐIN
Í bítinu, morgunþætti Bylgjunnar, sagði fréttamaður á mánudagsmorgni (17.10.2016) að hann hefði um helgina farið í golf í Leirunni í Keflavík.
Leiran er ekki í Keflavík. Leiran, þar sem Hólmsvöllur er, golfvöllurinn, , er milli Keflavíkur og Garðs, á leiðinni út í Garð frá Keflavík. Leiran var lengi mikil verstöð. Um aldamótin 1900 bjuggu fleiri í Leirunni en í Keflavík.
Keflavík, ( sem nú er reyndar kölluð Reykjanesbær) var þá í rauninni bara ein jörð. Nú býr enginn í Leirunni, en þar er vinsæll golfvöllur. – Oft heyrist í fréttum að landafræðikunnáttu er ábótavant.
RÁÐNINGAR
Í sama Bylgjuþætti var talað um manneklu innan lögreglunnar. Þar var talað um að ráða inn fólk til lögreglunnar. Orðinu inn er þarna ofaukið. Nægt hefði að tala um að ráða fólk til lögreglunnar , ráða fólk í lögregluna, ráða fólk til starfa í lögreglunni, sem er venjulegra og betra orðalag. Fólk er ráðið í störf. Fólk er ekki ráðið inn í störf.
EKKI HISSA
Það kom einnig fram í þessum þætti að umsjónarmenn voru hissa á því hve Stöð tvö og Sýn hefði verið gert hátt undir höfði í afmælisþætti Ríkissjónvarpsins um íþróttir síðastlið laugardagskvöld (15.10.2016). Þeir eru ekki einir um að vera hissa á því. Í sumum þáttunum hefur verið gert mikið, óskiljanlega mikið, með Stöð tvö, lokaða stöð, sem hefur engin tengsl við Ríkisútvarpið. Er ekki Stöð tvö að minnast 30 ára afmælis síns um þessar mundir? Er þar sérstaklega fjallað um Ríkisútvarpið? Sennilega ekki.
Annað var athyglisvert við íþróttaafmælisþáttinn, – þar kom fram einn af frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í komandi þingkosningum, fyrrverandi útvarpsstjóri, sem ekki er vitað til þess að hafi verið íþróttafréttamaður. Þar var brotin gömul meginregla í Ríkisútvarpinu.
Engin sjónvarpsstöð, sem vinnur faglega mundi heldur láta dóttur spyrja föður sinn í sjónvarpsþætti. Það var ófaglegt. Molaskrifari veit að hann er ekki einn um að þykja þetta einkennilega að verki staðið.
Margt er annars gott um afmælisþættina, – en þetta var ekki af því góða.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar