Í fréttum Stöðvar tvö var (15.01.2010) var fjallað um viðurkenningu sem veitingahús hafði fengið og sagt: … eina hæstu viðurkenningu, sem veitingahús getur hlotið. Þarna hefði að líkindum verið betra að tala um eina æðstu viðurkenningu…
Hljóðbútur af atvikinu má nálgast í fréttinni,sagði í frétt í dv.is (19.01.2010). Hljóðbút af atvikinu má nálgast í fréttinni ,ætti að standa þarna.
Tönnlast var á því daginn út og daginn inn (14.01.2010) í fréttum RÚV …. að draga Breta og Hollendinga að samningaborðinu. Ekki minnist Molaskrifari þess að hafa heyrt nokkurn stjórnmálamann nota þessi orð. Kannski hefur fréttastofu RÚV bara þóknast að orða þetta með þessum hætti og þótt fagmannlegt. Verið var að fjalla um möguleika á að fá Breta og Hollendinga til að setjast að nýju að samningaborði með Íslendingum. Tæpast erum við í stöðu til að draga Breta eða Hollendinga að samningaborðinu til að ná niðurstöðu um Icesave,
Í kvöldfréttum RÚV (15.01.2010) var talað um að stela og ræna, og er svo sem ekkert rangt við þaða annað en að orðin þýða það sama, orðtak er að ræna og rupla. Betur hefði farið á að nota það.
Rætt var um Bakkavararbræður í fréttum Stöðvar tvö (17.01.2010) og sagt.. á hvaða kjörum bræðurnir fá að kaupa á. Þarna var einu á-i ofaukið. Í sama fréttatíma (minnir mig) var talað um að setja málið á klaka. Oft er hráþýtt úr ensku og talað um að eitthvað sé sett á ís, ef eitthvað er lagt til hliðar eða sett í biðstöðu. En að tala um að segja eitthvað á klaka er nýtt í eyrum Molaskrifara. En að koma einhverjum á kaldan klaka er að koma einhverjum í vandræði eða volæði. Leika einhvern grátt.
Morgunblaðið ætti að taka upp nýjan áskriftarflokk á netinu , dánarfregnir, jarðarfarir og minningargreinar. Það mundi henta mörgum ,sem ekki hafa sérstakan áhuga á öðru efni blaðsins, en vilja gjarnan fylgjast með því hvaða samferðamenn hverfa af heimi. Minnstu munaði að Molaskrifari næði ekki að fylgja tveimur gömlum kunningjum síðasta spölinn vegna þess að andlátsfregnir höfðu farið fram hjá honum.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur Sigurðsson skrifar:
21/01/2010 at 13:53 (UTC 0)
„Í kvöldfréttum RÚV (15.01.2010) var talað um að stela og ræna, og er svo sem ekkert rangt við þaða annað en að orðin þýða það sama…“
Hér skýst Molaskrifara þótt skýr sé; orðin þýða ekki það sama.