«

»

Molar um málfar og miðla 245

Á baksíðu Fréttablaðsins (26.01.2010) er auglýsing  frá fyrirtækinu Svefni og heilsu,sem selur rúm og dýnur.  Þar er  talað um íslenska botna, rúmbotna. Gott og gilt. En svo er talað um höfuðgafla. Það orð hefur Molaskrifari ekki heyrt og  finnur  ekki í  tiltækum orðabókum. Á íslensku er talað um höfðagafl, höfðagafla , þótt  ekki sé það  kannski alveg rökrétt,  en átt er við þann „gafl rekkju (líkkistu) sem höfuðið liggur að”,  eins og segir í  Íslenskri orðabók. Það er höfuðgalli á þessari auglýsingu, að þar skuli talað um höfuðgafla.

 Einkennilegt var að  hlusta á  fréttamann  RÚV sjónvarps (24.01.2010) í frétt um  hörmungarnar á Haiti  segja,  að  aðstoð hefði komið frá öllum Norðurlöndunum og líka frá Íslandi. Ísland er eitt Norðurlandanna og því átti ekki að orða þetta svona.

  Ekki er rétt að ráðleggja  þeim sem fást við  skriftir að  forðast  orðtök sem,  eru  viðurkennd og  föst í tungunni.  Mörg orðtök sem við notum í dag eiga  til dæmis rætur í Íslendingasögum.- Ber er hver að baki nema  sér   bróður eigi (Bert er bróðurleyst bak,segja Færeyingar), eða  illt er eggja óbilgjarnan svo nefnt sé annað dæmi.. Önnur orðtök  tengjast atvinnuvegum eins og , að hafa mörg járn í eldinum, og að  sitja  við  sinn keip. Það er engum til að skaða að nota slík  orðtök , en  þau verður að nota  rétt. Ofnotkun er auðvitað alltaf  slæm,  hvað sem í hlut á.

 Í dv.is (25.01.2010) er þetta að  finna: ..hefur gert athugasemd við handrit af sögu Menntaskólans á Ísafirði.  Það stríðir gegn málvitund  Molaskrifara  að tala um  handrit af sögu. Í Íslenskri  orðabók  er talað um handrit að bók.

 Huginn Freyr Þorsteinsson var með bestu  greiningu og skýringu á Icesavemálinu í Silfri Egils (24.01.2010),sem Molaskrifari hefur til þessa  heyrt.  Framlag þingmanns Hreyfingarinnar í þessa umræðu var ekki upp á  marga fiska. Enn furðulegra  var að heyra  þennan sama þingmann Birgittu Jónsdóttur hneykslast á   og fordæma  að skríllinn sem  réðist inni í þinghúsið  ( það voru ekki friðsamir mótmælendur) og limlesti starfsfólk og  beit  lögreglumann skuli hafa sætt ákæru. Einhver  eða einhverjir þeirra, sem  þetta lið réðist á hafa hlotið af varanlega örorku. Þetta kallaði  alþingismaðurinn  Birgitta Jónsdóttir  „háreysti og einhverja pústra”.

Leitt er  til þess að vita að  fólk, sem  svona talar, skuli kjörið  til setu á Alþingi Íslendinga. Auðvitað var þetta hárrétt ákvörðun hjá   skrifstofustjóra þingsins.  Svo talaði þingmaðurinn um að „taka frumvörp í gegn”. Líklega átti hún við að  afgreiða frumvörp,sem lög frá  Alþingi.   Annars hefur orðtakið að taka  í gegn ýmsar merkingar í talmáli, eins og  til dæmis  að gera hreint ( ég tók allt í gegn  fyrir helgina) ,   gera upp  eða  endurgera (húsið var alveg tekið í gegn). Einnig  getur  þetta merkt  að  veita  einhverjum áminningu  eða  ráðningu (Hann var heldur betur tekinn í gegn á  fundinum). Aldrei hefur Molaskrifari þó heyrt þetta notað um að afgreiða lög  frá Alþingi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>