«

»

Molar um málfar og miðla 236

Í hádegisfréttum  RÚV (12.01.2010) var talað um að gera eitthvað upp á sitt einsdæmi.  Einsdæmi er  atburður  sem  telst einstæður, á sér ekki  hliðstæðu. Að  gera eitthvað upp á sitt eindæmi er hinsvegar að  gera eitthvað  af  eigin hvötum, einn og óstuddur eða á eigin  ábyrgð.

 Landlæknisembættið hefur opinberlega varað við  því sem kallað er  kraftaverkaefni (E. Miracle Mineral Solution/Supplement) og selt hefur verið hér á landi. Þetta á að geta  læknað allt, bæði alnæmi og berkla. Eitrunarmiðstöð Landspítalans segir efnið geta valdið alvarlegum veikindum og jafnvel  dauða. Þessar viðvaranir eru  byggðar á viðurkenndum vísindarannsóknum. Það er þessvegna  vítavert ábyrgðarleysi af ráðamönnum Rásar tvö hjá RÚV  (13.01.2010) að kalla að hljóðnemanum  hómópata sem  segir   landsmönnum að það sé  allt í fína með þetta efni , hún noti það  sjálf.  Hér var Ríkisútvarpið notað  til að  gera   lítið  úr  viðvörunum landlæknis og  Eitrunarmiðstöðvar Landspítalans, nánast verið að segja að viðvaranir þessara aðila  væru markleysa. Er þetta hlutverk  Ríkisútvarpsins?

Þegar farið er rangt með staðreyndir í fréttum á að viðurkenna það ,en ekki reyna að  fela mistökin. Í  fréttum Stöðvar  tvö  (12.01.2010) um  fjölgun hótelherbergja í höfuðborginni var sagt: … í þessum turni  sem upphaflega átti að hýsa skrifstofur stendur til að opna nýtt  350 herbergja  hótel…   Svo kom  leiðrétting í lok  frétta um að ekki ætti að breyta  turninum í  hótel ,…. eins og  skilja mátti…  Þetta var ekki  spurning um að skilja. Það var sagt í  fréttum að   til stæði,  eða  með öðrum orðum að hefjast ætti handa   um  að  gera þarna  350 herbergja  hótel. Þegar fréttamenn gera mistök  eiga  þeir að viðurkenna það, en ekki  beita útúrsnúningum.

Öfgafemínisti skrifar á   eyjublogg sitt   (12.01.2010) Fyrsta Hitt Femínistafélags Íslands í ár fjallar um konur í sveitarstjórnum. Stefanía Traustadóttir, Þorgerður Einarsdóttir og ég verða með framsögur og svo verða eflaust hressandi umræður eins og venjulega. Hittið hefst kl. 20:00 í kvöld á Gallerý Horninu.  Ef ég man  rétt skrifaði Þórbergur um að gera  hitt og  allir  vissu hvað hann átti  við. Nú  virðast öfgafemínistarnir  gera enn eina atlögu  tungunni  með því að kalla venjulegan  fund  Hitt.  Þetta er framúrskarandi hallærislegt, nema auðvitað að fólk sé að gera hitt !

 Þegar allt er gert rétt  og  reglum fylgt þá  er of oft  notuð hráþýðingin úr  ensku  eftir bókinni ( e. by the book).  Svo  var í mbl. is (12.01.2010) er sagt var frá manni ,sem  fengið hafði hjartaáfall: ….tekur fram að viðbrögðin hafi verið eins og best verður á kosið og algjörlega eftir bókinni. Þarna hefði alveg nægt að segja að viðbrögðin hefðu verið eins og best varð á kosið. Hvaða  bók var þetta annars?

Skrítnir pistlar um tísku fólk og frægð á  pressan. is  eru engu líkir. Dæmi (11.01.2010):

Húsið er staðsett í Galicia á Spáni. Húsið er eitt stórt steypuferlíki sem er steinklætt að utan. Mikið er lagt upp úr garðinum í kringum húsið sem  er hannaður út í hið óendanlega. Ekki er mikið um gróður, fyrir utan gras og stöku tré. Útsýnið úr húsinu er mikið. Þegar inn er komið tekur smart og hlýlegt heimili á móti gestum. Ferkantaðar línur ráða ríkum, bæði í veggjum, innbyggðri lýsingu og innréttingum.  – Gerist ekki betra. Nema þá ef til vill þessi setning eftir  sama höfund (12.01.2010):  Það að vera í hælum gerir mikið fyrir ásjónu hverrar konu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>