«

»

Molar um málfar og miðla 256

Ríkisútvarpið á hrós skilið fyrir umfjöllun um íslenskt mál á fimmtudags- og föstudagsmorgnum í morgunþætti Rásar eitt, Víðu og breiðu. Sömuleiðis ber að hrósa Morgunblaðinu fyrir að birta nú vikulega pistla í Lesbók um íslenska tungu. Þetta er allt af hinu góða.

Svona breytist tungan: „Það verður bara ekki gefist upp“, sagði framhaldsskólanemi í fréttum RÚV sjónvarps (08.02.2010). Við , sem eldri erum ,hefðum sennilega sagt: „Við ætlum ekki að gefast upp“, eða „ við gefumst ekki upp“. Í þessum sama fréttatíma var sagt að hollenski seðlabankastjórinn,„ segðist hafa fengið öndvert mat á stöðu íslensku bankanna“. Orðið öndvert er rangt í þessu samhengi. Það sem átt er við er, að seðlabankastjórinn hafi fengið misvísandi upplýsingar um stöðu íslensku bankanna. Vísa annars á Íslenska orðabók um merkingu orðsins öndverður.

Stundum er það þannig hjá RÚV í Efstaleitinu, að það er eins og fólk hlusti ekki á útvarpið. Í átta fréttum (12.02.2010) var augljós málvilla , þegar fréttamaður tók svo til orða : „…. þegar þeir reyndu að koma tóg í skrúfu japansks skips“. Þarna átti auðvitað að segja, – reyndu að koma tógi…. Þessi villa var svo endurtekin í aðalfréttatíma í hádeginu. Í þessu tilviki er bara tvennt til. Annaðhvort vita menn ekki hvernig orðið tóg (tó), reipi eða kaðall beygist, – tóg um tóg frá tógi til tógs, eða menn hlusta ekki á eigin fréttir. Veit ekki hvort er verra.

Í sex fréttum RÚV (08.02.2010) var sagt: „ … og hefur hún ærin verkefni fyrir höndum“. Ekki er þetta orðalag Molaskrifara að skapi. Heldur hefði átt að segja , til dæmis, – og á hún ærin verkefnum fyrir höndum , eða og bíða hennar ærin verkefni.

Í viðtali (RÚV 08.02.2010) um kæru vegna utankjörfundaratkvæða í prófkjöri VG í Reykjavík um helgina talaði formaður kjörstjórnar um „hinn póstlega hluta í kosningunum“. Þetta orðalag hefur Molaskrifari aldrei heyrt áður og vonar að hann heyri aldrei aftur.

„470 kannabisplöntur upprættar“, segir á mbl. is (08.02.2010). Vel að orði komist. Að uppræta ´þýðir að rífa upp með rótum, útrýma,eyða.

Bjarni Sigtryggsson vakti athygli Molaskrifara á eftirfarandi úr dv. is (07.02.2010) : „Þar segir: „… en í honum voru kveikjuláslyklar bifreiðarinnar.“ Kveikjuláslyklar! . Í sömu frétt stóð þetta: „Lýst er eftir grárri Subaru Impreza bifreið en hún er mikið tjónuð á vinstra framhorni .“ Sem er mikið tjónuð!“ Fráleitt er að segja „ tjónuð“ um bifreið ,sem orðið hefur skemmdum. Molaskrifari bendir hinsvegar á að kveikjuláslykill er orð sem oft hefur verið notað yfir það sem líka var kallað, „ svisslykill“. Nú tala menn hinsvegar bara um bíllykil eða bíllykla. Sem er alveg prýðilegt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>