«

»

Molar um málfar og miðla 2051

YFIRMAÐUR FORSETAEMBÆTTISINS

Í fréttum Ríkisútvarps á föstudagskvöld voru nefnd nöfn ýmissa, sem kæmu til greina, sem ráðherrar eða valdamiklir embættismenn, þegar Donald Trump tekur við embætti. Þar og á vef útvarpsins var talað um yfirmann forseta embættisins. Þar sagði: ,, Þá þykir líklegt að Newt Gingrich, fyrrverandi forseti Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, verði yfirmaður forsetaembættisins. Sú staða jafngildir ráðherraembætti“. Þetta er rugl. Hér er átt við yfirmann starfsliðs forsetans (e. Chief of staff), sem er valdamesti embættismaðurinn í Hvíta húsinu. Hann er ekki yfirmaður forsetaembættisins. Segir sig sjálft. Enn síður starfsmannastjóri eins og stundum hefur verið sagt í fréttum um þetta embætti.

http://www.ruv.is/frett/trump-hugar-ad-stjornarmyndun-um-helgina

 

 

ENGINN ELDUR TIL STAÐAR !

Góður vinur og Molalesandi benti skrifara á þessa frétt á visir.is (10.11.2016): ,, Slökkviliðið var kallað út að Egilshöll í Grafarvogi núna á sjöunda tímanum í kvöld vegna íkveikju inni á baði. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu fór brunavarnarkerfi hallarinnar í gang þannig að úðari fór í gang en ekki liggur fyrir í hverju var kveikt. 

Enginn eldur var því til staðar þegar slökkviliðið kom á vettvang og er því aðeins um vatnstjón að ræða sem að öllum líkindum er minniháttar að sögn slökkviliðsins.“

Enginn eldur var til staðar. Það var og !  Þakka ábendinguna.

 

http://www.visir.is/ikveikja-i-egilsholl/article/2016161119850

 

FRAMBURÐUR

Enn heyrist talað um ríkið ArkansaS í Bandaríkjunum í fréttum Ríkisútvarps. Síðast í tíu fréttum á fimmtudagskvöld (10.11.2016).Sama villa, sami fréttamaður í tíufréttum Ríkissjónvarps sama kvöld. Þetta orð er ekki, fremur en svo mörg önnur, kannski næstum öll orð í ensku , ekki borið fram eins og það er skrifað. Það er borið fram /aarkan so/ . Ekkert S í lokin. Þetta er með leik hægt að hlusta á á netinu, ef maður er í vafa. Stundum er eins og lítil leiðsögn sé til staðar fyrir nýtt fólk á fréttastofunni. Það er slæmt. Þar er nóg af góðu fólki, sem kann þetta, en verkstjórnin er ekki sem skyldi. Þetta hefur oft verið nefnt áður í Molum.

https://www.youtube.com/watch?v=U0e7js9LYsE

 

UNDIR FJALLI

Hvassviðri var um sunnan- og vestanvert landið á föstudag (11.11.2016), svo hvasst að loka þurfti vegum sumstaðar um tíma. Í níu fréttum Ríkisútvarps var sagt að veginum undir Hafnarfjall hefði verið lokað. Það liggur enginn vegur undir Hafnarfjall. Veginum undir Hafnarfjalli var lokað, þar er annálað veðravíti í vissum vindáttum. Þjóðvegur eitt liggur skammt frá fjallsrótunum. Þess vegna er sagt að vegurinn liggi undir fjallinu, ekki undir fjallið. Þetta var rétt í útvarpsfréttum klukkustundu síðar.

 

AÐ SIGRA KEPPNI

Úr frétt á mbl.is (11.11.2016): ,, Dan­sparið Sig­urður Pét­ur Gunn­ars­son og Pol­ina Oddr sigruðu danskeppn­ina Dutch Open í lat­in-döns­um í flokki 21 árs og yngri sem hald­in var í Assen í Hollandi.‘‘ Það var og. Það sigrar enginn keppni. Enda keppir enginn við keppni. Dansparið sigraði í keppninni. Mogginn á ekki að flaska á svona. En , – eins og áður, – enginn les yfir.

http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/11/11/donsudu_sig_a_toppinn/

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>