«

»

Molar um málfar og miðla 237

Illa gengur að losna við amböguna  síðasta sumar. Í hádegisfréttum RÚV  (íþróttafréttum 14.01.2010) Var  talað um síðasta  sumar , þegar samkvæmt íslenskri málvenju hefði átt að segja: … í fyrra sumar.

    Enn heldur fréttamaður RÚV  áfram að kalla  Stjórnarráðshúsið  við Lækjartorg stjórnarráðið. Getur ekki málfarsráðunautur  RÚV  skýrt það út  fyrir manninnum að stjórnarráðið er  samheiti yfir öll ráðuneytin, en hvíta húsið  við Lækjartorg ,sem hýsir  forsætisráðuneytið, er  og hefur verið kallað Stjórnarráðshúsið ? Þetta er  tiltölulega einfalt og auðskilið.

Í ágætri grein í DV (13.01.2010)  segir:… að ábyrgðarleysið sé ekki eini  fylgifiskur prófkjaranna. Þegar orðið  kjör  er  notað í merkingunni  val  eða kosning þá er  eignarfall fleirtölu kjöra, með  greini kjöranna. Þessvegna hefði hér átt að tala um  fylgifisk prófkjöranna. En þegar orðið kjör   er  notað í merkingunni  hagur   eða laun þá er eignarfall fleirtölu kjara, kjaranna með  ákv.  greini.  Ókeypis  húsnæði  er hluti kjaranna.

Í mbl.is  (13.01.2010) er talað um: …að leita uppi tvo af föngum búðanna, …  Það er út í hött  að einhverjir hafi verið fangar búða. Verið var að leita uppi  tvo menn úr fangabúðum, þar sem mennirnir höfðu verið fangar Bandaríkjamanna. Sami miðill fjallaði um kuldakast í Flórída og  var tekið þannig til orða: …. og hefur frosið þar að næturlagi. Eðlilegra  hefði verið að  segja  til  dæmis ,að þar hafi verið frost undanfarnar nætur  eða að þar hafi verið næturfrost.

Í leiðara Fréttablaðsins (13.01.2010)  er ágæt umfjöllun um fúkyrðaflauminn og níðið á netinu sem  oftast er sett fram í skjóli nafnleyndar. En fúkyrðaflaumur og níð takmarkast ekki við netið. Það er einnig að  finna á  öðrum  miðlum og  kemst þar enginn með tærnar þar sem Útvarp Saga er með hælana.  Þar þarf ekki lengi að  hlusta  á umfjöllun um  IceSave   (Stöðin fjallar eiginlega ekki um annað)  til  þess að heyra talað  um  landráð og  að  þingmenn og  ráðherrar séu kallaðir idjótar og þaðan af verra.   Verstir eru þættir útvarpsstjórans og meðreiðarsveins hennar. Þátturinn sem þau kalla  Línan er laus, ætti kannski fremur að heita Skrúfan er laus.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>