«

»

Molar um málfar og miðla 210

   – Eruð þið byrjuð að versla jólagjafirnar? Þessa spurningu lagði fréttamaður Stöðvar tvö (26.11.2009) fyrir  par, sem varð á vegi hans í verslanamiðstöð. Ótrúlega mörgum fjölmiðlamönnum virðist ógerlegt að skilja hver munurinn er á sögnunum að versla og að kaupa. Hér hefði fréttamaður átt að segja: Eruð þið byrjuð að kaupa jólagjafirnar?

   Enn er ástæða til að óska eftir minni áherslu á hárgreiðslu og meiri áherslu á málvöndun í Kastljósi RÚV sjónvarps. Umsjónarmaður Kastljóss ( 27.11.2009) talaði um bíræna þjófa. Átti auðvitað vera bíræfna. Sami umsjónarmaður sagði: Við ætlum að fara næst í auglýsingar. Hvað er að því að segja, til dæmis. Nú gerum við stutt auglýsingahlé. Að tala um að fara í auglýsingar er  ekki  góð málnotkun.

  Sjónvarpsmenn RÚV eru við sama heygarðshornið, – að fara sem  skemmst frá Efstaleitinu, þegar fengnir eru viðmælendur.Og best er að halda sig innanhúss.   Þegar leitað var eftir smákökuuppskriftum, þurfti auðvitað að kalla innanhússmann á vettvang. Sjóndeildarhringurinn er þröngur í Efstaleiti og himinn er asklok. Þaðan gæti þó verið víðsýnt.   

 Af fréttavefnum visir.is (26.11.2009): .. til að réttlæta kynferðislegt samband fullorðna við börn, segir Gunnar. Þarna ætti að standa fullorðinna, ekki fullorðna. Ég sá fullorðna konu. Börnum er heimill aðgangur í fylgd fullorðinna.


  Ekki veit Molaskrifari hvað öðrum finnst um nýjar auglýsingar Símans þar sem karlmenn í kvenfötum leika aðalhlutverk. Til hverra er verið að höfða ? Á þetta að vera fyndið ? Molaskrifara finnst þetta eiginlega nýtt met í kjánaskap.

 

 Þegar við stefnum í það að halda fundi inn í miðjar nætur sagði einn af þingmönnum Framsóknarflokksins úr ræðustóli Alþingis (26.11.2009). Í stað þess að segja  inn í miðjar nætur, hefði hann getað sagt: Langt fram á nótt. En í málþófi skiptir vandað málfar  líklega ekki miklu máli.

  Sjónvarpsþættir þeirra Ara Trausta Guðmundssonar og Valdimars Leifssonar Nýsköpun – Íslensk vísindi , eru með allra besta og áhugaverðasta efnis RÚV sjónvarps. Það á jafnt við um efni, efnistök og  myndræna framsetningu. Molaskrifari gætir þess vandlega að missa ekki af þessum þáttum. Þeir fræða og skemmta í senn.

En fyrst minnst er á sjónvarpsefni, hvenær skyldi RÚV leyfa okkur að sjá  hinn ágæta danska myndaflokk   Forbrydelsen (2) sem nú er verið að sýna bæði í Danmörku og Noregi ?

 

 ..munu halda upp á sín fyrstu jól á Íslandi, stendur í jólablaði Morgunblaðsins 2009. Við höldum ekki upp á jólin. Við höldum (heilög) jól. Þess vegna hefði átt að segja : …halda sín fyrstu jól á Íslandi. Fallegra. Í sama blaði er svohljóðandi texti undir mynd: Það er engu líkara en Karli Sigurðssyni sé farið að hlakka til að smakka jólamatinn. Þetta er með endemum. Þarna ætti að standa : Það er engu líkara en Karl Sigurðsson sé farinn að hlakka til að smakka jólamatinn. Það er meira að hjá Mogga en við blasir við fyrstu sýn. Matthías hefði aldrei látið þetta viðgangast. 


 Fyrirsögn á mbl.is: Jólagleðin yfirtekur Þýskaland. Ekki er þetta orðalag Molaskrifara að skapi. Betra væri: Jólagleðin tekur völdin í Þýskalandi , eða: Jólagleðin ræður ríkjum í Þýskalandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>