Úr frétt í Vefdv (03.11.2009): Er þeir ætluðu að ráðast á Patel sparkaði hann í klof eins árásarmannanna og kýldi hinn með leifturhraða í andlitið þannig að báðir árásarmennirnir fóru í jörðina. Einmitt það. Þeir fóru báðir í jörðina! Á íslensku segjum að hann hafi yfirbugað þá báða eða slegið þá báða niður.Þótt hann hafi kannski fremur sparkað annan niður. Þá voru árásarmennirnir tveir og þessvegna sparkaði sá sem var að verja sig, í klof annars þeirrra , ekki eins þeirra.
Bjarni Sigtrygsson sendi Molum eftirfarandi ábendingu: „Það má búast við lífi og fjöri í lokahófi sláturvertíðarinnar hjá Sláturfélagi Suðurlands sem haldið verður á föstudag,“ segir Netmoggi í dag. Hún er lífseig plága þessi vertíð, sem hvarvetna skýtur upp kollinum. Fram til þessa hefur jafnan verið talað um „sláturtíð“ og það ekkert með ver að gera. Satt og rétt hjá Bjarna.
Í útvarpi Sögu (04.11.2009) var talað um að rifta samning. Þetta er ekki óalgengt að heyra. Lögfræðingar ættu þó að vita að sögnin að rifta tekur með sér þágufall, ekki þolfall. Þarna hefði því átt að tala um að rifta samningi. Nema umsjónarmaður hafi ekki kunnað að beygja orðið samningur. Það er líka hugsanlegt.
Það má oft heyra bitastæða pistla, jafnvel ágæta, í Útvarpi Sögu. Þar hef ég oft sagt og segi enn að þættir Sigurðar G. Tómassonar beri af. Pistlar útvarpsstjórans og aðstoðarmanns hennar mættu hinsvegar missa sín Þar er of mikið um illt umtal og fordóma. Stjórnendur stækka ekki af slíku. Heyrði annars endurtekinn ágætan þátt þar sem Ólafur Ísleifsson lektor fór yfir skýrslu AGS. Þátturinn var svo góður vegna þess að Ólafur sagði svo margt, en útvarpsstjórinn og aðstoðarmaðurinn svo fátt. Í gærkveldi (05.11.2009) heyrði skrifari ákaflega kurteisa konu sem í símtali sagði við útvarpsstjórann: Þið alið á fordómum. Því var fálega tekið. Sjaldan hefur skrifari heyrt jafn rætin ummæli og útvarpsstjórinn, aðstoðarmaðurinn tók undir og dró ekki úr, muni ég rétt, viðhafði nýlega um utanríkisráðuneytið og suma starfsmenn þess. Þar fóru saman fáfræði og fordómar, sem eru vondir förunautar en virðast fastir fylgifiskar sumra.. Það er hinsvegar bót í máli að fáir taka mark á stóryrðum stjórans.
Símgestaþættirnir Útvarps Sögu spara ríkinu örugglega talsvert fé. Þar fá sumir að blása út (yfirleitt sömu, tiltölulega fáu, fastagestirnir) við það lækkar örugglega kostnaður við sálfræðiþjónustu á vegum hins opinbera.
Oftast, en ekki alltaf, sýnir RÚV sjónvarp hitastig í Færeyjum í veðurfréttum. Það var ekki gert í kvöld (03.11.2009) Færeyska sjónvarpið sýnir alltaf hitastigið í Reykjavík. Í veðurfregnum Stöðvar tvö það sama kvöld, var sýnt hitastigið í Færeyjum sem var 8-9 stigum hærra en hér. Evrópukortið í veðurfréttum Stöðvar tvö er langtum betra en kortið sem RÚV notar. Annars eru veðurfréttir RÚV yfirleitt alveg prýðilega framsettar og það er ekki við veðurfræðinga að sakast þó spáin sé ekki alveg nógu góð fyrir minn landshluta um helgina!
Sigmar Guðmundsson í Kastljósi sendi mér athugasemd vegna ummæla minna í Molum nr 192og segir Sigmar meðal annars:
„Sæll Eiður,Vil leiðrétta hjá þér smá misskilning. Fréttin sjálf sem til umræðu var í Kastljósi þetta kvöld er ekki óstaðfest. Þvert á móti er það rækilega staðfest, bæði af banka og eigendum Haga, að rætt er um endurskipulagninu á skuldum fyrirtækisins og að skuldaniðurfelling komi þar til greina þótt ekkert hafi enn verið ákveðið. Það sem er hinsvegar óstaðfest eru upphæðirnar; það er hversu mikið fjármagn eigendurnir þurfa að koma með inní fyrirtækið til að bankinn afskrifi og hversu há afskriftarfjarhæðin verður. Þetta var nokkuð skýrt i þættinum, hygg ég.“
Vel má vera að hér hafi mér orðið á og skal fúslega beðist velvirðingar á því. Það sem ég hjó eftir voru upphafsorðin, um að þetta hefði ekki verið endanlega staðfest, en hvernig slær það ykkur ef rétt er? Svo og það hve varkárir , -óvenjulega varkárir, þingmenn stjórnar og stjórnandstöðu voru í orðavali, – meira segja þeir sem venjulega spara ekki stóru orðin !
En hér vorum við greinilega ekki að tala um sama hlutinn. Misskilningurinn er mín sök. Sigmar er einn af bestu mönnum sjónvarpsins, þessvegna var ég hissa. Mér þykir miður að hafa haft hann fyrir rangri sök og biðst enn og aftur velvirðingar á þeirri fljótfærni minni.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Hilmar skrifar:
08/11/2009 at 18:02 (UTC 0)
Arnþrúður og Pétur fara ölvuð á kostum í þætti þeirra „Með fáfræðina að vopni“