«

»

Molar um málfar og miðla 205

       Góður vinur og gamall skólabróðir, Sigurður Oddgeirsson,  sem nú dvelst með  Jótum , sendi mér eftirfarandi. Sigurður hefur farið vítt um veldi Dana  og raunar veröldina  , en ekki hefur það dregið úr áhuga hans á  mikilvægi móðurmálsins. Kærar þakkir fyrir sendinguna, Siggi: 

„Ekki veit ég hversu oft þú hlustar á sjónvarps- og/eða útvarpsfréttir. En í hvert skipti sem ég hlusta (og reyndar líka þegar ég les í blöðum) á lögreglumenn segja frá innbroti eða slysförum eða hvers kyns óáran, þá virðist einföld þátíð algerlega gleymast. Framsetningin verður sem sé einhvers konar praesens historicum eins og það var kallað í tímum hjá Magnúsi (Finnbogasyni) og Kristni (Ármannssyni) í MR fyrir heilum mannsaldri síðan. Fylgdi sú skýring þeirra lærifeðra, að gripið væri til þessa stílfyrirbrigðis í latínu til að auka spennu í frásögnina.

   Annað „löggu“ fyrirbæri er að gefa allt of nákvæman tíma í blaða- eða sjónvarps fréttum um atburði næturinnar. „tilkynningin barst kl. 03:28 í nótt“. Mér finnst þetta fáránlegt. Ber þó meira á þessu í danska sjónvarpinu, enda glæpir næturinnar algengari í þvísa landi. Algengt er, að lögreglumenn segi frá á eftirfarandi hátt: Um þrjúleytið síðast liðna nótt kemur bíll akandi að vörugeymslunni og næturvörður verður var við, að innbrotsþjófarnir fara inn um glugga á bakhlið hússins. Hann hringir á lögregluna og  kemur hún á vettvang….. o.s.frv. o.s.frv. 

Ég hef heyrt þýzkan kennara (frá Sviss) ræða móðurmál sitt og halda því fram, að einföld þátíð væri dauð og horfin í nútíma þýzku, leyst af hólmi af samsettri þátíð. Er eitthvað slíkt að gerast með íslenskuna ?  Þetta ruglar hlustendur og lesendur, því menn  leggja ósjálfrátt framtíðarmerkingu í orðalagið, (nt. með framtíðarmerkingu). Það er algerlega úti á túni (góð þýðing á e. out of tune), að láta nt. leysa þt. af hólmi! Eða hvað? 

Þá er þriðja fyrirbrigðið, sem veldur mér miklu hugarangri, en það er meiningarlaus notkun smáorðins .  Nokkur dæmi af mörgum:  Það verður fróðlegt að sjá hvert Eiður Smári muni fara gangi salan eftir. (Blogg Stefáns Friðriks Stefánssonar um Eið Smára 12. júní 2007) 

well.. þar sem eigendurnir vildu hafa þetta af tékkneskri pilsnerfyrirmynd þá efastég um að við sjáum eitthvað tilþrifameira, þrátt fyrir að doppelbock og hveitibjór væru flott múv (Ókunn athugasemd við KALDA bjór frá Árskógssandi).   

Skv. upplýsingum þá á verkefnið að skila ca 1 ma.kr. per anno næstu 25 árin(Skýrsluhluti saminn af cand.jur) Skv. upplýsingum sem ég hef fengið munnlega frá ÁÞÁ. þá verður ekki  annað sagt en að verkefnið líti vel út.(Sami höf.) Eftir samtal við ÁÞÁ. þá legg ég til að við hittumst í húskynnum …..(Sami höf.) 

Væri ekki gráupplagt fyrir höfunda að nota hér blekklessuna öhö eða hm eða eitthvað álíka? Hvers vegna að láta þetta ganga útyfir smáorðið að, sem hefur miklu hlutverki að gegna í málinu okkar? 

Jæja, ekki meir að sinni. S “

Kærar þakkir fyrir sendinguna, Siggi.      

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eygló skrifar:

    vantaði þig bilið; út fluttir?

    brottreknir / brott reknir?
    innfluttir  / inn fluttir?
    aðfluttir / að fluttir

    Einhver blæbrigðamunur. Hvort tveggja góð og gild íslensk orð, samræmist orðmyndun samsettra orða. Ætti að skiljast, sérstaklega ef brosað er út í /útí annað

  2. Haukur Kristinsson skrifar:

    …flutningar, en ekki fluttningar. Biðst afsökunar.

  3. Haukur Kristinsson skrifar:

    Eygló….þú skrifar útfluttir Íslendingar. Menn flytja út hitt og þetta og við það verður til útfluttningur. En útfluttar menneskjur kannast ég ekki við hér norðan heiða. Brottfluttur hinsvegar. En kannski er þetta sérviska í mér. 

  4. Eygló skrifar:

    Ekki er öllu lokið eða baráttan töpuð úr því að útfluttir Íslendingar halda enn hugsun, – íslenskri þ.e.a.s.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>