«

»

Molar um málfar og miðla 211

Á vefmiðlinum dv.is  er þessi setning ( 30.11.2009):   Jóhannes (í Bónus) sakar Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, um að dreifa fluguritum innan háskólans. Það er ekkert til sem heitir  flugurit. Rétta orðið er flugrit, dreifirit (pésar eða stakir miðar) segir orðabókin. . Prófessorinn  finnur sér ýmislegt að dunda við  eftir að hann lauk  við að skrifa upp úr Halldóri  Laxness.  

 Morgunblaðið segir í fyrirsögn (27.11.2009): Toyotaumboðið í söluferli. Sem sagt: Toyotaumboðið er til sölu. Það hefur verið mikill snillingur sem bjó til orðasambandið að setja í söluferli í stað þess að segja einfaldlega að eitthvað sé til sölu. Þetta orðalag virðist bráðsmitandi.

 Eftirfarandi setning á visir.is (27.11.2009) er sígilt dæmi um vankunnáttu í notkun móðurmálsins: Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vill að forsætisnefnd Alþingis taki það til sérstakrar umræðu hversu oft ráðherrar í ríkisstjórninni hafi verið brigslaðir um landráð. Hér ætti auðvitað að standa: Hversu oft ráðherrum í ríkisstjórninni hafi verið brigslað um landráð. Talað er um að brigsla einhverjum um eitthvað. 


 Í hádegisfréttum RÚV (227.11.2009) var sagt: … eftir að fleiri hundruð lítrar af bensíni láku út. Molaskrifara var kennt fyrir löngu að nota aldrei miðstig lýsingarorðsins margir með þessum hætti. Fleiri en hvað? Þarna hefði átt að tala um mörg hundruð lítra. Í frétt Morgunblaðsins um þennan sama atburð segir : Dælan er notuð til að ferja bensín úr olíutankinum.Þetta orðalag er rugl. Dæla er notuð til að dæla, hún ferjar hvorki eitt né neitt. Sögnin að ferja þýðir að flytja yfir vatnsfall. Hann ferjaði okkur yfir ána.

  Undarlegt var að heyra umsjónarmenn Morgunvaktar Rásar tvö tala eins og verið væri að brjóta blað í sögu útvarpsins með því að útvarpa beint úr útvarpshúsi tónleikum og kórsöng (27.11.2009) ! Þessi ummæli bera vott um fádæma fáfræði um sögu útvarps á Íslandi. Sögu Ríkisútvarpsins. Í þessu felst líka útblásin sjálfhverfa.  Enn undarlegra var að heyra í þessum þætti snúið út úr orðum Jónasar Hallgrímssonar um Gaimard, sem Háskóli Íslands gerði að einkunnarorðum sínum: Vísindin efla alla dáð. Umsjónarmaður sagði: Viðskiptin efla alla dáð. Misheppnuð tilraun til að vera fyndinn eða bara hreinn bjánaskapur? Nema hvorttveggja sé.

Slúðurfréttaritari Ríkisútvarpsins ,sem sífellt  slettir á okkur ensku vestan frá Ameríku í annarri hverri setningu, var á sínum stað. Ríkisútvarpið okkar stendur svo sannarlega undir nafni sem menningarstofnun. Góða helgi, bæ, voru kveðjuorðin eins og venjulega. Hvar er dómgreind dagskrárstjóra?

 

  Vefmiðillinn visir.is (27.11.2009): að samkynhneigðir fengu ekki að syngja með kórnum. Af samhenginu að dæma, ætti þarna að standa fengju, ekki fengu.    Í almennum prestakosningum, var sagt á Stöð tvö ( 27.11.2009). Hér hefði fréttamaður átt að segja:., í almennum prestskosningum. Það var nefnilega ekki verið að kjósa presta, heldur prest.

Af dv.is (27.11.2009):  því hlutfall of feitra farþega um borð í flugvélum hefur fjölgað talsvert.  Hlutfalli fjölgar ekki. Kannski má segja að hlutfall hækki, eða hafi aukist. En hversvegna ekki að segja: Of feitum farþegum hefur fjölgað talsvert ?

Öfuguggaauglýsingar Símans eru fyrir sannarlega ekki  til sóma, heldur hefur  Síminn skömm af þessu tiltæki. Síminn er í auglýsingaherferð undir  ensku  slagorði: RING. Orðið ring  er  ekki íslenska.  Steininn tekur úr í heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu (30.11.2009) þar sem  stendur Ringdu!   Orðskrípið Ringdu er ekki til á íslensku. Síminn , þetta  fyrirtæki,sem einu sinni var í eigu þjóðarinna  er nú  vísvitandi að spilla  móðurmálinu. Kenna  íslenskum börnum og  unglingum  nýjan  villurithátt. Síminn á að  skammast  sín og fá sér nýja  ráðgjafa í auglýsingamálum.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Birgir Örn Birgisson skrifar:

  2. Eygló skrifar:
    • Ættu að vera viðurlög við svona skemmdarstarfsemi (Síminn)
    • Vann á fasteignasölu. Þar voru eignir í „sölumeðferð“  og „um var að ræða“ hinar og þessar gerðir eigna.
    • Er ekki allt í lagi að snúa út úr og hæðast að gildismati margra, sbr. Vísindin > viðskiptin efla alla dáð = sannast hefur að það hefur verið trú margra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>