Það var einkar ósmekklega og óheppilega að orði komist í frétt um harmleikinn á Haiti í fréttum Stöðvar tvö (22.01.2010) þegar fjallað var um fjöldagreftrun látinna og sagt: Yfirvöld segja að þau hafi þegar afgreitt um sjötíu þúsund lík. Það er ekki hægt að tala um að afgreiða lík.
Molaskrifari fékk boð (21.01.2010) í tölvupósti og á fésbók boð um að sækja samkomu sem kölluð var Hittingur (með stórum staf) Hittingur er einhverskonar tískusletta um þessar mundir er mikið notuð um samkomur eða fundi. Seint mundi Molaskrifari sækja slíka samkomu og ekki kjósa stjórnmálamann,sem til slíks fundar boðar.
Einsdæmi er að heyra þrjár afsökunarbeiðnir í röð, um að fólk hafi verið haft fyrir rangri sök eins og heyra mátti í fréttum RÚV (22.01.2010). Ríkisútvarpið hefur yfirleitt takmarkað leiðréttingar við það þegar farið hefur verið rangt með nöfn. Batnandi mönnum er best að lifa.
Í hádegisfréttum RÚV (21.01.2010) var talað um að ráðleggja frá. Ekki gott orðalag. Betra hefði verið að tala um að ráða frá því að gera e-ð eða ráðleggja e-m að láta eitthvað ógert. Hinsvegar eðlilegt að tala um að ráðleggja e-m e-ð.
Áfram heldur sjónvarp ríkisins að hella bjórauglýsingum yfir áhorfendur og fara þannig á svig við landslög af einstakri óskammfeilni. Á liðnu hausti ritaði Molaskrifari menntamálaráðherra bréf vegna þessa framferðis þjóðarstofnunarinnar RÚV. Svar hefur ekki enn borist.
Nú eru útsölur í algleymingi. Í Fréttablaðinu (21.01.2010) er auglýsing frá fyrirtækinu Tölvutek,sem er líklega einhverskonar apótek fyrir tölvubúnað. Í auglýsingunni segir: Stútfullar verslanir af nýjum tilboðum. Molaskrifari skilur að verslanir geti verið stútfullar af nýjum vörum , en tilboð eru ekki varningur og því geta verslanir ekki verið stútfullar af tilboðum. Í auglýsingunni er líka talað um opnunartíma í fleirtölu. Er þá þá átt við þann tíma sem verslunin er opin eða þann tíma þegar hún er opnuð. Eðlilegra væri að segja: Verslunin er opin: Virka daga 10:00 – 18:30 Laugardaga 11:00 til 16:00
Skildu eftir svar