Ekki verður sagt að árið hafi byrjað vel á Fréttastofu Stöðvar tvö , ef miðað er við orðfæri í fréttum að kveldi Nýársdags. Þar var sagt fór í gegnum námskeið. Betra hefði verið að segja að maðurinn hefði sótt námskeið.
Þar var líka þetta: Davíð hefur heyrt í aðstandendum mannsins,sem líður vel. Hverjum líður vel? Aðstandendum eða manninum? Líklega var átt við manninn. Því þarna fór sannarlega betur en áhorfðist. Þá talaði fréttaþulur um að spóka sig um í góða veðrinu. Málvenja er að tala um að spóka sig, ekki spóka sig um. Að spóka sig, segir orðabókin að sé að labba um og sýna sig og þá líka væntanlega sjá aðra.
Í auglýsingu á báðum sjónvarpsstöðvum var sagt að verslunin Debenhams væri hinn fullkomni fataskápur. Þetta er ákaflega óíslenskt orðalag. Á pressan.is er pistill sem heitir Veröld Mörtu Maríu. Þar stendur þetta: Farðu yfir fataskápinn þinn og gerðu breytingar ef þess þarf. Ef þú ert eitthvað týnd í þessum efnum eru nokkur ráð hér að neðan. Molaskrifari bendir fólki á að líta á þennan pistil. Hann er svo fullur af ambögum, slettum og dellu að slíks eru fá dæmi og sést þó eitt og annað á netinu.
Í fréttum á Nýársdag heyrði Molaskrifari að slagsmál á Nýársnóttu væru fylgikvilli áfengisneyslu.Þetta orðalag er út í hött. Fylgikvilli er sjúkdómur sem tengist eða er afleiðing annarra veikinda. Ómögulegt er að segja að áflog séu sjúkdómur. Eðlilegt væri að segja að slagsmál væru afleiðing áfengisneyslu. Eða að oft væru áflog fylgifiskur áfengisneyslu.
Tæknimönnum RÚV gengur alltaf jafnilla að láta myndklipp fylgja tónhendingum. Það átti við er þjóðsöngurinn var leikinn að loknu ávarpi forsetans á Nýársdag og það átti líka við er sýndar voru einstaklega fallegar myndir frá Akureyri í lok fréttatíma.
Síðari hluti heimildamyndar þeirra Jóns Ársæls Þórðarsonar og Þórs Whitehead var , eins og fyrrihlutinn vel gerður í alla staði. Þeir sem aðrir aðstandendur myndarinnar eiga hrós skilið fyrir að hafa lagt mikla alúð í að gera þessa vönduðu mynd. Ef að einhverju mætti finna þá væri það helst að viðtölin við Þjóðverjana hefðu þolað styttingu. Viðtöl við Íslendingana sem af komust voru áhrifarík og eftirminnileg. Merkilegt er að flak skipsins skuli ekki hafa fundist. Einhver dæmi munu um að munir ,sem ef til vill gætu verið úr skipinu hafi komið í veiðarfæri hjá sjómönnum á þessari fengsælu fiskislóð vestast í Garðsjónum. Við nánari athuganir hefur þó komið í ljós að svo er ekki talið vera.
Það var hinsvegar ósmekklegra en orð fá lýst að kvikmynd um þennan hörmulega atburð skuli í dagskrá RÚV vera römmuð inn við upphaf og endi með auglýsingu frá Eimskip, þar sem segir: Þá var hlegið við störfin um borð! Með þessu er minningu allra þeirra sem fórust sem skipinu sýnd svo mikil óvirðing að slíks munu fá dæmi, ef nokkur. Hafa Ríkisútvarpið, auglýsingadeildin og Eimskip alls enga sómatilfinningu? Þarna voru velsæmi og virðing látin víkja fyrir fjármunum. Þetta var fyrir neðan allar hellur.
Skildu eftir svar