TAKA ÓSTINNT UPP
Úr frétt á mbl.is (22.10.2016), – hundur hafði gelt að börnum að leik: Faðir eins barnanna ræddi við parið um hegðun hundsins, sem tók athugasemdunum óstinnt upp. Molaskrifari á því að venjast að talað sé um að taka eitthvað óstinnt upp, taka einhverju illa, reiðast einhverju. Ekki taka einhverju óstinnt upp.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/22/hotudu_barsmidum_fyrir_gagnryni_a_hundinn/
– Þegar ég sagði, að frásögn hans væri uppspuni frá rótum, tók hann það mjög óstinnt upp.
AÐ SJÁ EFTIR
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.10.2016) var ranglega haft eftir Katrínu Jakobsdóttir að hún sæi mjög á eftir því …. Katrín sá eftir því, að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi ekki hafa farið fram um aðildarumsóknina að ESB. Eitt er að sjá eftir, iðrast einhvers, allt annað er að sjá á eftir. Ég sá á eftir honum fyrir hornið og sé eftir að hafa ekki elt hann.
Þetta hefur svo sem heyrst áður og áður verið nefnt í Molum.
ER AÐ …..
Í frétt á mbl.is (24.10.2016) sagði: ,, „Ég vona bara að við séum allar að fara að mæta,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, þegar blaðamaður spyr hana hvort að hún ætli að mæta á Austurvöll í dag.” Ólíkt hefði nú verið fallegra hefði ráðherra sagt:,, Ég vona bara að við mætum allar”. Einfaldara og betra mál.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/24/eyglo_vonar_ad_allar_maeti/
BÍLVELTA VARÐ …..
Úr frétt á mbl.is (24.102016): Bílvelta varð á veginum í Blönduhlíð í Skagafirði á móts við bæinn Flugumýrarhvamm skömmu fyrir klukkan fimm í dag. Þetta er rangt eins og raunar kemur fram bæði í fyrirsögn og fréttinni sjálfri. Það varð engin bílvelta á veginum. Bíll fór út af vegi og endaði á hvolfi ofan í á. Ekki vel unnið. Sem betur fer urðu ekki slys á fólki.
Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/24/for_a_hvolf_ofan_i_hvammsa/
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar