«

»

Molar um málfar og miðla 191

  Eitt  versta drottningarviðtal, sem Molaskrifari hefur lengi  séð, var viðtalið  við  Gunnar Sigurðsson sem titlaður er leikstjóri og  sýnt  var í Kastljósi kvöldsins (03.11.2009). Gunnar lýsti sig  gjaldþrota. Fallegur spyrjandinn brosti og  brosti en ekki var spurt um neitt, sem máli skipti. Það er  gott að gjaldþrota maður  skuli geta þeyst um heiminn þveran og endilangan til að gera það  sem hann kallar heimildarmynd. Þegar talinu stuttlega var vikið  fjármögnun myndarinnar, en  hún hlýtur að kosta  milljónatug eða tvo,  voru svörin óljós og út í hött.  Nánast að góðir ónafngreindir menn hafi gefið honum pening. Hverjir fjármagna  myndina kemur auðvitað í ljós, þegar  skattayfirvöldum verður skilað skýrslu um kostnaðinn við gerð hennar, ekki satt?  — Smáviðbót Tortola er ekki eyjar , heldur eyja, stærsta eyja eyjaklasans sem kallaður er Bresku Jómfrúareyjar.

 

Barnalán Glitnis: „Þetta er bara mitt mál” segir í fyrirsögn á  Vefdv í dag (03.11.2009), Sá málglöggi  rithöfundur og  fyrrverandi blaðamaður, Sigurður Hreiðar,  var  reyndar  búinn að benda  skrifara á í athugasemd við Mola,  ð Moggi hefði notað þetta orð með sama hætti og Vefdv  fyrir nokkrum dögum.

 Á íslensku  þýðir orðið  barnalán að  eiga efnileg börn, jafnvel hóp af  efnilegum og vel  gerðum börnum. Þetta er jákvætt,  fallegt , innihaldsríkt orð  með  góða og  gleðiríka merkingu. Það er  engin ástæða fyrir  fávísa  fjölmiðlamenn   að nota orðið barnalán  yfir  ógeðfellt  brask þar sem óprúttnir  foreldrar í sumum  tilvikum notuðu  nöfn ómálga   barna sinna   til að reyna að hagnast með vafasömum hætti, –  að ekki sé nú  meira  sagt. Svo brúka foreldrarnir bara kjaft ! 

Barnalán er ekki að veita barni bankalán.  

   

  Ást sumra fréttamanna á orðinu meðlimur  er einlæg og innileg. Kemur greinilega frá hjartans innstu rótum. Þegar fréttamaður  Stöðvar tvö (01.11.2009) greindi frá því er rússnesk herflugvél fórst og allir sem með henni voru, orðaði hann fréttina svona: Allir ellefu meðlimir áhafnarinnar fórust. Hann hefði getað orðað þetta betur á ótal vegu, eins og  til dæmis: Öll áhöfnin, ellefu manns , fórst í slysinu. Allir um borð í vélinni, ellefu manns, fórust. Ellefu manna áhöfn vélarinnar fórst í slysinu. Enginn úr ellefu manna áhöfn vélarinnar komst lífs af úr slysinu. Nei. Alltaf skulu áhafnar áhafnarmeðlimir  þurfa að koma við sögu. Einkennnilega árátta.

  Fréttir voru á báðum sjónvarpsstöðvum (01.11.2009) af siglingu risastóra lystiskipsins undir Eyrarsundsbrúna. Látið var líta út sem um háskasiglingu hefði verið að ræða. Dettur einhverjum í hug í alvöru, að finnskir skipaverkfræðingar, sem eru frægir að verðleikum, sem einhverjir hinir  færustu í veröldinni, hefðu smíðað svona tugmilljarða farkost  nema 100% öruggt væri að skipið kæmist undir brúna? Fáránleg spenna búin til úr engu. En spunakörlum eigenda tókst að láta fjölmiðla gera frétt úr þessu.

 Svo væri skemmtilegt, ef fréttamenn hættu að segja brúnnna eins og  orðið væri  skrifað með þremur eða fjórum n-um. Það er er nefnilega aðeins eitt n í þesu orði í þolfalli eintölu.. Eignarfall fleirtölu með greini er hinsvegar brúnna, en það átti auðvitað ekki við í þessu tilviki. 


  Kveikti í minningareit tileinkaðan tvíburaturnunum, sagði fyrirsögn í Vefdv (01.10.2009). Við þetta er tvennt að athuga í fyrsta lagi ætti orðið minningarreitur að vera með tveimur r-um Í öðru lagi er reiturinn  tileinkaður tvíburaturnunum eða öllu heldur þeim þúsundum er fórust í því hræðilega hryðjuverki. Fyrirsögn þessarar fréttar er  vond. Eins og reyndar fréttin öll.  

17 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Ég er leiðinlegur og húmorslaus  röflari. Það er bara fínt. Heiða þú ert full af húmor , skemmtileg og málefnaleg, en það er  samt leyndarmál hver/hverjir  fjármagna myndina. Af jberju þarf að  fela  það. Má ekki  fólk vita það?   Gott er að hafa allt  gegnsætt og uppi á  borðinu ekkert andsk… pukur. Þannig á það að vera.

    Svo hef ég ekki dylgjað um eitt eða neitt . Bara sagt að ég væri ekki einn um þá skoðun að Gunnar hefði verið lélegur fundarstjóri. Sem hann var. Ég hlýt að  mega hafa þá skoðun. Og nú ætlar þessi leiðinlegi   og húmorslausi  röflari að yfirgefa höfuðborgarsvæðið og netheima um sinn. 

  2. Heiða B. Heiðars skrifar:

    Fundarstjórinn tók það upp hjá sjálfum sér að halda fundina…… Ef einhverjum er svona umhugað um að slíkir fundir hefðu átt að vera öðruvísi með annari fundarstjórn þá er bara að rífa sig upp á rass****** og framkvæma. Það gerði Gunnar og hann var ekkert að biðja um að verða sleginn riddaratign fyrir góða fundarstjórn. Aftur á móti gaf hann fólki vettvang til að koma spurningum sínum á framfæri.

    Meira pípið endalaust… þú ert á því að fundirnir voru af hinu góða en getur svo röflað yfir því að sá sem kom þeim í framkvæmd var ekki eftir þinni uppskrift. Furðulegur fjandi

    Þetta blogg er ágætlega skrifað og fínt að hafa einhvern sem punktar niður það sem betur mætti fara málfarslega séð. En þú skemmir það með leiðinlegum dylgjum, húmorsleysi og röfli. Það er mjög miður.

    Ég ætla samt ekki að fara að æða á annan opinberan vettvang og dylgja um þig. Verk þín munu dæma sig sjálf..sem og annara

    Ég er að vinna við þessa heimildarmynd og geri mér fulla grein fyrir því hvaða útgjaldaliðir koma til.

    Og af hverju er þér svona mikið í mun að vita hvað fólkið heitir sem stendur straum að kostnaðnum? Getur þú ekki bara hinkrað eftir kreditlistanum í lok myndar??

  3. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Fyrirgefðu Heiða, – hvaða fólk er það sem kostar gerð þessarar myndar?  Varla getur það verið leyndarmál. Allt opið og gagnsætt. Ég bara endurtek að mér finnst  málið  sérkennilegt. Þú þekkir lítið  til kvikmyndagerðar ef þú heldur að kostnaður við gerð slíkra mynda sé bara ferðakostnaður.  Fundasrtjórnin í Háskólabíói var sjálfhverf sýning, vandræðalega hallærisleg á köflum .það sáu allir sem  sóttu fundina  eða  fylgdust með þeim í sjónvarpi. Sumir vildu kannski ekki sjá það.  Ég hef  áður sagt að það var fínt að  halda þessa fundi. Þeir voru bara skemmdir með vondri fundarstjórn og það var mjög miður.

  4. Heiða B. Heiðars skrifar:

    „Ég var ekki einn um að finnast Gunnar afar lélegur fundarstjóri á fundunum í Háskólabíói.Hann var eiginlega frekar eins og leikari að baða sig í sviðsljósinu Það var fínt framtak að halda þá fundi, en hann var ekki rétti maðurinn til að stjórna þeim“

    Nei…kannski voru fleiri en þú ósáttir við það. En þessir fundir voru samt algjörlega að hans frumkvæði og það gat hver sem er gert slíkt hið sama. Það var aftur á móti bara hann sem dreif í því að halda þessa fundi og við sem fórum á þá vorum ekki þar til að taka fundarstjórann í greiningu…. Við vorum þar til að fá svör

    Skil ekkert í þér að drífa þig ekki í eitthvað svona framtak… eða einhvern af þeim sem eru þér sammála

    „Mér finnst svolítið skrítin lykt af þessu máli öllu, en hvað um það Gunnar er duglegur að auglýsa sig og sín mál“

    Skrítin lykt af hverju? Heimildarmyndinni?

    Það er fólk sem hefur trú á því að hann geti gert gagnlega heimildarmynd. Það fólk borgar ferðakostnað sem til fellur. Hvað er það eiginlega sem þú skilur ekki?

    Ótrúlega hallærislegt þegar fólk rakkar niður þá sem nenna að standa í því að gera eitthvað.

  5. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Sæll Ingi, þakka þér  þetta.Hvorki get ég  fyllt skarð Njarðar né Jóns G. Þetta eru í rauninni bara   leikmannsþankar og auðvitað verður mér á í messunni eins og  orðum.

    Í þeim heimildum sem ég hef  sé, Jón  er  talað um Jómfrúareyjar , e. Virgin Islands.

  6. Ingi F. Vilhjálmsson skrifar:

    Sæll Eiður,

    takk fyrir gott svar. Nei, þú þarft ekki að biðja mig afsökunar á þessu. Ég tók gagnrýni þína ekki inn á mig. Ég vildi bara benda þér á þessa hlið málsins og halda fram þeirri skoðun að við megum ekki ganga það langt í málfarsumvöndunum að við hættum að búa til ný orð og að nota gömul orð í nýju samhengi. Tungumálið má ekki deyja eða staðna. Svona skapandi notkun á tungumálinu, eins og notkunin á orðinu barnalán, er að mínu mati ekkert annað en skemmtileg og lýsandi. Jafnframt getur tvíræðni orðsins í þessu samhengi boðið upp á skemmtilega möguleika. Ég held að það sé hægt að sameina góða íslenskunotkun, nýjungagirni og jafnvel slettur í sumum tilfellum – sjáðu til dæmis hvað Megasi tekst oft vel til.

    Já, ég sendi þér líka mínar þakkir fyrir pistlana þína um málfar. Þeir eru góðir og veita ágætis aðhald. Yfirleitt er ég líka sammála þér því almennt séð ertu fyrst og fremst að benda á augljósar villur. Það er ekkert skemmtilegt að vera tekinn af lífi á bloggsíðu fyrir lélega íslenskunotkun. Í kjölfarið er líklegt að maður vandi sig meira. Vildi bara benda þér að við megum heldur ekki ganga of langt í gagnrýni okkar á skapandi orðanotkun. Ég verð líka að viðurkenna að ég sakna málfarspistla Njarðar P. Njarðvík í Fréttablaðinu og sömuleiðis pistla Jóns G. Friðjónssonar í Mogganum. Þú fyllir að hluta til það skarð sem þeir skilja eftir sig.

    Bestu kveðjur, Ingi

  7. Eygló skrifar:

    Þú verður að halda áfram, með góðu eða illu!   

