«

»

Molar um málfar og miðla 241

Í DV (20.01.2010) segir:  Á innanhússpóstvef  Háskóla Íslands lýsa kennarar ósætti vegna ráðningar…. Molaskrifari hefur  alltaf  talið að  orðið ósætti  þýddi  ósamkomulag,ágreiningur, en  hér  virðist orðið notað í merkingunni óánægja. Nema  átt sé  við   ósætti   innan kennaraliðsins. Hinsvegar hefði mátt segja að kennarar væru ósáttir  við  ráðningu..   Í huga     skrifara  er ósætti ekki  rétta orðið í þessu  tilviki. Ef  til vill  eru þó  ekki  allir  sammála því,  -enda  mörg álitamálin   varðandi málfar og málnotkun.

 Í auglýsingu í RÚV sjónvarpi var þýddur  texti á skjánum þar sem  stóð: Ekki kaffæra mér.  Sá þetta að  vísu í sjónhendingu, en ekki samhengi.  Molaskrifari  er vanur því að sögnin að kaffæra , færa í kaf taki með sér þolfall. Ekki kaffæra  mig.  Sögnin að drekkja  tekur  hinsvegar með sér þágufall: Ekki drekkja honum.

  Ríkisútvarpið hefur ítrekað  verið misnotað  til að kynna  skottulækningar af  ýmsu tagi   eins og þær  sem  stundaðar eru á  flugvallarsvæðinu á Reykjanesi. Síðast var það umfjöllun um „kraftaverkalyfið“ MMS (miracle Mineral Solution), sem á að geta  læknað  bæði alnæmi og berkla og  ýmislegt fleira. Ríkisútvarpið  tók að sér að segja  fólki að  þetta efni sem  Eitrunarmiðstöð Landspítalans og  Landlæknisembættið hafa lýst sem  stórhættulegu, væri  í góðu   lagi og ekkert að  því að neyta þess.   Það er ekki hlutverk  Ríkisútvarpsins að  auglýsa skottulækningar og það er alvarleg misnotkun á   fjölmiðli í eigu þjóðarinnar að gera það.  Landlæknisembættið hlýtur að  grípa í taumana  og  sjá  til þess að  óprúttnir  aðilar blekki ekki  almenning.
 
Það hlýtur  að vera  slúður  sem  sagt er frá í DV (20.01.2010)  að forstöðukona  Fjölskylduhjálpar Íslands  hafi   farið beint  úr nokkurra  vikna lúxussiglingu um Karíbahaf í  afeitrunarmeðferð (detox,sem kallað er á slettumáli ) á Keflavíkurflugvelli. Molaskrifari  hélt að  svona  lúxusferðir væru  til  hvíldar og til að byggja upp andlegt og líkamlegt heilsufar. Svo virðist ekki vera og því  er fólki  líklega best að forðast slíkar reisur. Engar vísindarannsóknir  hafa  sannað að  þessi meðferð  geri nokkuð nema létta pyngju viðkomandi, enda  ekki vitað til þess að  nokkur íslenskur læknir leggi nafn sitt við   þetta peningaplokk.

 Molaskrifari benti í síðasta pistli á að Morgunblaðið ætti að  bjóða upp á  vefáskrift að dánarfregnum  og  minningagreinum.  Ágætur Molalesandi benti á  vefinn andlat.is. Hann er vissulega  til,en sá er galli á gjöf Njarðar að hann  er ákaflega lítið notaður og kemur því ekki að miklu gagni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>