Í TILEFNI DAGSINS
Sveinn skrifaði Molum (17.11.2016): ,, Sæll Eiður,
á fréttamiðlinum Vísi var flennistór fyrirsögn, Rooney segir sorrí, og það á degi íslenskrar tungu.
http://www.visir.is/rooney-segir-sorri/article/2016161119004
Nær væri að Vísir bæðist afsökunar.
Áður hefur vakið athygli og meðal annars fjallað um það á þessum vef hversu augljóslega brotin eru lög á matarvef Netmogga með áfengisauglýsingum. Þar er ekkert lát á og í gær (15.11) birtist þar auglýsing á Thule bjór. Eða dæmi nú hver fyrir sig:“
http://www.mbl.is/matur/frettir/2016/11/15/jolabjordagatal_i_takmorkudu_upplagi/
Molaskrifari þakkar Sveini bréfið og þarfar ábendingar. Ítrekuð er gagnrýni á Ríkissjónvarpið fyrir síendurteknar áfengisauglýsingar. Þar er ekkert lát á lögbrotum þótt látið sé sem verið sé að auglýsa einhverskonar léttöl.
STÓR TRUFLUN!
Á mbl. Is er (15.11.2016) talað um stóra truflun,en þar segir: Stór truflun varð í flutningskerfi Landsnets í dag klukkan 14:26 þegar eldingu sló niður í Búrfellslínu 3.
Molaskrifari minnist þess ekki að hafa heyrt talað um stóra truflun. Varð ekki rafmagnslaust? Varð ekki dreifikerfið óvirkt um hríð?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/11/15/stor_truflun_i_flutningskerfi_landsnets/
MERKING ORÐANNA
Í Fréttablaðinu (15.11.2016) er klausa á bls. 14 þar sem sagt er að Birgitta Jónsdóttir, Pírati eða sjóræningi sé í því að loka hurðum, útiloka samstarf við aðra flokka. Ummæli hennar hafi hleypt illu blóði í í fólk innan Bjartrar framtíðar. Síðan segir ,,Það er einkennilegt af stjórnmálamanni í forsvari fyrir tíu manna þingflokk að tala svo fjálglega á óvissutímum.Stjórnmál eru list hins mögulega, ekki lokunar. ‘‘
Eitthvað vefst merking þess að tala fjálglega fyrir þeim sem þetta hefur skrifað. Að tala fjálglega merkir að vera háfleygur eða tala af mikilli andakt. Það má líka nota um mælgi, innihaldslítinn orðaflaum.
ALLT ER STAÐSETT
Oft hefur verið vikið að því í Molum hve mikið dálæti fréttamenn og fréttaskrifarar hafa á sögninni að staðsetja. Allt er staðsett. Í fréttum Stöðvar tvö (16.11.2016) sagði fréttamaður okkur: ,, Við erum hérna á bráðamóttökunni þar sem neyðarmóttakan staðsett“.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
18/11/2016 at 14:30 (UTC 0)
Rétt athugað, Orðavin. Takk.
Jón Kr. Arason skrifar:
18/11/2016 at 13:25 (UTC 0)
Varðandi „stóra truflun“.
Mér finnst margir nú nota lýsingarorðið „stór“ í stað „mikill“. Það hefði verið í lagi að tala um „mikla truflun“. Þetta er sérstaklega áberandi í þýðingum úr ensku.
Orðavin