«

»

Molar um málfar og miðla 235

Málglöggur Molavinur benti á ,að í fréttum Stöðvar tvö (09.01.2010) hefði verið rætt við mótmælanda á Austurvelli, sem hefði sagst skulda 500 þúsund og húsið sitt hefði verið kyrrsett. Fréttamaður gerði enga athugasemd við þetta orðalag , en væntanlega hafa ýmsir átt í erfiðleikum með að skilja hvernig hús hefur verið kyrrsett, – þetta er sagt með fullri virðingu fyrir viðkomandi einstaklingi, sem greinilega átti við mikla fjárhagserfiðleika að etja.

Annar Molavinur sendi eftirfarandi línur: „Eitt er það sem fer í taugarnar hjá mér í umræðum um forsetann og synjun hans. Fjölmargir, bæði stjórnmálafræðingar og blaðamenn, hafa sagt varðandi synjun forsetans að hann sé fyrsti forseti á lýðveldistíma sem beitir þessu ákvæði stjórnarskrárinnar. Hvers lags bull er þetta eiginlega? Hverjir voru forsetar Íslands fyrir lýðveldisstofnun? Væri ekki ráð að bæta þeim mætu mönnum inn í sögubækurnar?”. Þetta er auðvitað laukrétt.

Fréttaþulur Stöðvar (11.01.2020) hafði ekki fyrir því að beygja heiti sparisjóðsins Byrs , þegar fjallað var um málefni sparisjóðsins í fréttum. Fréttamaðurinn ,sem fréttina sagði hafði þetta hinsvegar rétt.

Fréttamönnum gengur sumum hverjum illa að læra að hvíta húsið við Lækjartorg þar sem forsætisráðuneytið er til húsa heitir ekki stjórnarráðið eins og sagt var í fréttum ríkissjónvarpsins(11.01.2010). Stjórnarráðið er samheiti yfir öll ráðuneytin. Húsið við Lækjartorg er hinsvegar venjulega kallað stjórnarráðshúsið.

Í sama fréttatíma sama miðils var sagt: … vegna setningu neyðarlaganna hér á landi. Þarna hefði samkvæmt reglum tungunnar átt að segja… vegna setningar neyðarlaganna. Enn skal vitnað í þessar sömu fréttir RÚV. Fjallað var um lélega kartöfluuppskeru í Þykkvabænum og sagt að venjulega væri uppskeran á landinu um 13 þúsund tonn (minnir mig) og síðan: Það magn mætti markaðinum í ellefu mánuði. Ekki vel að orði komist. Hversvegna ekki að segja á mannamáli að þetta endist okkur í 11 mánuði ?

Er Molaskrifari einn um að endurupplifa Skaupið, þegar hann sér formann Framsóknarflokksins á skjánum? Hann ætti reyndar að raka af sér hýjunginn. Fer honum ekki vel.

Í Sandkorni dv.is er skrifað (11.01.2010) :Kenningar eru uppi um það að forsetinn hafi ákveðið það á gamlárskvöld að synja lögum um Icesave samþykkis og vísa þeim til þjóðarinnar. Þar hafi háðuleg umfjöllun um forsetann sjálfan ráðið úrslitum. Hafi þetta ráðið úrslitum má segja að Skaupið hafi verið þjóðinni dýrt spaug.

Svo er spurt í lokin hverskonar dagskrárskipulag er það hjá sjónvarpi ríkisins að endursýna Kastljós ,þegar klukkuna vantar tíu mínútur í eitt eftir miðnætti? Spurt er beint: Er þessi endursýning hluti af kjörum þeirra sem starfa við Kastljósið ? Getur varla verið. Þetta er fáránlegt fyrirkomulag. Hve margir horfa á Kastljós að loknum fréttum ? Hve margir horfa á endursýnt Kastljós klukkan eitt að nóttu? Annars var viðtal Þóru Tómasdóttur við Jan Egeland fróðlegt og gott.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>