«

»

Molar um málfar og miðla 251

Í hádegisfréttum RÚV (03.02.2010) var fjallað um fjárhagsvanda Álftaness. Talað var um að koma þyrfti í veg fyrir fólksflótta úr byggðarlaginu, en þess sé farin að berast merki nú þegar. Eðlilegra hefði verið að segja, að þess sæjust merki nú þegar. Í sömu frétt var talað um að setja á sérstaka stjórn yfir sveitarfélaginu. Eðlilegra hefði verið, að mati Molaskrifara, að tala um að setja sérstaka stjórn yfir sveitarfélagið, eða setja sveitarfélaginu sérstaka stjórn.

Alltaf á Molaskrifari erfitt með að fella sig við orðalagið að taka yfir rekstur. Í fréttum RÚV Sjónvarps (02.02.2010) talaði fréttaþulur um að Suðurnesjamenn vildu taka hann (reksturinn) yfir Hversvegna ekki , …taka við rekstrinum, eða taka að sér rekstur eða annast rekstur ? Í sama fréttatíma var sagt: Í Danmörku gekk stórhríð yfir… Ef til vill hefði verið eðlilegra að segja að stórhríð hefði geisað í Danmörku.

Æ oftar heyrist orðalagið að eitthvað hafi farið úr skorðum, – eitthvað hafi raskast eða farið úr lagi. Þetta er Molaskrifara framandi. Hann hefur ævinlega heyrt talað um að eitthvað hafi gengið úr skorðum. Má þó auðvitað vera að hvort tveggja sé rétt.

Engin ástæða til að lympast niður,er tvísagt á vef RÚV (03.02.2010) . Íslensk orðabók segir að limpa eða lymja þýði lasleiki. Að lyppast niður er hinsvegar algengt orðatiltæki og þýðir að gefast upp. Það er ekkert til ,sem heitir að lympast niður. Þetta var svo leiðrétt síðar á vef RÚV.

Skemmtilegar voru fréttir RÚV sjónvarps (03.02.2010) um fuglabók Gröndals, sannkallað listaverk, og hinn drátthaga níu ára snilling í Flóanum. Hann á örugglega eftir að láta til sín taka. María Sigrún Hilmarsdóttir hefur þægilega rödd og er prýðilegur fréttaþulur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>