    Ég á 2-3 eftirlætisbloggara, þú ert einn þeirra. Nei, nei, ekkert að smjaðra. Þú leyfir manni líka að vera ósammála og ert kurteis.

  8. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Þakka þér, Heiða, þitt fallega orðalag í minn garð. Gunnar svaraði ekki  spurningunni um fjármögnun myndarinnar. Honum ber svo  sem engin skylda tll þess. Skattayfirvöld munu auðvitað spyrja hann  eins og aðra  kvikmyndagerðarmenn um fjármögnun mynda sinna    fyrr eða síðar.  Skrítið var  að  heyra hann  lýsa sig  gjaldþrota í upphafi myndarinnar og  fara svo um  víða veröld  á annarra kostnað, meðal annars  til Tortola  þar sem ekkert  er að  sjá eða  finna að hans eigin sögn í Kastljósi. Kannski hefur Gunnar mikla  reynslu af gerð heimildamynda , en  það hefur þá  farið fram hjá mér.   Ég var ekki einn um að finnast  Gunnar afar lélegur fundarstjóri á  fundunum í Háskólabíói.Hann var eiginlega  frekar eins og leikari að baða sig í sviðsljósinu.  Það var fínt  framtak að halda þá  fundi, en hann var ekki rétti maðurinn til að stjórna þeim. Mér finnst svolítið  skrítin lykt af þessu máli öllu, en hvað um það Gunnar er duglegur að auglýsa sig og sín mál

    Inga þakka ég aldeilis  prýðilega athugasemd. Örugglega voru margir   blaðamenn að leika sér að orðinu barnalán. Það er  svo sannarlega ekkert að því. En hitt er ég jafn handviss um að  sumir sem það notuðu voru ekki að leika sér. Móðurmálskunnáttu  er því miður  svo  víða ábótavant og villurnar svo ótrúlegar að  þar er ekkert  lengur sem kemur manni á óvart en  hafi ég haft þig  fyrir  rangri sök, – ég nafngreindi engan, –  þá  biðst ég velvirðingar á því. Ég hef  hinsvegar fengið  þakkir frá  svö mörgum  fyrir þessa pistla mína að ég  hyggst halda  þessum skrifum eitthvað áfram, enda þótt þau séu orðin allt of  tímafrek, – jafnvel fyrir karl á  eftirlaunum !

  9. Jón skrifar:

    Jómfrúaeyjar, ekki Jómfrúareyjar. Kenndar við meyjarnar ellefu þúsund.

    Jón

  10. lydur arnason skrifar:

    Sæl, öllsömul.  Gunnar gjaldþrota er þó ekki að sækja fé í íslenzka ríkiskassann, hvort einhverjir aðilar utanlands hella upp á kallinn er hans mál.  Hinsvegar hafa mestu kvikmyndajöfrar Íslands þurrausið íslenskan kvikmyndasjóð í ár og áratugi og báðir þó með gjaldþrot á bakinu.  Við því segir enginn neitt og eru það þó skattpeningar almennings.

  11. Heiða B. Heiðars skrifar:

    Hvað ertu að gefa í skyn? Að það sé eitthvað óheiðarlegt við fjármögnun myndarinnar???

    Gunnar hefur ekki þegið neina opinbera styrki… það ætti að gleðja þitt auma hjarta. Það eru einstaklingar sem kosta gerð myndarinnar og það verður enginn feluleikur með það.

    Viltu nöfn?

    Kemur þér það yfir höfuð eitthvað við?

  12. Valsól skrifar:

    Eru helbláir eitthvað pirraðir yfir því að menn séu að rifja upp orsökina fyrir þessu hruni, eru menn hræddir um að fólk átti sig aftur á þeirri staðreynd að Sjálfstæðismönnum er um að kenna?

