Í morgunútvarpi Rásar tvö (04.11.2009) talaði annar umsjónarmanna um kindur með hala. Kannski átti þetta að vera fyndni. Aulafyndni. Í sama þætti töluðu umsjónarmenn við samstarfsmann sinn eins og svo algengt er hjá RÚV. Það eru hæg heimatökin. Rætt var um veggjöld. Innanhússmaðurinn, sem rætt var við fullyrti að hvergi í veröldinni væri það svo að ekki væri hægt að komast inn eða út úr borgum nema greiða veggjöld. Ekki víðförull sá. Aldrei komið til Óslóar. Þar borga allir sem koma akandi inn í borgina.Allir. Engin leið að komast hjá því. Kerfið er alsjálfvirkt. Bílarnir myndaðir og gjöldin innheimt eftir á. Gísli Kristjánsson fréttaritari RÚV í Noregi útskýrði þetta prýðilega í Speglinum um kvöldið. Það sem innanhússmaðurinn sagði um þetta í morgunþættinum var bara bull.. Stundum getum verið skynsamlegt að tala við fólk sem ekki vinnur líka í Efstaleitinu. Þar vita nefnilega ekki allir allt svo merkilegt sem það nú er.
Búist er við að skemmtigarðurinn opni eigi síðar en 2015, var sagt í hádegisfréttum RÚV (04.11.2009). Hvað skyldi nú skemmtigarðurinn opna? Þarna átti auðvitað að segja: Búist er við að skemmtigarðurinn verði opnaður eigi siðar en 2015.
Molaskrifara þótti einkennilega til orða tekið,þegar sagt var í morgunfréttum RÚV um stjórnmálaástandið í Afghanistan (03.11.2009): Þrýstingur vex á Karzai að deila með sér völdum. Ekki þorir skrifari að fullyrða að þetta sé rangt, en það stangast hressilega á við málkennd hans. Tveir eða fleiri geta deilt með sér völdum , en varla einn. Fer Molaskrifari hér villur vegar?
Málfarslegur metnaður íþróttadeildar RÚV er samur við sig. Hann var einn af stóru kaupunum,sem …liðið gerði í sumar sagði íþróttafréttamaður í tíu fréttum (03.11.2009). Óboðlegt orðalag.
Ekki getur skrifari sagt, að hann hafi orðið margs vísari eftir að hafa hlýtt á umræður í Kastljósi RÚV mánudagskvöld (02.11.2009) Fjallað var um hugsanlegar afskriftir skulda Haga, en óstaðfestar fréttir höfðu birst um það á Stöð tvö um helgina. Þingmenn og ráðherrar sem spurðir voru tóku varfærnislega til orða. Best svaraði Birkir Jón Jónsson. Einn sagði: Þetta hefur ekki verið staðfest, annar sagði ; veit ekki um staðreyndir og sá þriðji; veit ekki meira en komið hefur fram í fjölmiðlum.
Þegar umræðan Kastljósi hófst sagði stjórnandi efnislega: Þetta hefur svo sem ekkert verið borið til baka, en hvernig slær þetta ykkur, ef rétt er?Þingmennirnir í Kastljósi voru báðir yfirvegaðir og málefnalegir. Hér var í Ríkissjónvarpi, sem við eigum öll , fjölyrt um orðróm sem ekki hafði verið staðfestur.Var bara orðrómur, kannski slúður,viljandi sett af stað úti í bæ. Er þetta faglega fréttamennska? Mér finnst það ekki. Minnir dálítið á það sem Bandaríkjamenn kalla á sínu máli: Let them deny it. Sett er fram fullyrðing, og svo er það þeirra, sem liggja undir ámæli að sanna að fullyrðingin eigi ekki við rök að styðjast. Engin dómur er hér lagður á efnisatriði málsins. Enda liggja staðreyndir ekki fyrir þegar þetta er skrifað (03.11.2009)
Athygli vakti að í Kastljóss þættinum sagði þingmaður: Að það væri ekki góður bissness að gefa þetta mikið eftir.
Í fréttum var fjallað um hrossakjöt, nánar tiltekið kjöt af zebrahestrum sem nú er byrjað að auglýsa sem jólamat. ( Skrifari getur vottað að þetta er öndvegismatur eins og íslenskt hrossakjöt getur best verið). Sagt var að kjötið sem sýnt var í fréttinni væri medium rare, það er að segja steikt í meðallagi,ljósrautt, ekki blóðugt og ekki grátt. Kannski kemur sú tíð, ef kaupmenn og fjölmiðlar fá að móta málið að við getum gert góðan bisness með því að versla okkur medium rare kjöt í factory outlet.
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eygló skrifar:
05/11/2009 at 23:59 (UTC 0)
Þetta minnir mig á dásemd sem heyrðist í RÚV fyrir allmörgum árum; er bara ógleymanlegt.
