«

»

Molar um málfar og miðla 2067

VÍFILSFELL – OG FLEIRA

Sigurður Sigurðarson sendi Molum eftirfarandi (02.12.2016): ,, Sæll,

Um daginn var á vettvangi þínum rætt um Kók-verksmiðjuna hér á landi vegna nafnabreytingar. Fyrirtækið sem rekur verksmiðjuna hét Vífilfell hf. Fjallið er hins vegar kennt við Vífil og heitir Vífilsfell. Þetta er í samræmi við eignarfallsendingu á örnefnum sem kennd eru við nöfn fólks; Eiríksjökull, Jörundarfell og Áshildarmýri. Steinsholtsjökull er örnefni í þremur samsetningum og þar af tvö í eignarfalli. Jökullinn er kenndur við Steinsholt, sem líklega er kennt við stórgrýti frekar en mann sem heitið hefur Steinn.

 

Til gamans: Eiðsgrandi er eftir því sem ég best veit ekki dregið af nafninu Eiður heldur eiði í merkingunni grandi, nes. Væri til klettur eða bjarg sem kenndur væri við svan myndi það væntanlega nefnast Svansberg en líklega ekki Svanberg. Fann ekkert örnefni kennt við Svan í eintölu. Guðnasteinn (ef) er klettur efst í Eyjafjallajökli. Svona er nú gaman að velta fyrir sér örnefnum. Hins vegar veit ég ekki til þess að örnefnið Sig-urð sé til en við Dyngjufjöll er Stórurð sem er gríðarlega sérkennilegt og fallegt svæði.

 

Svo er það þetta með Vífilfell hf. Fallegt nafn þrátt fyrir að eignarfallsessið vanti. Hvers vegna er verið að breyta troða útlensku nafni á fyrirtækið? Ensk heiti á íslenskum fyrirtækjum virðast nær allsráðandi. Svo rammt kveður að þessu að í Skaftafelli var einhver sölukerra sem eigandinn nefndi „Glacier Goodies“, væntanlega til að selja betur. Gleraugnaverslun á höfuðborgarsvæðinu þar endilega að heita „Eyesland“, ómerkilegur orðaleikur. Á Laugarvatni datt framtakssömum aðilum ekki annað heiti á gufubaði og sundlaug en „Fontana“ og er það þó á sögulega stórmerku svæði.

Hvað er eiginlega að fólki?“ Kærar þakkir fyrir þennan prýðilega pistil, Sigurður. Von er að spurt sé: ,,Hvað er eiginlega að fólki?“

 

ENGINN LAS YFIR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (03.12.2016) var sagt:,, Lögreglan í Oakland barst tilkynning um eldinn …http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/kvoldfrettir/20161203 (01:30) . Lögreglan barst ekki tilkynning. Lögreglunni barst tilkynning. Í sama fréttatíma var sagt frá skemmdum á flugvellinum við Neskaupstað, – það var svona orðað: ,, …. Vegna skemmda ,sem vertaki á vegum Landnets skildi eftir á vellinum ….“ Skemmdir voru skildar eftir ? Endemis þvæla. Enginn las yfir. Engin verkstjórn. Ekki boðleg vinnubrögð. Þetta var reyndar lagfært á vefnum, – seinna.

 

HÆFILEGA SLASAÐUR?
Trausti skrifaði Molum (023.12.2016) Hann benti á eftirfarandi frétt á visir.is http://www.visir.is/frelsissviptingarmal-i-fellsmula–reynt-ad-koma-i-veg-fyrir-ad-parid-flyi-land/article/2016161209752

„Hann var undir læknishöndum fram eftir gærkvöldinu, ekki of illa slasaður, en brugðið og lemstraður.“

,,Ekki of illa slasaður, nei. Var hann þá kannski hæfilega slasaður?“

Þakka ábendinga Trausti. Þetta eru furðuleg skrif.

 

FRYSTUR LEIKMAÐUR

Í íþróttafréttum Bylgjunnar í hádeginu (01.12.2016) var okkur sagt frá íþróttamanni, sem hafði verið frystur. Af fréttinni mátti ráða, að hann hefði lifað frystinguna af.

 

LYKTIR

Í morgunþætti Rásar eitt (02.12.2016) þar sem talað var um að stjórnarmyndunarviðræður gengju treglega var spurt: ,, … og mun það lykta með kosningum fljótlega ?“ Þetta er ekki rétt. … og mun því lykta með kosningum fljótlega“.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>