«

»

Molar um málfar og miðla 206

    Í gegnum sögu Íslands hafa ….    Á  þessum orðum hefst  blaðagrein eftir varaformenn fjögurra stjórnmálaflokka. Í skóla var  Molaskrifara kennt    svona ætti ekki að taka  til orða. Hér hefði til dæmis mátt byrja á orðunum: Í aldanna rás…. Svo er fjallað um áföllin sem  dunið hafa á þjóðinni og  sagt: Sum hafa verið af völdum náttúru og önnur hafa verið efnahagsleg.  Hér  hefði að mati Molaskrifara verið   eðlilegra að  segja  af  völdum náttúrunnar , ekki náttúru. Í greininni segir ennfremur: Sú efnahagskreppa sem við erum nú stödd í …  Þetta finnst  Molaskrifara  ekki vera til  fyrirmyndar. Að vera staddur í kreppu ! Eitt í viðbót: Í þessari viku verða haldnir yfir 100 viðburðir á Íslandi… Að halda  viðburð?  Þau  dæmi sem hér hafa verið tilgreind  staðfesta þá gömlu skoðun  Molaskrifara að því  fleiri sem greinarhöfundar eru , því  lakari verður afurðin.

 

 Í fréttum Stöðvar tvö  (20.11.2009) var  sagt  frá mikilli úrkomu í Bretlandi og  talað um úrkomumagnið á 24 klukkustunda  tímabili.  Í fréttum  RÚV  sjónvarps var  talað um sólarhringsúrkomu, sem Molaskrifara finnst ólíkt betra  orðalag.

   
 Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ætti að taka  sig  til og  kenna þeim sem  kynna  dagskrána í sjónvarpi hvernig  orðið dóttir  fallbeygist. Aftur  og  aftur  heyrir maður að  dagskrárkynnar vita ekki að  nafnorðið  dóttir  beygist: dóttir,dóttur,dóttur,dóttur.

Þægilegt var  (21.11.2009) að hlusta  á  tónlist úr þularstofu milli klukkan   sjö og átta að morgni laugardags á Rás eitt. Vandaðar kynningar, þægileg rödd og  vel valin tónlist. 

Mikil er hugmyndaauðgi  dagskrármanna  sjónvarpsstöðvanna. Stöð tvö (20.11.2009) Ísland í dag = Jón Gnarr. RÚV sjónvarp (20.11.2009) Kastljós=Jón Gnarr. Svo var þetta ekki einu sinni fyndið !  

„Það var aldrei krafist þess að sjá listann,“ hefur visir.is eftir umboðsmanni barna (20.11.2009). Þess  var  aldrei krafist að fá að sjá  listann , hefði verið betra orðalag.


  Hverju eiga hlustendur að trúa, þegar prófessor við   virtustu menntastofnun þjóðarinnar setur fram  tölur  um launahækkun sjómanna  og  aukinn hagnað útgerðarfyrirtækja og kvöldið eftir kemur  svo  talsmaður útgerðarmanna  og segir  allar tölurnar tómt  rugl eins og annað sem frá þessum prófessor komi?

 

 Molaskrifari verður að  játa  að hann er  svolítið  ruglaður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>