«

»

Molar um málfar og miðla 252

Þeir sem koma fram í fjölmiðlum, hvort sem það eru fréttamenn, stjórnmálamenn eða aðrir, eiga að temja sér skýran framburð. Meðan Frjálslyndi flokkurinn var og hét , var algengt að heyra forystumenn hans tala um Frjáslda flokkinn. Í morgun (04.02.2010) sagði útvarpsstjóri Útvarps Sögu: .. áður en við heyrum hljóstina, – hljómsveitina , átti það auðvitað að vera. Hvorugt er til eftirbreytni.

Öndvegisdæmi um þvælumálfar, eða stofnanamál, er að finna í auglýsingu prófkjörsframbjóðanda í Garðapóstinum (04.02.2010), en þar segir orðrétt: Lágar álögur og velferðaráhersla er raunhæft markmið með réttri forgangsröðun. Óttalegt klúður. Snyrtilegur prófkjörskynningar miði var settur inn um póstlúguna hjá Molaskrifara. Þar var gætt hófs í kostnaði, því miðinn er renningur, eins og bókmerki. Góð hugmynd,sem ekki hefur verið dýr í framkvæmd. En á miðanum stendur meðal annars: Veljum nýjan valkost í forystusveit. Velja valkost? Eins verður Molaskrifari að játa, að hann skilur ekki hvernig snyrtikrem stinnir húðina innanfrá ? En þannig er komist að orði í sjónvarpsauglýsingu.

Í sexfréttum RÚV (04.02.2010) var var talað um kvenbjörn. Íslenska orðið yfir kvenkyn þessarar dýrategundar hefur fram til þessa verið, og verður vonandi áfram, birna.

Í fréttum Söðvar tvö var fjallað um lúxusvillur íslenskra fjárglæframanna í London og tvívegis talað um að sum húsin væru metin á fleiri milljarða króna. Fleiri en hvað? Hér hefði átt að tala um marga milljarða eða mörg hundruð milljónir eins og réttilega var sagt í Íslandi í dag. á sömu stöð.

Ágæt umfjöllun var um hugtakið landráð í Kastljósi (04.02.2010). Undanfarin misseri hafa landráðabrigsl verið býsna tíð og menn jafnvel kallaðir Kvislingar. Það var gott hjá Guðna Th. Jóhannessyni sagnfræðingi að nefna Norðmanninn Vidkun Quisling, sem dæmi um landráðamann,föðurlandssvikara. Þetta var líka þörf áminng um gengisfellingu orða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>