Reykjavíkurfréttamaður tók viðtal í beinni útsendingu frá helstu götu Akureyrar. Áheyrendur heyrðu sem sé í fréttamanninum í hljóðstofu tala við fréttamanninn sem gekk um á Akureyri.
Skyndilega sagði sú á Akureyri: „Það er svo mikið skvap á götunum að það er varla hægt að ganga hérna“
Sverrir Friðþjófsson skrifar:
05/11/2009 at 08:23 (UTC 0)
Úr mbl.is í morgun:
En þegar skammt var eftir skoraði Lopez af stuttu færi eftir skvaldur í vörn Liverpool.
Ég sá ekki (né heyrði!) þetta atvik en ef varnarmennirnir hafa verið að skvaldra í vörninni og fengið á sig mark fyrir bragðið – þá er það fyndið.
Eygló skrifar:
05/11/2009 at 01:10 (UTC 0)
Ósló, já og í augnablikinu man ég eftir Aþenu og mig minnir Róm… og veit ég ekki mikið.
Sigmar Guðmundsson skrifar:
05/11/2009 at 00:37 (UTC 0)
Sæll Eiður. Vil leiðrétta hjá þér smá misskilning. Fréttin sjálf sem til umræðu var í Kastljósi þetta kvöld er ekki óstaðfest. Þvert á móti er það rækilega staðfest, bæði af banka og eigendum Haga, að rætt er um endurskipulagninu á skuldum fyrirtækisins og að skuldaniðurfelling komi þar til greina þótt ekkert hafi enn verið ákveðið. Það sem er hinsvegar óstaðfest eru upphæðirnar; það er hversu mikið fjármagn eigendurnir þurfa að koma með inní fyrirtækið til að bankinn afskrifi og hversu há afskriftarfjarhæðin verður. Þetta var nokkuð skýrt i þættinum, hygg ég.
Þér finnst þetta ekki fagleg frettamennska. Ég bendi þér hinsvegar á að allir fjölmiðlar landsins fluttu samskonar fréttir og kastljos enda málið til umræðu á alþingi íslendinga fyrr um daginn. Er óeðlilegt að Kastljós ræði við þingmenn um mál sem var til umfjöllunar í þinginu? Og taki viðtöl við þingmennina sem ræddu þetta fram og til baka í beinni útsendingu á alþingsrásinni nokkrum klukkustundum fyrr? Fyrir nú utan að umræðan snýst að hluta til um gagnsæji og að upplýsingum sem máli skipta er haldið frá almenningi.
Ertu ekki að hlaupa svolitið á þig i þetta skiptið? Ég held það og veit að þú er nógu stór til að leiðrétta það i næsta mola að þú hafir haft okkur fyrir rangri sök. Þetta er ekkert stórmál en ég veit að við erum sammála um að rétt skal vera rétt.
Takk annars fyrir síðuna þína, hún er góð fyrir okkur sem tölum og skrifum í fjölmiðla.
Sigmar Guðmundsson
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
04/11/2009 at 23:28 (UTC 0)
Þórhallur Jósepsson skrifar:
04/11/2009 at 21:45 (UTC 0)
Sæll Eiður. Ekki man ég hvort ég tók svo til orða sem þú manst kannski betur, að ég hafi sagt “ … hvergi í veröldinni …“. Hvað um það, við vorum að ræða eins og þú kannski hefur tekið eftir þá almennu reglu sem viðhöfð er tilaðmynda í Frakklandi og á Spáni, á Ítalíu og víðar, að sé veggjald innheimt, eigi menn kost á annarri leið án gjalds.
Gísli sagði vel frá sem vant er, en ekki vil ég í máli sem þessu taka Noreg mér til fyrirmyndar, reyndar hvergi þar sem bílar og umferð eru viðfangsefnið, nema jú að umferðin þar gerist í meiri kurteisi en við eigum að venjast hér, reyndar meiri en ég hef annars staðar séð.
Norðmenn fara langt í að eiga heimsmet í að skatta bíla og umferð. Kannski eiga þeir heimsmetið. Á fáum stöðum ef nokkrum eru meiri skattar á eldsneyti en þar, hvergi veit ég um meiri skatta á nýja bíla við sölu. Þeir eru svo miklir að bíladellumenn hafa jafnvel gripið til þess ráðs að flytja inn, á gjaldaafslætti, Porsche og BMW jeppa sem sendibíla, með aftursætin fjarlægð að grind aftan við ökumannssætin.
Ég verð að segja að mér finnst það óþörf ólund í þér að agnúast út í það, að innanbúðarmenn á RÚV taki stöku sinnum þátt í að fjalla um mál á Morgunvakt Rásar 2. Jafnvel þótt það gerist, svosem fara gerir, að í spjalli án handrits verði nákvæmnin minni en krafist er í vísindaritgerðum eða fréttum RÚV.
Þakka þér annars oft ágætar málfarsábendingar.
ÞJ