«

»

Molar um málfar og miðla 229

Gleðilegt ár !
Áramótaávarp forsetans var athyglisvert fyrir þrennt. Í fyrsta lagi það sem hann sagði um skipan embættismanna í dómskerfinu. Í öðru lagi orð hans um óttann við geðþóttavald ráðamanna og nauðsyn siðvæðingar í stjórnkerfinu. Í þriðja lagi var svo varnaglinn sem hann sló er hann talaði um vilja þjóðarinnar sem hornstein stjórnskipunar lýðveldisins, „þótt ætíð verði að meta aðstæður og afleiðingar ákvarðana”.

Flest annað í ræðunni hefur þjóðin heyrt áður og sumt oft. Í ljósi orða hans: ” Flokksskírteinið var í mörgum tilvikum mikilvægara en fagleg hæfni; vinátta eða tengsl við við ráðherra riðu baggamuninn.” Í ljósi þessarar orða væri fróðlegt að skoða embættisferil fjármálaráðherrans Ólafs Ragnars Grímssonar.

Forsetinn þarf hinsvegar að láta lesa ræður sínar vel yfir svo við hnjótum ekki um setningar eins og þessa. „ Vera má að Eva Joly hafi rétt að mæla, þegar hún spáði á haustmánuðum að fimm ár kynnu að líða þar til næðust málalyktir.” Hér hefði fremur átt að segja : „ Vera má að Eva Joly hafi haft rétt fyrir sér, þegar…”. Eða: Vera má að Eva Joly hafi verið sannspá þegar hún sagði á haustmánuðum að fimm ár… Molaskrifari hefur huinsvegar ekki áður heyrt talað um „að ná málalyktum”. Vel má það þó rétt vera.Móðurmálið hefur aldrei verið hans sterka hlið .
Með lífsseigustu ambögum er orðið áhafnarmeðlimir. Í í Morgunblaðinu á gamlársdag sagði í kynningu á sjónvarpsþætti.: .. en þá verður m.a. rætt við eftirlifandi áhafnarmeðlimi kafbátsins ( sem sökkti Goðafossi í nóvember 1944). Eftirlifandi áhafnarmeðlimi! Hversvegna ekki að segja: Þá verður rætt við skipverja úr áhöfn kafbátsins. Eða: Rætt verður við fyrrverandi sjóliða úr áhöfn kafbátsins.

Í tíu dálka fyrirsögn þvert yfir heila opnu Morgunblaðsins á aðfangadag segir: Verðbólga og aðrir fornir fjandar komnir á stjá. Þetta er kannski ekki rangt , en hefði ekki verið betra að tala um fjendur en fjanda ? Molaskrifari hallast að því.

Á Nýársdagsmorgun var á dagskrá útvarps ríkisins fágætlega gott erindi sem Þórarinn Eldjárn flutti á fæðingardegi Sigurðar Nordals 14. september sl. Þórarinn nefndi síminnkandi hlut móðurmálskennslu í skólakerfinu, sóknarþunga enskunnar gegn tungu feðranna og sagði réttilega að málrækt væri ylrækt. Þetta erindi Þórarins mætti Ríkisútvarpið gjarnan flytja að minnsta kosti einu sinni á ári.

Enskan smeygir sér víða inn. Einhversstaðar sá Molaskrifari nýlega að ungt fólk úr sértrúarsöfnuði mundi flytja tónlist með 50´s þema á safnaðarsamkomu. Þetta er ekki íslenska. Þetta er hrátt úr ensku. Þar er talað um the fifties er átt við sjötta áratuginn. Við segjum um þann sem orðinn er fimmtugur að hann sé á sextugsaldri , en Englendingar að hann sé in his fifties. Svona eru þeir hæverskari en við.

Áramótaskaupið fær fimm stjörnur. Ekki verið jafn gott í áratugi.Atriðið í stórmarkaðnum var frábært, kattatungur í kjötborðinu og drullusokkar handan götunnar í Landsbankanum! Og svo óskin um að Pólverjarnir komi aftur. Ragna Fossberg ætti eiginlega að fá sjöttu störnuna fyrir gervi og förðun.Hún skilaði sínu með miklum ágætum að venju. Sumt af því var óborganlegt , ekki síst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Jú , Jóhanna. Þetta er rétt ábending. Hefði á að fletta þessu upp.

  2. Jóhanna Geirsdóttir skrifar:

    Á Nýársdagsmorgun var á dagskrá …
    Á þetta ekki að vera:
    Á nýársdagsmorgun var á dagskrá …
    Lítið n
    í nýársdagsmorgun
    Sammála þér með áramótaskaupið. Frábært!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>