  13. Ingi F. Vilhjálmsson skrifar:

    Sæll Eiður,

    þar sem ég er einn af þeim fávísu fjölmiðlamönnum sem þú heggur til með gagnrýni þinni á notkun orðsins „barnalán“ í fréttum um lán Glitnis til nokkurra ólögráða stofnfjáreigenda í Byr þá vil ég koma því á framfæri að mér er fullkunnugt um merkingu orðsins barnalán. Ég þori reyndar að fullyrða að flestir aðrir fjölmiðlamenn sem notað hafa þetta orð, „barnalán“, um lán Glitnis vita hvaða merkingu það hefur í raun. Hér eru menn hins vegar að leika sér með tungumálið með því að nota orð, sem yfirleitt er notað um þá sem eignast mörg og heilbrigð börn, í allt annarri merkingu. Og það er alveg hægt að nota orðið „barnalán“ um lán þessi Glitnis því það skilst fullkomlega við hvað er átt. Oft hittir þú naglann á höfuðið með athugasemdum þínum. Þú gerir það aftur á móti ekki með þessari. Það sem felst í gagnrýni þinni er í raun að þú virðist vilja koma í veg fyrir að menn leiki sér á skapandi hátt með orð og tungumálið. Mér finnst þú ganga full langt í þessum umvöndunum þínum. Ef menn tileinka sér þennan boðskap þinn getur það komið í veg fyrir að þeir noti tungumálið á skemmtilegan og skapandi hátt. Orð sem hefðu getað orðið til eða verið notuð um ákveðna hluti á nýjan hátt verða það ekki. Afleiðingin: Tungumálið verður fátækara fyrir vikið. Kannski ættir þú velja þér atriði til að gagnrýna þar sem þörf er á gagnrýni þinni. Þetta finnur þú víða en ekki í notkuninni á orðinu barnalán í þessu samhengi.

    Bestu kveðjur, Ingi F. Vilhjálmsson, blaðamaður á DV 

  14. Jenný Anna Baldursdóttir skrifar:

    Ég ætla rétt að vona Eiður að íslenskir hæfileikamenn muni láta til sín taka á hvaða vettvangi sem er þrátt fyrir gjaldþrot því þangað stefnir töluverður hluti þjóðarinnar.

    Gunnar sagði að vinir sínir í Frakklandi hafi boðist til að fjármagna myndina, ég sé ekkert óljóst við það svar.

    Eygló hérna hefur svo alveg rétt fyrir sér í því að „barnalán“ er orðaleikur sem lýsir vel siðleysinu í viðkomandi lántökum foreldra.

  15. Steini Briem skrifar:

    Blessað er það barnalán,
    í Bólstaðarhlíð sautján,
    þar öll börnin þrettán,
    þekkt nú fyrir bankarán.

  16. Eygló skrifar:

    Ég sé nú bara sakleysislegan orðaleik þegar orðið „barnalán“ er notað um lántöku þessara gróðabraskara.

    Ekki síður er ég ánægð með háðið sem fram kemur í þessari notkun.

    Ætli það flokkist undir barnalán hjá þessu fólki, að hafa getað svikið út lán og skráð á börnin?

    Mér finnst þetta fyndið en hver hefur sinn húmor OG ÞAÐ BREYTIR ekki fallegri merkingu þessa orðs – alvöru merkingu 🙂

    Manstu leikritið „Blessað barnalán“ ?   (*_*)

  17. Jóhannes B. skrifar:

    Takk fyrir góðan pistil.

    Ein viðbót varðandi ferð skemmtiferðaskipsins undir brúna. Eins og fram kemur hjá þér var talað fjálglega um ferð skipsins og í fréttum stöðvar 2 var sagt frá ferð þess undir Stórabeltisbrúna. Um leið og fréttin var lesin og talað um Stórabelti kom grafík upp á skjáinn sem sýndi leið skipsins. Það var eins og grafíkerinn væri ekki með á nótunum því hann sýndi leiðina um Eyrarsund 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>